Heilsa og líðan nær og fjær

Langtímarannsókn á líkamlegri og andlegri heilsu íslenskra ungmenna

Þuríður Helga Ingvarsdóttir, doktorsnemi, MVS HÍ, Erlingur Jóhannsson, prófessor, MVS HÍ og Nanna Ýr Arnardóttir, lektor, HA

Sýnt hefur verið fram á jákvæð áhrif hreyfingar á líkamlega og andlega heilsu barna og unglinga, en langtímarannsóknir þar sem notast er við hlutlægar mælingar á hreyfingu eru þó enn af skornum skammti. Tilgangur þessa doktorsverkefnis er að kanna þróun langtímabreytinga á hreyfingu íslenskra ungmenna fæddum árið 1999 og samband við þrek, líkamssamsetningu, efnaskiptaþætti og andlega líðan þeirra. Þátttakendur í rannsókninni voru reykvísk ungmenni sem rannsökuð voru á fjórum tímapunktum, þ.e. árið 2006 (7 ára, fjöldi = 268), 2008 (9 ára, fjöldi = 256), 2015 (16 ára, fjöldi = 315) og 2017 (18 ára, fjöldi = 236). Í fyrstu vísindagreininni verður notast við lýsandi tölfræði til að kanna hvernig hreyfing ungmennanna breytist frá 7 til 18 ára aldurs og hvort greina megi mun á kynjum. Þá verður mögulegt tvístefnusamband hreyfingar og líkamssamsetningar kannað (vísindagrein II) og hvort breytingar á hreyfingu frá barnæsku til unglingsára tengist efnaskiptaþáttum (vísindagrein III) og andlegri líðan (vísindagrein IV) á unglingsárum. Að framkvæmdar séu langtímarannsóknir á lifnaðarháttum ungs fólks er ótvírætt mjög dýrmætt og skapar mikilvæga þekkingu í vestrænum þjóðfélögum. Því er augljóst að niðurstöður þessarar rannsóknar munu auka vitneskju okkar um þróun ýmissa heilsufarslegra þátta meðal íslenskra ungmenna og skila mikilvægum upplýsingum til heilbrigðis- og menntastofnana á Íslandi.

Einmanaleiki, hamingja, hreyfing og streita hjá ólíkum aldurshópum: Heilsa og líðan Íslendinga

Þröstur Hjálmarsson, meistaranemi, MVS HÍ og Erlingur Jóhannsson, prófessor, MVS HÍ

Markmið rannsóknar var að kanna einmanaleika-, streitu- og hamingjusvörun út frá lýðfræðilegum breytum svo sem kyni, aldri, menntun og tekjum. Auk þess að skoða áhrif rösklegrar hreyfingar á einmanaleika, streitu og hamingju og breytingar á magni hreyfingar með hækkandi aldri. Notuð voru gögn úr könnuninni Heilsa og líðan Íslendinga sem Embætti landlæknis framkvæmdi og er frá árinu 2017. Spurningalisti var sendur til 9.887 Íslendinga og af þeim svöruðu 6.776 einstaklingar könnuninni. Gagnlíkindahlutfallið fyrir streitu, einmanaleika og hamingju var reiknað og notuð voru vigtuð gildi þar sem vigtað var eftir kyni, aldri og búsetu. Þýðinu var skipt niður í fjóra aldurshópa (18-30 ára, 31-43 ára, 44-66 ára og 67 ára og eldri). Niðurstöður sýna að konur upplifðu oftar einmanaleika og streitu en karlar (p-gildi: <0,001) en enginn munur greindist á hamingjusvörun milli kynja. Tíðni einmanaleika og streitu lækkaði með hækkandi aldri (p-gildi: <0,001) á meðan hamingjusvörun hækkaði með auknum aldri (p-gildi: <0,001). Allt framhaldsnám hafði jákvæð áhrif á hamingjusvörun (p-gildi: <0,001) og verndandi áhrif gegn einmanaleika (p-gildi: <0,001). Tíðni einmanaleika lækkaði með hækkandi tekjum (p-gildi: <0,001) og hamingjusvörun hækkaði með hækkandi tekjum (p-gildi: <0,001). Hreyfing hafði verndandi áhrif gegn streitu og einmanaleika (p-gildi: <0,001) og jákvæð áhrif á hamingjusvörun (p-gildi: <0,001). Engar marktækar breytingar urðu á magni hreyfingar með hækkandi aldri. Efla þarf stuðning við yngsta aldurshópinn í íslensku samfélagi. Einstaklingar sem hreyfa sig lítið og eru með lágar tekjur eru í hættu að upplifa einmanaleika, streitu og að vera óhamingjusöm.

