Áskoranir framtíðar til að inngilda nemendur í hættu á jaðarsetningu

Berglind Rós Magnúsdóttir

RannMennt : Rannsóknarstofa um menntastefnu, alþjóðavæðingu og félagslegt réttlæti

Í málstofunni er áherslan á að skilja val og gildi ungmenna sem eiga meiri hættu á jaðarsetningu eða útilokun úr framhaldsskólakerfinu en aðrir. Í fyrstu tveimur erindunum er sjónum einkum beint að nemendum með annað móðurmál en íslensku og í þriðja erindinu er nemendum fylgt eftir sem beint var inn á framhaldsskólabraut. Framhaldsskólabraut er sniðin að þeim nemendum sem hafa ekki uppfyllt skilyrði hæfniviðmiða úr grunnskóla og var lengst af meinaður aðgangur að framhaldsskóla. Í lokaerindinu er framtíðin fyrir þessi ungmenni skoðuð í gegnum nýleg stefnumið sem birtust í viðamikilli skýrslu UNESCO um framtíðina.

Uppruni, námsval og afdrif í framhaldsskólum

Kolbeinn Hólmar Stefánsson, dósent, FVS HÍ

Tilgangur rannsóknarinnar er að greina námsval og afdrif nemenda með erlendan bakgrunn í íslenskum framhaldsskólum til að meta hvort það megi greina innflytjendabjartsýni „immigrant optimism“ á meðal innflytjenda á Íslandi. Innflytjendabjartsýni vísar til algengs mynsturs í rannsóknum í nágrannalöndum okkar þar sem nemendur með innflytjendabakgrunn eru líklegri til að velja krefjandi námsleiðir en innfæddir nemendur með sama námsárangur í grunnskólum. Þetta hefur reynst tvíeggja sverð, þar sem sumir þessara nemenda ljúka námi og njóta betri stöðu á vinnumarkaði en aðrir hverfa úr námi og uppskera verri stöðu á vinnumarkaði en ef þeir hefðu valið minna krefjandi námsleið. Í þessari megindlegu rannsókn er notast við skráargögn frá Hagstofu Íslands. Gögnin innihalda upplýsingar um tvo árganga, fæddir 1995 og 1996, svo sem búsetu, heimilistekjur, menntun foreldra, námsval, námsframvindu, brotthvarf og námslok. Niðurstöður verða birtar sem tvíunda aðhvarfsgreiningar og staðleysugreiningar (e. counterfactual analysis) til að greina bein áhrif erlends bakgrunns á námsval og afdrif sem og óbein áhrif sem er miðlað í gegnum námsárangur í grunnskóla. Niðurstöðurnar benda til þess að innflytjendur á Íslandi sýni ekki merki um innflytjendabjartsýni þegar kemur að námsvali. Þeir eru að auki líklegri en innfæddir nemendur til að hverfa brott úr námi. Mynstrin eru þó ekki þau sömu fyrir alla innflytjendahópa. Þannig virðist fjárhagsstaða heimilis hafa umtalsverð áhrif á nemendur með pólskan bakgrunn umfram aðra en nemendur með asískan bakgrunn eru síður líklegir til að hverfa úr námi og jafnframt að ljúka námi á réttum tíma.

Brothættir menntunarmöguleikar nemenda af erlendum uppruna við lok grunnskóla: Málamiðlanir gagnvart framtíðinni

Eva Dögg Sigurðardóttir, sérfræðingur, Barna- og fjölskyldustofa

Síðastliðna þrjá áratugi hefur einstaklingum af erlendum uppruna fjölgað hratt á Íslandi og hefur samfélagið farið frá því að vera fremur einsleitt yfir í að vera fjölþjóðlegt. Slíkum breytingum fylgja áskoranir fyrir íslenskt skólakerfi sem rannsóknir hafa sýnt að margir skólar séu illa í stakk búnir til að mæta. Þá virðist nemendum af erlendum uppruna oft vegna verr í skóla og brottfall úr framhaldsskóla hlutfallslega hærra en hjá samnemendum þeirra af íslenskum uppruna. Vekur það spurningar um hversu opið íslenskt skólakerfi er í raun. Markmið þessarar rannsóknar er að skilja framtíðaráform unglinga af erlendum uppruna til náms eftir grunnskóla. Rannsóknin er með blönduðu sniði og byggist annars vegar á spurningalistum sem dreift er á meðal nemenda með íslenskan og erlendan bakgrunn í 17 grunnskólum, og hins vegar á viðtölum við 32 nemendur með erlendan bakgrunn. Þessi rannsókn sýnir hvernig framtíðaráform nemenda af erlendum uppruna markast af  málamiðlunum, sem  m.a. birtast í hugmyndum þeirra um skort á eigin tungumálagetu, óháð búsetu eða heimilisaðstæðum. Að auki má sjá hve brothætt framtíðaráform nemenda geta verið, þar sem nemendur meta tækifæri sín eftir því hvernig þau upplifa stöðu sína í íslensku samfélagi. Hér er sjónum beint að stöðu fjölskyldna af erlendum uppruna sem og á mikilvægi þess að skilja hvernig framtíðaráform eru mótuð á meðal nemenda af erlendum bakgrunni svo hægt sé að þekkja þær hindranir sem kunna að vera á þeirra vegi.

