Framhaldsskólinn: Seinni hluti

Væntingar um framtíðina og brotthvarf frá námi

Ingibjörg Jónsdóttir Kolka, doktorsnemi, MVS HÍ og Kolbeinn Stefánsson, dósent, FVS HÍ

Markmið rannsóknarinnar eru meðal annars að draga fram þá þætti í félagslegum og efnahagslegum aðstæðum ungs fólks sem auka hættuna á brotthvarfi frá námi. Rannsóknin er blönduð og byggir annars vegar á megindlegum gögnum og hins vegar á eigindlegum gögnum. Megindlegu gögnin eru skráargögn frá Hagstofu Íslands sem spanna tvo árganga, fædda 1995 og 1996, og innihalda ýmsar upplýsingar um félagslega og efnahagslega stöðu þeirra og fjölskyldna þeirra sem varpa ljósi á samband félagslegrar og efnahagslegrar stöðu við brotthvarf úr námi. Eigindlegu gögnin eru lífssöguleg viðtöl við fólk sem fékk tækifæri til að fara aftur í nám í kjölfar atvinnuleysis. Þetta átak var samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins og ríkisins til að bregðast við atvinnuleysi í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Notuð er þemagreining til að greina viðtölin. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að ýmislegt í aðbúnaði ungs fólks og ekki síður aðbúnaði fjölskyldu þess skipti sköpum þegar kemur að hættu á brotthvarfi. Má þar nefna slagkraft heimilisins til að hvetja og styðja við sitt fólk. Atriði sem draga úr honum eru til dæmis langvarandi veikindi, neysla, litla tekjur, menntun foreldra, umönnunarábyrgð, búseta og síðast en ekki síst sjálfsmynd fjölskyldunnar og sjálfsmynd barna hennar. Sjálfsmyndin og  þær fyrirmyndir sem börn hafa til að spegla sig í ráða miklu um væntingar þeirra um framtíðina og hvernig þeim mun vegna í framhaldsskóla.

„Lærdómssamfélag – samfélag til framtíðar“ Nýsköpunar- og listabraut í Fjölbrautaskólanum við Ármúla

Gréta Mjöll Bjarnadóttir, doktorsnemi, MVS HÍ, Þór Elís Pálsson, framhaldsskólakennari, Fjölbrautaskólinn við Ármúla og Jeannette Castioni, framhaldsskólakennari, Fjölbrautaskólinn við Ármúla

Um er að ræða starfendarannsókn (ABAR – Art based action research) með virkri þátttöku nemenda í nýsköpunaráfanga, listkennurum og stjórnendum skólans. Viðfangið er þróun tveggja ára starfsnáms í listum til þriggja ára stúdentsprófs með sameiginlegri iðjutengdri skapandi rannsókn. Markmiðið er að styrkja lærdómssamfélag brautar með möguleika á að nemendur og kennarar sýni uppeldisfræðilega ábyrgð og efli tengsl sín á milli, sem auðveldar þeim að deila reynslu og skapa þekkingu á jafningjagrundvelli. Jafnframt er hugað að félagslega þætti námsins. Rýnt verður í tilgang námsins í samhengi við framtíðarsýn nemenda og eflingu sjálfræðis þeirra. Staða námsbrautar rýnd í upphafi, kostir og gallar, hagnýtir þættir, listræn gildi og þarfir til framtíðar. Skoðun áfanga, hafin umræða og breytingarferli á kennsluháttum, kennsluefni, þverfaglegri kennslu, samvinnu, (rými skólans o.fl.) Skipulagning svæða, vinnusvæði, opin svæði. Litið til stundatöflu, lengd tíma og annað sem áhrif á velsæld í skólanum. Unnið er með spurningalista og rýnihópa til að fá fram sjónarmið nemenda, kennara og stjórnenda s.s. kosti, galla, þarfir og hugmyndir. Allir rannsóknaraðilar halda  rannsóknardagbók og skrásetja þróunarferli listrænna nálgana. Úrvinnsla og þróun gagna byggist á samræðu og ígrundun, þar sem hugsun og skynjun speglar sýn rannsakanda og verður hvati framkvæmda. Miðlun rannsókna og árangur nemenda jafnóðum með sýningum, útgáfu eða á stafrænum miðlum. Upptökur, skrif, ljóðagerð, myndræn vinna, tónlist, hlaðvörp, ljósmyndir, myndbönd, teikningar og þrívíddarverk af hönnun, gjörningar, opnir fundir, uppákomur, dans, tónlist og annað frá þróunarferlinu. Þetta er nýsköpunarverkefni í skólaþróun en einnig í listrannsóknum því vinnuferli iðjutengdra skapandi viðfangsefna hafa lítt verið rannsökuð hér á landi.

Student´s voices – Raddir nemenda

Hildigunnur Gunnarsdóttir, Alexandra Viðar, Ásdís Arnalds, Ásdís Ingólfsdóttir, Hildigunnur Gunnarsdóttir og Þórdís Eyvör Valdimarsdóttir, framhaldsskólakennarar í Kvennaskólanum í Reykjavík

Verkefnið Students’ Voices, sem fimm kennarar tóku þátt í á árunum 2017-2019 fyrir hönd Kvennaskólans í Reykjavík, fékk ný evrópsk menntaverðlaun: 2021 European Innovative Teaching Award. Verkefnið var unnið í samstarfi við Landakotsskóla, skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og skóla í Danmörku og Finnlandi. Í Kvennaskólanum var stuðst við megindlegar og eigindlegar aðferðir til að kanna meðal nemenda viðhorf þeirra til kennsluaðferða og skilvirkni náms- og kennsluaðferða. Markmiðið var að nemendur taki virkan þátt í umræðu um nám og kennslu. Að gera nemendur að virkum þátttakendum í því að þróa kennslu og kennsluaðferðir. Að vinna gegn brotthvarfi nemenda, efla lýðræðislega kennsluhætti og auka ábyrgð og þátttöku nemenda í þróun kennsluhátta. Opnar spurningar voru lagðar fyrir um fimmtíu nemendur um hvernig kennslu- og námsaðferðir þeim fannst nýtast sér best. Einnig ræddu kennararnir við nemendur sína í rýnihópum, þar sem valdir voru nemendur af öllum brautum skólans. Niðurstöður kannananna voru notaðar til að þróa og prófa nýjar kennsluaðferðir og nemendur voru í kjölfarið spurðir um árangur þeirra og fengu að tjá sig í umræðuhópum. Niðurstöðurnar sýndu að nemendur höfðu mismunandi skoðanir á hvaða námsaðferðir þeim hentaði best til að mynda samvinnunám/einstaklingsnám, lestur námsefnis, umræður o.s.frv. Þó væri leiðinlegt til lengdar að kennari beitti alltaf sömu kennsluaðferðinni. Nemendur voru sammála um og lögðu flestir áherslu á að fjölbreyttar kennsluaðferðir skiptu mestu máli fyrir alla nemendur.