Notkun tóbaks meðal unglinga sem ganga í skóla í Bissá, Gíneu-Bissá

Jónína Einarsdóttir, prófessor, FVS HÍ, Thomas A. Whitehead, meistaranemi, FVS HÍ, Aladje Baldé, rektor, Jean Piaget háskólinn í Gíneu-Bissá, Zeca Jandi, doktorsnemi, Universidade Federal da Bahia, Brasilíu, Hamadou Boiro, doktorsnemi, FVS HÍ og Geir Gunnlaugsson, prófessor, FVS HÍ

Algengi tóbaksreykinga er lægra í Afríku sunnan Sahara samanborið við aðra heimshluta, enda horfa tóbaksfyrirtækin á álfuna sem tækifæri fyrir aukna markaðshlutdeild. Rannsóknin miðar að því að lýsa og greina reykingar sígarettna og notkun vatnspípna meðal unglinga sem sækja skóla í höfuðborginni Bissá. Í júní 2017 var spurningalisti, byggður á Planet Youth samstarfinu, lagður fyrir handahófskennt úrtak unglinga í 16 skólum; alls svöruðu 2.039 nemendur á aldrinum 14-19 ára spurningalistanum (52% stúlkur). Gögnin voru greind með lýsandi tölfræði, kí-kvaðrat prófið var notað (p<0,05) og líkindahlutföll (OR) reiknuð með 95% öryggisbili (CI). Lífsreynsla af sígarettureykingum var 15% og um 2% fyrir daglegar reykingar þar sem marktækt fleiri strákar reyktu en stúlkur; aftur á móti höfðu tæplega 18% reykt vatnspípu, án kynjamunar. Mikilvægir áhrifaþættir fyrir alla þrjá hópana (reykingar alla ævi, daglegar reykingar og lífstíðarnotkun vatnspípna) voru að hafa verið drukknir og eiga vini sem reyktu og fjölskyldumeðlimi sem reyktu daglega. Gögn benda til þess að þeir sem reyktu daglega hefðu reynslu af ofbeldi og að foreldrar sýni daglegu lífi þeirra takmarkaðan áhuga. Þeir sem höfðu reynslu af því að reykja vatnspípu voru marktækt líklegri til að hafa reynslu af neyslu áfengis og kannabis, verið reknir úr skóla og eiga foreldra sem þekktu ekki foreldra vina þeirra. Í samanburði við önnur lönd sunnan Sahara og víðar, þá er algengi sígarettureykinga í Bissá í lægri kantinum meðal unglinga. Lágt algengi daglegra reykinga gefur einstakt tækifæri til að huga vel að tóbaksvörnum meðal unglinga með sérstaka athygli á kynjamun neyslunnar.

Velsældarmenntun – virkar hún? Áhrif íhlutunar á lífsánægju/velsæld og sjálfsvinsemd framhaldsskólanemenda í Flensborg 2017-2022 – auk samanburðarhóps 2022

Borghildur Sverrisdóttir, framhaldsskólakennari, Flensborgarskólinn í Hafnarfirði

Tilgangur rannsóknar er að skoða hvort íhlutun á velsældarkennslu með aðferðum jákvæðrar sálfræði og núvitundar auki lífsánægju/velsæld og sjálfsvinsemd framhaldsskólanemenda í Hafnarfirði. Markmið rannsóknar er að sýna fram á mikilvægi velsældarkennslu á framhaldsskólastigi og jafnvel á öllum skólastigum fyrir lífsánægju, sjálfsþekkingu og námsárangur nemenda. Gerð var íhlutunarrannsókn 2017-2022 í áfanganum Jákvæð sálfræði og núvitund við Flensborg í Hafnarfirði. Þátttakendur í rannsókninni (sem svöruðu kvörðunum) voru 115 (Lífsánægjukvarði) og 104 (Sjálfsvinsemdarkvarði). Vorið 2022 var svo gerð samanburðarrannsókn (SH), þar sem samanburðarhópur (N=15) fékk enga íhlutun en tók kvarðana tvo í upphafi og lok annarinnar. Rannsóknin er megindleg. Mælitækin voru tveir sjálfsmatskvarðar; Lífsánægjukvarði Dieners (e. Subjective well-being scale – SWLS) og Sjálfsvinsemdarkvarði Neff (e. Self-compassion scale). Kvarðarnir voru lagðir fyrir þátttakendur í upphafi og í lok annar og niðurstöður bornar saman. Helstu niðurstöður eru að lífsánægja tilraunahópa (TH) jókst að meðaltali um rúm 11 prósentustig eftir íhlutun þessi sex ár, en lífsánægja SH árið 2022 dróst saman á tímabilinu um 2 prósentustig. Langflestir í TH (80%) juku lífsánægju sína eftir íhlutun. Helstu niðurstöður eru að sjálfsvinsemdin jókst að meðaltali um 11 prósentustig eftir íhlutun hjá TH en var nánast sú sama í upphafi og lok annar hjá SH 2022. Langflestir í TH (94%) juku sjálfsvinsemd sína eftir íhlutun. Niðurstöðurnar sýna góðar vísbendingar um jákvæð áhrif velsældarkennslu og hversu mikilvæg hún sé til að efla lífsánægju og velsæld nemenda og þar með námsárangur og um leið til að draga úr kvíða og þunglyndi. Unnið er að marktektarprófi fyrir niðurstöður og nánari tölfræðiútreikningi.