Framhaldsskólinn: Fyrri hluti

Gulur, rauður, grænn – eða hvað?

Hafsteinn Óskarsson, framhaldsskólakennari, Menntaskólinn við Sund og Sigurrós Erlingsdóttir, framhaldsskólakennari, Menntaskólinn við Sund

Rannsóknin sem hér verður lýst er tilraun til breytingar á námsmati í anda leiðsagnarnáms. Um er að ræða samstarf tveggja framhaldsskólakennara í tveimur ólíkum greinum, hagfræði og íslensku. Breytingin er frá einkunnaskalanum 1-10 yfir í þrískiptan kvarða, litakóða með grænum, gulum og rauðum lit. Reynt var að finna út hvort litakóði, sem miðast við námsviðmið, stuðlaði að námsmenningu þar sem nemendur ígrunduðu vinnu sína og vildu gera betur. Námsmatsaðferðir voru fjölbreyttar og leiðsögn til nemenda fólst í því að meta hvernig þeim gekk að ná námsviðmiðum, með áherslu á framgjöf. Fræðimennirnir Wiliam annars vegar og Hattie og Clarke hins vegar hafa fjallað um hvernig einkunnir geta gert nemendur fráhverfa því að skoða leiðsögn kennara um úrbætur. Einkunnir virðast í hugum nemenda jafngilda því að verki sé lokið og því ljóst að þörf er á breytingum. Rannsóknin er starfendarannsókn byggð á kenningum Jean McNiff og stóð yfir í tvær 12 vikna námsannir skólaárið 2021-2022, í einum áfanga á önn í hvorri grein. Gagnaöflun var margvísleg; dagbókarskrif kennara, viðhorfskannanir meðal nemenda og verkefni þeirra. Rannsóknarsjóður KÍ styrkti rannsóknina. Lögð var áhersla á að vera samstíga í innleiðingu litakóðans og námsviðmiða í áföngunum. Fjölbreyttum mats- og kennsluaðferðum var beitt, áhersla var á hópvinnu og samvinnunám og að skapa traust í kennslustofunni. Niðurstaðan er sú að nemendur voru ánægðir með ýmsa þætti leiðsagnarnáms, m.a. fyrirmyndarlausn og námsviðmið en togstreita skapaðist á milli kennara og nemenda um litakóðann. Togstreitan stafar af því að litakóðinn er ekki í samræmi við meginreglu um einkunnagjöf í skólanum.

Nemendamiðuð málfræðikennsla: Í átt að jákvæðri og sjálfstæðri umfjöllun um tungumálið

Hanna Óladóttir, lektor, MVS HÍ og Helga Birgisdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Viðfangsefni fyrirlestrarins er kennslufræðileg nálgun eða hugmyndafræði sem kölluð er nemendamiðuð málfræðikennsla og var fyrst kynnt í doktorsritgerð Hönnu Óladóttur (2017). Nemendamiðuð málfræðikennsla gengur út á að hafa mál og málnotkun nemendanna í forgrunni við málfræðikennslu en ekki málfræðibækurnar, þar sem aðaláherslan hefur yfirleitt verið á rétt mál og rangt og greiningarvinnu ýmiss konar. Markmið nemendamiðaðrar málfræðikennslu er að auka áhuga nemenda á eigin tungumáli, fá þau til að nýta málfræðina betur til að efla eigin málbeitingu og almennt gera þau að ábyrgari málhöfum. Í fyrirlestrinum er fjallað um niðurstöður rannsóknar sem gerð var á kennslu íslenskuáfanga á þriðja hæfniþrepi í íslenskum framhaldsskóla. Við allan undirbúning áfangans, kennslu og verkefnagerð var hugmyndafræði nemendamiðaðrar málfræðikennslu höfð að leiðarljósi og henni markvisst beitt í kennslu, verkefnagerð og samræðum við nemendur. Rannsóknargögnin eru verkefnalýsingar, verkefnaúrlausnir nemenda, kennslugögn hvers konar, kennslunótur kennara áfangans auk hópviðtala sem tekin voru við nemendur í upphafi kennslu. Í hópviðtölunum kemur í ljós að nemendur eru almennt neikvæð í garð hefðbundinnar málfræðikennslu sem þau hafa fengið í grunnskóla. Þau eru hins vegar mjög áhugasöm um verkefnin sem lögð eru fyrir í nemendamiðuðu málfræðikennslunni og á það alveg sérstaklega við um þau verkefni þar sem mál þeirra er hvað mest í forgrunni. Einnig kom í ljós að sjálfstraust nemenda til að ræða um mál og hafa á því skoðun jókst eftir því sem leið á áfangann og þau fóru í auknum mæli að líta á sig sem hluta af málsamfélaginu þar sem rödd þeirra skipti máli.

Vinnustaðanám – samstarf skóla og vinnustaða VET@work

Hrafnhildur Sólrún Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Harpa Birgisdóttir, framhaldsskólakennari, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Hulda Hafsteinsdóttir, verkefnastjóri

Kynning á Erasmus verkefninu VET@work þar sem þátttakendur komu bæði frá menntakerfinu og atvinnulífinu. Helsti tilgangur verkefnisins var að búa til rafræna handbók sem inniheldur leiðbeiningar um með hvaða hætti sé hægt að standa að samstarfi milli skóla og vinnustaða þegar kemur að þjálfun verknámsnema. Þróuð voru líkön til að innleiða nýjar og nýstárlegar aðferðir til að efla vinnustaðanám í samvinnu við vinnumarkaðinn. Tilvikskannanir voru notaðar í þessu verkefni en farið var í heimsóknir í fyrirtæki og skóla, tekin viðtöl við nemendur, atvinnurekendur, starfsmentora og skólafólk. Allir deildu reynslu sinni og bestu starfsháttum um það hvernig þeir töldu að koma ætti á samstarfi milli skóla og vinnumarkaðarins. Hönnuð var heimasíða https://vetatwork-project.eu/is/ með niðurstöðum þessarar vinnu sem hægt er að nota sem hugmyndabanka. Sem dæmi um það sem þar kemur fram eru nokkrar gerðir af „Job dating“ eða „job fair“, skólastofan flutt á vinnustað, starfsmaður vinnustaðar verður gestakennari í skólanum, hlutverk starfsmentora gert eftirsóknarvert, verkefni sem unnin eru í samstarfi skóla og vinnustaða og mat á því hvernig samstarfið gengur og jafnframt nám nemenda. Þessi heimasíða nýtist skólum, vinnustöðum og öðrum fræðsluaðilum sem standa að því að innleiða og efla vinnustaðanám og starfsþjálfun. Helstu ályktanir eru þær að mikilvægt er gefa sér tíma til að byggja upp traust og heiðarlegt samstarf þar sem sameiginlegt markmið allra er að útskrifa verknámsnemendur sem standast kröfur markaðarins til framtíðar.