Háskólar: Háskólanám og samfélag

Anna Magnea Hreinsdóttir

Rannsóknarstofa um háskóla

Mannfræði; Til prófs, starfs og lífs

Sveinn Guðmundsson, jafnréttisfulltrúi, HÍ

Markmið rannsóknarinnar snýst um að finna leiðir til að bæta grunnnámskeið í mannfræði við HÍ sem hugsað er til að undirbúa nemendur undir að finna sér starf að námi loknu. Nemendur með BA í mannfræði ganga ekki beint inn í ákveðið starf eða inn á ákveðinn starfsvettvang eins og í ýmsum öðrum fögum. Grunnhugmyndin með námskeiðinu er að fá nemendurna til að finna sitt áhugasvið innan mannfræðinnar og rannsaka hvernig störf mannfræðingar innan þess áhugasviðs vinna. Notast var við eigindlega aðferðafræði og aðallega stuðst við viðtöl og starfendarannsókn í bland við mannfræðilegar vettvangsaðferðir. Ýmsar kenningar úr kennslufræði og mannfræði eins og samsköpun, ígrundun og kenningar kenndar við fræðimennsku náms og kennslu voru notaðar til að greina gögnin. Niðurstöður rannsóknarinnar, byggðar á gögnum upp úr kennslukönnun námskeiðsins, viðtölum við fyrrum nemendur þess, mannfræðinga í atvinnulífinu og rannsóknardagbók rannsakanda sýna að þó það sé ekki alltaf ljóst hvernig störf mannfræðingar enda í þá er námið að gagnast þeim í framtíðarstörfum sem og öðru námi. Þörf er á að auka hlut námskeiðsins sem snýr að heimsóknum mannfræðinga úr atvinnulífinu í námskeiðið og tækifærum nemenda til að fá að fylgjast með mannfræðingum innan þeirra áhugasviðs að störfum. Einnig má minnast á hvernig námið gagnist í hinum ýmsu störfum í öllum þáttum náms í mannfræði. Mannfræðin er, samkvæmt gögnum rannsóknarinnar, góður undirbúningur fyrir ýmis störf en nemendur þurfa að fá þjálfun og hvatningu á fleiri stigum námsins til að finna sitt áhugasvið innan fagsins til að geta fundið starf við hæfi að námi loknu.

„Þetta er highlightið í mínu námi!“ – Samvinna Eistlands og Íslands E-CBA´s

Hafdís Björg Hjálmarsdóttir, lektor HA og Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir, aðjúnkt HA

Undanfarna mánuði hafa höfundar unnið með kollegum úr TTK háskólanum í Tallinn í Eistlandi. Kennarahópurinn hefur hannað verkefni (e. case) í samstarfi við fyrirtæki á Íslandi og í Eistlandi. Hópurinn hefur hist reglulega á zoom og haldið einn vinnufund á haustmánuðum í Reykjavík. Afrakstur vinnunnar eru verkefni sem voru unnin af nemendum í svokallaðri Study-Week, sem haldin var 4.-8. apríl í Háskólanum á Akureyri. Nemendur unnu saman í blönduðum fimm manna hópum að lausn verkefna, þau heimsóttu fyrirtæki og fengu áhugaverða fyrirlestra á staðnum sem og í zoom. Nemendur kynntu lausnir sínar á ensku og unnu einstaklega vel saman. Í lok vikunnar var lögð fyrir könnun þar sem spurt var út í upplifun þeirra, lærdóm og fengnar upplýsingar um það sem mátti betur fara og var mjög ánægjulegt að þeirra mati. Nemendur voru heilt yfir mjög ánægðir með vikuna, sögðust hafa lært mikið og voru þess fullviss um að þessi vika stæði upp úr í þeirra námi við háskólana. Næsta Study Week mun fara fram dagana 19.-23. september í Tallinn og er ætlunin að kynna einnig niðurstöður þeirrar viku á málstofunni.

Erum við að gleyma að leggja áherslu á mjúka færni í viðskiptafræði?

Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir, aðjúnkt, HA og Hafdís Björg Hjálmarsdóttir, lektor, HA

Haustið 2020 var farið af stað með verkefni sem ber yfirskriftina Vaken. Verkefnið er styrkt af Nordplus og því lauk í júní, 2022, framhaldsumsókn var samþykkt af Norplus og verður þetta verkefni í gangi eitt ár til viðbótar. Kennarahópurinn, sem samanstendur af höfundum, ásamt kollegum frá Finnlandi, Danmörku og Eystrasaltsríkjunum, hefur útbúið verkfærakistu sem nýtist bæði í skólastofu og í rafrænni kennslu. Verkfærakistan inniheldur tæki og leiðir til þess að þjálfa og meta mjúka færni nemenda. Haustið 2021 var verkferlið prófað í Óðinsvéum með þátttöku 36 nemenda, þar af 6 frá Íslandi. Annað rennsli var í Kaunas, Litháen vorið 2022, og fyrirhugað er að framkvæma þriðja rennslið á Akureyri haustið 2022. Í erindinu munu Vera og Hafdís gera nánar grein fyrir verkefninu, prufukeyrslunum og upplifun nemenda sem var sérstaklega jákvæð. Nemendur unnu í blönduðum hópum að raunverulegu verkefni fyrir fyrirtæki sem þau heimsóttu. Þau kynntu lausnir sínar í tvígang og fengu endurgjöf frá forsvarsmönnum fyrirtækisins sem og kennurum. Í lok vikunnar var lögð fyrir könnun og er ánægjulegt að segja frá því að nemendur voru mjög ánægðir með að fá tækifæri til að taka þátt í þessari alþjóðlegu samvinnu.