Heilbrigði og vellíðan með gleði, hamingju og bjartsýni að leiðarljósi

Soffía Vagnsdóttir, skrifstofustjóri á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur

Menntastefna Reykjavíkur, „Látum draumana rætast“, var samþykkt 2018 en stefnan gildir til ársins 2030. Almennar aðgerðir til stuðnings innleiðingu stefnunnar eru lagðar fram til þriggja ára í senn og lauk fyrstu þremur árunum í innleiðingu stefnunnar 2021. Í nóvember sama ár voru samþykktar 10 almennar aðgerðir sem unnar voru af framtíðarhópi skóla- og frístundaráðs sem í sátu fulltrúar helstu hagsmunahópa menntunar í borginni og víðar. Meðal þeirra aðgerða sem unnið verður að á næstu þremur árum er að bæta heilbrigði og auka vellíðan. Sérstök áhersla verður lögð á verkefni sem lúta að geðheilbrigði, aukinni þrautseigju og getu barna og fullorðinna til að takast á við áföll og áskoranir í daglegu lífi en niðurstöður kannana sýna meðal annars að líðan þessara einstaklinga er lakari að loknum heimsfaraldri en áður. Eitt af þeim verkefnum sem ráðist verður í er að skoða hvernig gleði, hamingja og bjartsýni getur aukið vellíðan og dregið úr kvíða og neikvæðum hugsunum en rannsóknir sýna að þessir þættir hafa jákvæð áhrif á líðan barna og fullorðinna. 

A Conceptual Model for increasing joy, happiness and optimism among staff and children within the Reykjavik Department of Education and Youth

Seth Sharp verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu skóla- og frístundasviðs

Students who are happy in school are likely to be more engaged in school, function optimally and learn more efficiently. Happy students, who feel connected in school, are less likely to engage in bullying or be bullied. Students who feel well have a greater chance of having productive adult lives and are less likely to suffer from depression or other mental health crises as adults. Optimistic students are much more likely to stay in school and show persistence in achieving their academic goals. Teachers who have good relationships with their students are likely to engage in advanced teaching methods which benefit their students academically. Teachers who feel satisfied in their workplace are likelier to remain as teachers in the school system and be effective teachers.  In the best-case scenario, schools are safe and productive institutions which have positive social climates, where there is mutual respect between teachers and administrators, where teachers feel supported, and students feel motivated and connected. The Department of Education and Youth (skóla- og frístundasviðReykjavíkur SFS) is endeavoring to use a research-based approach to moving closer to ideal conditions for staff and students in relation to implementing Reykjavík’s Educational Policy and the general actions supporting the implementation. This approach is to promote joy, happiness and optimism in schools and recreational centers in Reykjavik and to enjoy all the benefits that come with joyful, happy, optimistic and socially connected staff and students.  In this talk, we will look at some of the ways to accomplish this ambitious and important goal.

Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar

Sigríður Sigurjónsdóttir, leikskólakennari og verkefnastjóri í leikskólanum Rauðhól

Á vormánuðum 2018 fékk leikskólinn Rauðhóll styrk frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur fyrir þróunarverkefni sem ber nafnið Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar. Í lýðræðislegri kosningu starfsfólks um val á þróunarverkefni var kallað eftir skýrari lýsingum á faglegu hlutverki starfsfólks. Gildi þróunarverkefnisins, sem ber heitið Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar, er að auðga og skilgreina starfið með skýrum hætti. Sett voru fram þrjú markmið vegna vinnu við þróunarverkefnið. Fyrsta markmiðið var að styrkja og þróa starfshætti leikskólans með því að innleiða aðferðafræði Csikszentmihalyi um flæði (e. Flow) og jákvæða sálfræði. Í öðru lagi að allt starfsfólk öðlist frekari skilning á aðferðafræðinni og geti þar af leiðandi nýtt styrkleika sína sem best í starfi. Í þriðja lagi að greina og skapa námsumhverfi þar sem hverju barni er gefin rödd og því er mætt á eigin forsendum óháð kyni, uppruna, sérstökum þörfum og félagslegri stöðu. Markmið þróunarverkefnis náðust öll og því er ályktun höfunda að niðurstöður geti nýst öðrum leikskólum sem vilja breytingu í takt við stefnur og strauma samfélagsins þar sem börnum er í auknum mæli gefin rödd og frelsi til ákvarðanatöku.

Hvað veitir níu ára gömlum börnum gleði árið 2022?

Harpa Rut Hilmarsdóttir, verkefnastjóri Nýsköpunarmiðju menntamála hjá skóla- og frístundasviði

Á vormisseri sendi sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur hvatningu til starfsfólks í skóla- og frístundastarfi um að leggja sérstaka áherslu á gleðina í starfinu í anda menntastefnu borgarinnar. Ákveðið var að hafa þessa hvatningu að leiðarljósi í skipulagi Barnamenningarhátíðar 2022 og í undirbúningi við lag hátíðarinnar sem samið er í samstarfi fjórðubekkinga og kennara þeirra sem taka þátt í opnunarviðburði hátíðarinnar í Hörpu. Í lok febrúar og byrjun mars fékk hátíðin ungt listafólk, þau Króla og Kötlu Njálsdóttur, til að vinna myndband sem sent var fjórðubekkjar kennurum og nemendum sem innblástur að verkefni um hvað veitir börnunum gleði. Unnin voru drög að verkefnalýsingu fyrir kennara þar sem þeir leiddu umræður með börnunum út frá spurningunum; Hvernig skapa ég gleði? Hvað gerir mig glaða, glaðan, glatt? Hvernig sköpum við gleði í heiminum? Að því loknu voru tónlistarmennirnir Jói Pé og Króli fengnir til að semja lag út frá hugmyndum barnanna. Þá var unnið tónlistarmyndband með laginu sem börnin og kennararnir fengu sent viku fyrir opnunarviðburðinn til að geta æft og undirbúið þátttöku í opnunarviðburðinum. Lagið var hressilegt, krakkarnir voru búnir að læra það og það var hreint út sagt magnað þegar lagið var frumflutt í kröftugum samsöng í Eldborgarsal Hörpu. Verkefnið er dæmi um skapandi og lýðræðislega leið til að vinna með hugmyndir barna um það sem veitir þeim gleði. Með verkefninu tókst að fá heilan árgang barna í borginni til að rýna í hvað það er sem veitir þeim gleði og veitir texti lagsins góða innsýn í þá þætti árið 2022. Hér er hægt að sjá tónlistarmyndbandið.