Framtíðaráform og skólaval ungmenna í ljósi félagslegs réttlætis

Málstofustjóri: Berglind Rós Magnúsdóttir

RannMennt: Rannsóknarstofa um menntastefnu, alþjóðavæðingu og félagslegt réttlæti

Í málstofunni er varpað ljósi á hvernig val á námi og skólum á framhalds- og háskólastigi markast af félags-, menningar- og landfræðilegum þáttum. Engu að síður er gengið út frá því í stefnu stjórnvalda að kerfið byggi á verðleikaræði (meritocracy) og skapi jöfn tækifæri óháð búsetu, stétt, uppruna og ríkisborgararétti og ýti undir félagslegan hreyfanleika (e. social mobility) en ekki endursköpun forréttinda til næstu kynslóðar (e. social reproduction). Í þessari fyrstu málstofu af þremur á vegum RannMenntar er áherslan á nemendur sem falla vel að ríkjandi kerfi. Hjalti Jón Sveinsson skólameistari mun bregðast við erindunum.

Val fyrir hvern? Framhaldsskólaval í ljósi félagslegs réttlætis

Elsa Eiríksdóttir, MVS HÍ, Kristjana Stella Blöndal, FVA HÍ og Guðrún Ragnarsdóttir, dósent, MVS HÍ

Íslensk menntastefna leggur áherslu á samfellu á milli skólastiga, jafnrétti til náms og inngildingu. Þrátt fyrir það geta framhaldsskólar sett sín eigin inntökuskilyrði og sumir þeirra velja inn nemendur út frá frammistöðu í einstaka bóknámsgreinum. Hefðbundnir bóknámsskólar hafa sterkari samkeppnisstöðu þegar kemur að vali á nemendum en fjölbrautaskólar sem bjóða bæði upp á bók- og starfsnám. Markmið rannsóknarinnar er að kortleggja hvernig inntökuskilyrði framhaldsskóla höfuðborgarsvæðisins og skóla- og námsbrautarval viðheldur og endurspeglar félagslega mismunun. Skóla- og námsbrautarval eins árgangs nemenda á höfuðborgarsvæðinu var greint á grundvelli félags- og efnahagslegrar stöðu þeirra og bakgrunns, námsgengi í grunnskóla og væntinga þeirra um áframhaldandi skólagöngu. Byggt er á gögnum úr langtímarannsókn á nemendum á höfuðborgarsvæðinu fæddum 1999. Þátttakendur svöruðu spurningalista í lok grunnskólagöngu sinnar árið 2014 (N = 1.956 eða 82% af þýði). Í framhaldinu voru upplýsingar frá Hagstofu Íslands um einkunnir á samræmdum prófum og skráningu í framhaldsskóla tengdar við gögnin. Niðurstöðurnar sýna skýrt mynstur skólavals þar sem sumir skólar geta valið nemendur sem hafa sýnt góðan námsárangur í bóklegum greinum. Þessir nemendur hafa gjarnan sterka félags- og efnahagslega stöðu í þjóðfélaginu og stefna á frekara nám á háskólastigi. Fjölbrautaskólar sem bjóða upp á starfsnám eru ekki á meðal þessara skóla. Niðurstöðurnar sýna því skýrt stigveldi framhaldsskóla þar sem félagslegri lagskiptingu er viðhaldið af inntökukerfi sem í reynd stangast á við yfirlýst markmið íslenskra menntayfirvalda um jafnrétti til náms og inngildingu.

