Háskólakennsla

Raunfærnimat í leikskólakennarafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Kristín Erla Harðardóttir, forstöðukona Menntavísindastofnunar, HÍ, Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, dósent, MVS HÍ og Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Markmið rannsóknarinnar er að þróa aðferðir í raunfærnimati sem gagnast vel til að meta þá þekkingu og hæfni sem nemendur öðlast í starfi í leikskóla út frá hæfniviðmiðum námskeiða í grunnnámi í leikskólakennarafræði við Háskóla Íslands. Fjögur grunnhugtök tengjast raunfærnimati, ferilmappa, skimunarlisti, sjálfsmatslisti og matssamtöl. Sjónum er beint að þeim aðferðum sem stuðst er við í matssamtölunum og upplifun nemenda og matsaðila af þeim. Meginmarkmið raunfærnimats er að einstaklingur fái viðurkennda þá reynslu sem hann hefur öðlast utan veggja skóla þannig að hann þurfi ekki að sækja nám í því sem hann þegar kann. Raunfærnin ætti í kjölfar mats að leiða til styttingar á námi en um leið þarf að sjá til þess að ekki sé dregið úr mikilvægi og gæðum námsins. Stuðst var við fjölbreyttar aðferðir í matssamtölum sem tóku mið af hæfniviðmiðum, kennslu og verkefnum námskeiðanna sem voru til raunfærnimats, svo sem beinum frásögnum, verkefnum tengdum áætlanagerð, klípusögum, myndböndum, greinalestri og dæmum úr starfi. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að nemendum fannst matssamtölin krefjandi. Þeim fannst undirbúningur fyrir samtölin góður og töluðu um að allir sem að ferlinu komu hafi verið hjálpsamir og hvetjandi. Nemendum fannst matsaðilar taka sér góðan tíma til að hlusta á sig í samtalinu. Að mati matsaðila sýndu samtölin og verkefnin þeim tengdum vel þá þekkingu og hæfni sem nemendur höfðu öðlast í starfi. Niðurstöðurnar styðja við þá hugmynd að mikilvægt er að gefa ófaglærðu starfsfólki leikskóla tækifæri til þess að fá reynslu sína og þekkingu metna til styttingar á leikskólakennaranámi.

Læra nemendur af því að fá einkunnir fyrir heimadæmi?

Ásdís Helgadóttir, dósent, VoN HÍ

Í verkfræði eru regluleg heimadæmi oft notuð til gefa nemendum tækifæri til að spreyta sig á verkefnum tengdum efni námskeiðs. Flestir eru sammála um að tilgangur heimadæmanna er að aðstoða nemendur við að tileinka sér námsefni og ættu því að vera leiðsagnarmat (sem einnig er ætlað til að læra af). Þrátt fyrir það er algengt að einkunn sé gefin fyrir heimadæmin og að þau gildi til lokaeinkunnar í námskeiði. Heimadæmin eru því í huga nemenda og kennara lokamat fremur en leiðsagnarmat líkt og eðlilegra væri. Nemendur kunna oft að meta að fá erfiði sitt metið til hækkunar á lokaeinkunn en það getur líka aukið hvatann til að svindla. Vinni nemendur ekki sjálfstætt í heimadæmum læra þeir þó lítið af þeim því lærdómurinn kemur frá því að reyna að leysa dæmin (og jafnvel frá því að mistakast það). Því ákvað kennari að hætta að gefa einkunn fyrir heimadæmi en gefa í staðinn ítarlega persónulega umsögn. Áhrif breytinganna eru að mestu metin út frá opnum svörum í kennslukönnun (þemu flokkuð og greind) en einnig út frá áhrifum á lokaeinkunn og út frá ígrundun kennara. Við að sleppa einkunn finnst nemendum þeir læra meira, upplifa minni pressu, finnst það hvetjandi til að vinna sjálfstætt í dæmunum, telja að svindl minnki, kunna að meta að fá ítarlega og tímalega endurgjöf. Það er því til mikils að vinna að gefa umsögn í stað einkunnar fyrir heimadæmi. Erindið mun einnig fjalla um næstu skref og hvaða hindranir standa í vegi fyrir þessu fyrirkomulagi.

