Háskólar: Starfsþróun háskólakennara

Guðrún Geirsdóttir

Rannsóknarstofa um háskóla

Samræður og samfélög – viðhorf fastráðinna kennara til þróunar eigin kennslu

Matthew Whelpton, prófessor, HUG HÍ

Í þessari rannsókn er viðhorf fastráðinna kennara á Hugvísindasviði og Félagsvísindasviði Háskóla Íslands til þróunar eigin kennslu og stuðnings við kennsluþróun á sviðunum kannað. Kannað er að hve miklu leyti kennarar taka þátt í merkingarbærum samræðum (e. significant conversations) um kennslu eða tilheyra starfssamfélagi (e. community of practice) og hvort stuðningur við kennsluþróun nýtist þeim. Rannsóknin notar eigindlega aðferðarfræði með þemagreiningu á rýnihópum. Þrjú meginþemu komu fram: misjöfn þátttaka í samtölum um kennslu; áhersla á hagnýtan og aðgengilegan stuðning við kennsluþróun; og hindranir fyrir virkri þróun eigin kennslu. Töluverður munur var á þátttöku í samtölum um kennslu þvert á báða skólana, bæði persónubundna og stjórnsýslulega. Helstu þættir sem nefndir voru með tilliti til stuðningsþjónustu voru: stefna og fyrirmyndarstarfsvenjur (e. best practice); stuðningur og markþjálfun í eigin umhverfi; kennsluheimsóknir og jafningjamat kennara; og umræðufundir. Áhersla var á hagnýtingu og þægilegt aðgengi. Sektarkennd og vanmáttartilfinning einkenna lýsingar á kennsluþróun, þó í flestum tilfellum hafi þeir þættir sem nefndir voru verið stofnanalegs eðlis: áhersla á rannsóknir, stjórnsýsluskuldbindingar, kennsluálag, undirmönnun o.s.frv. En sumir kennarar viðurkenndu hins vegar að þeir hefðu einfaldlega ekki áhuga á kennslu sem slíkri. Aðstæður innan sviðanna tveggja eru sláandi svipaðar og þessi rannsókn verður mikilvægt innlegg í stefnumótun um kennsluþróun á sviðunum.

Viðhorf umsækjenda og stjórnenda til Kennsluakademíu opinberu háskólanna

Guðrún Geirsdóttir, dósent, MVS HÍ

Í nóvember 2021 var háskólakennurum veitt innganga inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna. Undirbúningur að stofnun akademíunnar hafði þá staðið yfir í þrjú ár og voru fyrirmyndir m.a. sóttar til sambærilegra eininga á Norðurlöndum. Markmiðið með stofnun Kennsluakademíunnar er að veita háskólakennurum viðurkenningu og umbun fyrir fagmennsku í kennslu, gera kennslu hærra undir höfði innan háskólanna og efla kennsluþróun með því að auka samtal um kennslu og kennsluhætti. Kennsluakademían er fjármögnuð af menntamálayfirvöldum og þátttökuskólunum fjórum sem með framlagi sínu undirstrika trú sína á mikilvægi akademíunnar til að hafa áhrif á kennsluhætti innan stofnananna. Við stofnun Kennsluakademíunnar eru starfshættir og framlag hins vegar ómótað og hlutverk meðlima að stýra  og þróa þær leiðir sem farnar verða. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna viðhorf stjórnenda opinberu háskólanna svo og fyrstu meðlima Kennsluakademíunnar til hlutverks hennar og starfsemi og helstu áskorana. Gagna var annars vegar aflað með viðtölum við níu stjórnendur háskóla og svo með því að greina viðtöl sem tekin voru við umsækjendur í umsóknarferlinu. Niðurstöður sýna að stjórnendur þekkja vel til þeirrar hugmyndafræði sem Kennsluakademían byggir á og sjá margvíslegan ávinning af starfsemi hennar. Helstu áskoranir töldu þeir vera vinnuálag kennara, óljóst hlutverk akademíu og stærðarmun þátttökuskólanna. Umsækjendur nefndu sem ávinning af aðild að Kennsluakademíunni samstarf við aðra sem brenna fyrir kennslu, jákvæð áhrif á nám nemenda, löggildingu til að hafa áhrif á umræðu um kennslu og möguleika á að vinna að mikilvægum verkefnum í kennslu. Niðurstöður rannsóknar munu nýtast sem innlegg við áframhaldandi mótun Kennsluakademíu opinberu háskólanna.

Hvert er viðhorf og reynsla nemenda af verklegri endurgjöf í Námsbraut í tannsmíði við Háskóla Íslands?

Ásthildur Þóra Reynisdóttir, aðjúnkt og verkefnisstjóri Námsbrautar í tannsmíði, HVS HÍ

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna viðhorf og reynslu nemenda Námsbrautar í tannsmíði til endurgjafar í verklegri kennslu og skoða hvaða breytingar þurfa að eiga sér stað. Viðhorf tannsmíðanema til matskvarða var einnig kannað, hvort gott aðgengi að þeim sé mikilvægt fyrir góðan námsárangur og faglega vitund þeirra. Í þessari rannsókn var notuð blönduð rannsóknaraðferð þar sem þátttakendur voru beðnir um að svara spurningalista sem innihélt tíu spurningar, bæði opnar og lokaðar, og var könnunin send þátttakendum rafrænt. Alls svöruðu 12 nemendur af 15 könnuninni sem gerir 80% svörun. Heilt yfir virðist viðhorf og reynsla nemenda almennt gott gagnvart verklegri endurgjöf í námskeiðum. Nemendur virðast vilja vera vel meðvitaðir um stöðu sína í verklegri vinnu, er annt um að gera vel og skila af sér góðri vinnu en mikilvægt er að taka svör þeirra fáu til greina sem voru hlutlausir eða ekki sammála þeim staðhæfingum sem settar voru fram í spurningalistanum en það gefur til kynna að þar vanti úrbætur. Matskvarðarnir virtust hafa áhrif á sjálfsmat tannsmíðanema og gæðavitund þeirra en hvort matskvarðarnir efli gæðavitund þeirra er óljóst. Niðurstöður bentu til þess að endurskoða þarf alla matslista verklegra námskeiða. Í kjölfar rannsóknarinnar mun verklag verklegs kennara breytast. Hann fer yfir þá þætti sem þóttu lakastir ásamt nemendum um leið og viðkomandi verkefni er lokið. Á þann hátt ættu nemendur að geta nýtt sér endurgjöfina betur, endurgjöfin gæti fests þeim betur í minni og auðveldara gæti reynst þeim að færa þá kunnáttu yfir á næsta verkefni eða námskeið.