Framtíðaráform stúdentsefna: Náms- og skólaval á háskólastigi

Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor, MVS HÍ og Unnur Edda Garðarsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Í erindinu er fjallað um hvernig framtíðaráætlanir ungmenna sem eru að ljúka stúdentsprófi markast af búsetu, auðmagni og svo stofnanalegum veruhætti framhaldsskólans þeirra. Rannsóknin er hönnuð út frá hugtakalíkani Bourdieu, þ.e. hvernig samspil veruháttar, vettvangs og auðs markar valdatengsl milli einstaklinga og stofnana. Meginefniviður rannsóknarinnar eru djúpviðtöl við 48 stúdentsefni sem eru meðal toppnemenda í sínum framhaldsskóla við innritun. Tekin voru viðtöl við 4-5 nemendur úr hverjum þeirra 10 skóla sem þátt tóku í rannsókninni og stjórnendur/kennara þeirra sem höfðu starfað lengi við skólann. Skólarnir 10 dreifðust þannig að sex voru staðsettir á höfuðborgarsvæðinu en aðrir dreifðust um landið. Helmingur þátttökuskóla hafði ströng inntökuskilyrði og töldust virtir og rótgrónir en aðrir tóku við nær öllum nemendum sem sóttu um í skólann. Í erindinu er varpað ljósi á hvernig sumir nemendur búa við kjörskilyrði sem birtist m.a. í tilfinningalegu öryggi þegar rætt er um framtíðina og úthugsuðum athafnaáætlunum sem byggja á yfirgripsmikilli þekkingu um háskólavettvanginn. Stúdentsefni sem eiga sér ættarsögu úr „æðri“ menntastofnunum hafa svipuð gildi og framtíðarhugmyndir óháð framhaldsskólavali. Stofnanalegur veruháttur hefur í sumum tilfellum afgerandi áhrif á hugmyndir nemenda um hvaða fög og háskólar koma til greina. Framtíðin er síður meitluð hjá stúdentsefnum sem eiga sér bláflibbauppruna þar sem skólafélagar og auðmagn fjölskyldu nýtist síður. Landfræðileg fjarlægð frá Reykjavík og þar með háskóla- og valdastofnunum samfélagsins hefur áhrif á líðan gagnvart framtíð og yfirsýn yfir leikreglur vettvangsins.

Frjálst að velja hvaða framhaldsskóla sem er? Tilviksathugun á innritun í framhaldsskóla

Magnús Þorkelsson, skólameistari emeritus og doktorsnemi, MVS HÍ

Stuttu fyrir síðustu aldamót var aflétt svæðaskiptingu sem íslenskir framhaldsskólar bjuggu við og landið kallað eitt markaðssvæði. Þar með mætti hvaða nemandi, sem var að ljúka grunnskóla, sækja um í/velja sér hvaða framhaldsskóla sem væri. Kerfið myndi tryggja nemandanum pláss einhvers staðar ef hann fengi ekki fyrstu valkosti sína. Haldið er fram af stjórnvöldum að með gildandi kerfi hefði tekist að tryggja að 95% umsækjenda fái inni í þeim skóla sem þeir völdu. Málið er skoðað út frá ólíkum sjónarhornum, annars vegar markaðsvæðingarsinna sem telja að samkeppni um nemendur skapi réttlátara skólakerfi og tryggi verðleikaræði og hins vegar gagnrýnendur þeirra sem hafa fært rök fyrir því að þeir fáu nemendur sem eigi raunverulegt val séu börn efnameiri einstaklinga, börn sem eigi vel menntaða foreldra, eða aðrir nemendur sem eru með háar einkunnir úr grunnskóla. Í fyrirlestrinum verða reifuð gögn, annars vegar frá a) Menntamálastofnun um innritun nýnema árið 2014 og dreifingu þeirra á skóla til að fá fram yfirlit og b) frá ótilgreindum skóla sem eru ekki persónurekjanleg en sýna innritunarupplýsingar eins árgangs í þann skóla. Sýnt er fram á að nemendur velja skóla í takt við einkunnir og það veldur því að skólarnir eru með mjög ólíkt samsetta nemendahópa og að ákveðinn hluti skólanna getur valið sér nemendahóp sem þeim hentar en aðrir eru látnir taka því sem að höndum ber. Lögð er til hugmynd um flokkun skólanna samkvæmt þessum gögnum, skoðað líkan um það hvernig spilast saman einkunnir úr grunnskóla, námslegar þarfir og valkostir sem nemendur hafa og ræddar tillögur að úrbótum.