Raddir nemenda: „Intensive course“ námskeið í fjórum löndum 2017-2022

Steingerður Kristjánsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði hefur verið í samstarfi við fjóra háskóla í þremur löndum undanfarin sex ár þar sem haldin hafa verið námskeið (e. Intensive course) með samvinnu kennara frá þessum háskólum. Markmið með rannsókninni var að kanna hvernig nemendur upplifðu þetta fimm daga námskeið sem haldin voru á árunum 2017-2022, eða alls fjögur námskeið í fjórum mismunandi löndum. Á námskeiðunum unnu nemendur í hópum sem voru blandaðir m.t.t. þjóðernis og skiluðu af sér niðurstöðum í lok námskeiðsins. Spurningar voru lagðar fyrir nemendur rafrænt eftir hvert námskeið og alls bárust svör frá áttatíu og tveimur nemendum. Rannsókninni var meðal annars ætlað að varpa ljósi á þýðingu námskeiðsins fyrir nemendur og hvort lærdómur nemenda var í samræmi við námsmarkmið hvers námskeiðs. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að meirihluti nemenda er ánægður með fyrirkomulag námskeiðanna og innihald þeirra. Í opnum spurningum kom einnig fram að nemendur töldu sig hafa dýpkað reynslu sína í viðkomandi viðfangsefni og víkkað sjóndeildarhringinn. Rannsóknin gefur sterklega til kynna að nemendur upplifa og læra mikið af því að hittast á alþjóðavísu, deila reynslu sinni og þekkingu. Það er nauðsynlegt að rannsaka enn frekar gildi alþjóðlegrar samvinnu þar sem þessi rannsókn veitir einungis innsýn í reynsluheim fárra nemenda en gefur engu að síður til kynna að samstarf af þessu tagi skili sér margfalt til nemenda. Bæði sem aukin þekking og víðsýni en ekki síst sem persónuleg reynsla sem nemendur búa að í sínu námi og störfum.

Dante – menntahugsuður fyrir okkar tíma

Jón Ásgeir Kalmansson, aðjúnkt, MVS HÍ

Ýmsir hafa haldið því fram að við lifum á tímum vaxandi upplausnar á sviði menningar, siðferðis og stjórnmála. Sumir, til dæmis kanadíski vitsmunavísindamaðurinn John Vervaeke, tala um víðtæka merkingarkreppu í þessu sambandi, sem birtist meðal annars í aukinni tíðni þunglyndis, kvíða og sjálfsmorða hjá ungu fólki, vaxandi einmanaleika og tilfinningu fólks fyrir að lifa í heimi firringar og falsfrétta, minnkandi þátttöku almennings í trúarlegu starfi og stofnunum samfara tilbeiðslukenndu sambandi við tæki á borð við snjallsíma og samfélagsmiðla, og svo framvegis. Eigi þessi lýsing við rök að styðjast vaknar sú spurning hvernig sé best að bregðast við slíku ástandi; hvernig sé hægt styrkja trú fólks á að veruleikinn hafi merkingu og lífið sé sannarlega þess virði að lifa því. Í fyrirlestrinum verður sú tillaga tekin til heimspekilegrar greiningar og rökræðu að skáldskapur og heimspekileg hugsun ítalska skáldsins Dantes komi að góðum notum í þessu sambandi. Varpað verður ljósi á hvernig margvíslegar hliðar á höfuðverki Dantes, Gleðileiknum guðdómlega, hjálpa okkur að hugsa um merkingu og gildi, dygðir og lesti, sælu og synd. Meðal þema sem tekin verða fyrir er sú mannlega tilhneiging að rata í (merkingar)kreppu eða blindgötu, lífið sem ferðalag eða pílagrímsför, afstaðan til þjáningar, alltumlykjandi mikilvægi langana og ástar, mikilvægi þess að sjá heiminn undir öðru sjónarhorni en hversdagslega, og mörg fleiri. Leitast verður við að sýna hvernig höfuðverk Dantes er eitthvert áhrifamesta meðal gegn merkingarleysi og tómhyggju sem um getur og hvernig það á því erindi við okkur í samtímanum sem aldrei fyrr.