Félags- og tilfinningahæfni leikskólabarna sem lykill að fullgildri þátttöku

Í þessari málstofu verður í þremur erindum kynnt evrópskt samstarfsverkefni um þróun náms og kennslu í félags- og tilfinningahæfni barna á aldrinum 0-6 ára (BE-CHILD). Háskóli Íslands leiðir verkefnið en Heilsuleikskólinn Krókur í Grindavík tekur einnig þátt fyrir Íslands hönd. Þátttökulönd auk Íslands eru Ítalía, Rúmenía, Búlgaría, Tékkland og Eistland. Verkefnið er unnið með styrk úr menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+.

Félagsleg hæfni er mikilvægur grunnur fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi

Jóhanna Einarsdóttir, prófessor, MVS HÍ

Félagsleg hæfni er mikilvæg undirstaða fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi og grunnur frekara náms. Í stefnu Evrópuráðsins um menntun ungra barna er áhersla lögð á að leikskólar gegni mikilvægu hlutverki við að kenna börnum að lifa saman í fjölbreyttum samfélögum. Leikskólinn geti styrkt samstöðu og fullgildi á margvíslegan hátt. Í gegnum leik og barnmiðaðar aðferðir læri börn samlíðan, umburðarlyndi og jafnrétti (Evrópuráðið, 2019). Þessar áherslur eru samhljóða þeirri stefnu sem birtist í Aðalnámskrá leikskóla. Félagsleg hæfni skipar veigamikinn sess í námskránni. Þar kemur fram að félagsleg hæfni þjálfist og lærist í daglegum samskiptum í samfélagi leikskólans þar sem hinir fullorðnu veita stuðning og leiðsögn. Í námskránni er lögð áhersla á leik sem meginnámsleið barna sem skapar börnum tækifæri til að læra og skilja umhverfi sitt, tjá hugmyndir sínar, reynslu og tilfinningar og þróa félagsleg tengsl við önnur börn. Hlutverk og starfshættir leikskólakennara geta skipt sköpum við þjálfun félags- og tilfinningahæfni í gegnum leik. Markmið BE-Child verkefnisins er að styrkja og auka færni leikskólakennara til að styðja við og efla félags- og tilfinningalega hæfni barna. Í þessu erindi verður fjallað um fræðilegan bakgrunn verkefnisins og samsvörun hans við núgildandi íslensk lög og reglugerðir. 

Efling félags- og tilfinningahæfni leikskólabarna: viðhorf starfsfólks

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, dósent, MVS HÍ

Til að varpa ljósi á sjónarmið starfsfólks leikskóla varðandi þá félags- og tilfinningahæfni sem þeir telja mikilvægt að vinna með í leikskólastarfi og hvaða hæfni starfsfólkinu finnst það sjálft þurfi að hafa til að bera til að efla þessa þætti voru tekin rýnihópaviðtöl við leikskólakennara og annað starfsfólk leikskóla. Fimmtán viðtöl voru tekin og voru 2-3 þátttakendur í hverju viðtali, alls 34 viðmælendur. Viðtölin voru hljóðrituð og síðan afrituð og kóðuð í fjórum skrefum. Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að þátttakendur telji mikilvægt að efla félags- og tilfinningahæfni barna á leikskólaaldri. Það skipti máli fyrir velferð þeirra og menntun. Félags- og tilfinningahæfni sem starfsfólk taldi mikilvæga fyrir ung börn tengist bæði einstaklingshæfni og færni í félagslegu samhengi. Margar aðferðir voru nefndar sem væru góðar til að efla félags- og tilfinningahæfni barna en þar bar leikur barnanna hæst. Meðal eiginleika sem þátttakendur nefndu að starfsfólk þyrfti að hafa til að bera til að geta eflt félags- og tilfinningahæfni barna í leikskólastarfi voru umburðarlyndi, þolinmæði, hlýja, jákvæðni og gleði. Rannsóknin er mikilvægt framlag til fræðasamfélagsins og eykur skilning á gæðum menntunar yngstu borgaranna og hvernig efla megi félags- og tilfinningahæfni þeirra.

 

Verkfærakista til að efla félags- og tilfinningahæfni barna

Björg Guðmundsdóttir Hammer, sérkennslustjóri Heilsuleikskólanum Króki og Dagmar Lilja Marteinsdóttir, deildarstjóri Heilsuleikskólanum Króki

Í Heilsuleikskólanum Króki í Grindavík hefur verið unnið að þróun náms og kennslu í félagsfærni leikskólabarna og stuðningi við kennara í að vinna að þróun félags- og tilfinningalegrar færni leikskólabarna. Eitt af viðfangsefnum Be-Child verkefnisins er að útbúa hugmyndabanka um leiðir til að efla félagslega hæfni. Það hefur ávallt verið eitt af aðalmarkmiðum leikskólans að vinna að andlegri og líkamlegri heilsueflingu allra í skólasamfélaginu með áherslu á velferð og vellíðan. Í leikskólanum hefur verið þróuð samskiptastefna fyrir skólann sem kallast Rósemd og umhyggja (RogU), með það að markmiði að skapa jákvæða og uppbyggjandi skólamenningu, sem er undirstaða velferðar í skólastarfi. Samskiptastefnan byggir á aðferðum sem finna má í jógafræðum, núvitund, jákvæðri sálfræði og umhyggju. Unnið er með fjóra þætti í stefnunni sem eru: Virðing og jákvæð viðhorf, samkennd og hjálpsemi, innri ró og vellíðan, sjálfstæði og jákvæð sjálfsmynd og allt eru þetta þættir sem styðja við félagslega færni. Í gegnum vinnuna við að móta RogU höfum við þróað ýmsar námsaðferðir í gegnum leik. Með því að taka þátt í Be-Child verkefninu hefur gefist tækifæri til að þróa þær aðferðir enn frekar, læra af öðrum og fá fleiri hugmyndir. Í erindinu er farið yfir þær leiðir sem verið er að þróa sem hluta af verkefninu og hvernig gengið hefur.