Framhaldsskólabraut: Upplifun og reynsla nemenda og fagaðila

Helga Rós Einarsdóttir, námsráðgjafi, Háskólinn á Bifröst og Inga Guðrún Kristjánsdóttir, aðjúnkt, FVS HÍ

Markmið rannsóknarinnar var að skoða upplifun og reynslu nemenda sem innritast höfðu á framhaldsskólabraut og væntingum þeirra til framtíðar. Framkvæmd var eigindleg tilviksrannsókn þar sem leitað var til níu ungmenna og fjögurra fagaðila á sviði framhaldsskólabrautar, til að kynnast þeirra sýn á stöðu ungmennanna við brautina.Helstu niðurstöður varpa ljósi á að frelsi nemendanna til námsvals er afar takmarkað. Fagfólk sammælist þessu og hvetja til fjölgunar styttri námsleiða til að mæta þörfum þeirra nemenda sem ljúka ekki framhaldsskólabraut eða hverfa á brott að henni lokinni. Vert væri að fjölga styttri námsleiðum á þessu skólastigi með það fyrir augum að mæta áhuga þeirra og réttindum til að efla þroska sinn. Tvískipting var í svörum nemenda um ánægju þeirra varðandi það að innritast á þessa braut. Sum skildu stöðu sína vel og áttu ekki von á öðru en að þurfa að fara á framhaldsskólabraut. Hinn hópurinn var ósáttur við hlutskipti sitt sem samræmdist ekki sjálfsmynd þeirra og sum töldu veru á brautinni jaðarsetja sig. Þær neikvæðu hugmyndir breyttust fljótt í afar jákvæða upplifun af brautinni. Þau töldu veru sína þar hafa styrkt trú sína á eigin getu og sjálfsöryggi. Framtíðarsýn nemendanna var í þróun og endurspeglaði virka hugsun, en umfram allt lögðu þau upp með að áhugi myndi ráða vali, án þess að vita hvert stefnan væri sett. Styrkleikar brautarinnar að mati fagaðila eru góð og skilvirk teymisvinna sem og kennarar brautarinnar. Meginlærdómur þessarar rannsóknar er að betur þarf að koma til móts við nemendur sem glíma við námslegar hindranir ef ætlunin er að draga úr brotthvarfi frá námi.

Framtíðaráherslur UNESCO og stefnumótun á Íslandi

Valgerður S. Bjarnadóttir, lektor, MVS HÍ og Eva Harðardóttir, doktorsnemi, MVS HÍ

Ýmsar alþjóðastofnanir leggja reglulega fram stefnu, mælikvarða og leiðandi ráðleggingar sem sérstaklega er ætlað að styðja við menntastefnumótun innan ólíkra þjóðríkja, meðal annars hér á Íslandi. UNESCO er ein þeirra, en stofnunin leggur reglulega fram stefnumótandi framtíðarsýn um menntun á grunni þess leiðtogahlutverks sem hún sinnir á sviðinu. Þar má sérstaklega nefna þrjár grundvallarskýrslur þar sem lögð er áhersla á lýðræði, menningu og mannúð sem grundvöll menntunar. Sú fyrsta, sem yfirleitt er kennd við Faure, kom út árið 1972, næsta, sem ber nafn Delors, árið 1996 og sú þriðja og nýjasta í nóvember 2021. Tvær fyrri útgáfurnar hafa sett mark sitt á fræði, stefnumótun og starf víða um heim á sviði menntunar. Í nýjustu skýrslunni er lögð áhersla á mikilvægi víðtækrar samvinnu við að skapa nýjan samfélagssáttmála um menntun, svo takast megi á við áskoranir framtíðarinnar með mannúð og sjálfbærni að leiðarljósi. Í erindinu verður sjónum beint að bakgrunni og tilurð stefnumótunarplaggs af þessu tagi, meginskilaboðum þess og þeim mótsögnum sem þau kunna að fela í sér. Inntak og skilaboð skýrslunnar verða sett í samhengi við ný íslensk stefnumótunarskjöl um menntun, hlutverk og framtíðarsýn. Jafnframt verður umfjöllun og viðbrögð fjölmiðla, fræðafólks og stefnumótunaraðila um skýrsluna og skilaboð hennar kortlögð og greind. Höfundar þessa erindis telja skýrsluna og efni hennar eiga mikilvægt erindi við stefnumótunaraðila, rannsakendur og kennara á öllum sviðum menntunar hér á landi og kalla eftir gagnrýninni umræðu um hlutverk menntunar til stuðnings lýðræði, menningu og mannúð í samfélagslegu tilliti.