Faggreinakennsla í grunnskólum

Tilgangur og gildi náttúruvísindamenntunar samkvæmt gildandi Aðalnámskrá grunnskóla

Haukur Arason, dósent, MVS HÍ og Meyvant Þórólfsson, prófessor, MVS HÍ

Í erindinu eru metin þau rök sem núgildandi Aðalnámskrá grunnskóla færir fyrir náttúruvísindamenntun barna og unglinga. Sérstaklega er rýnt í hvernig gildi og mikilvægi almennrar þekkingar á náttúruvísindum eru útskýrð í námskránni og áherslur hennar varðandi tilgang náttúruvísindamenntunar. Jafnframt er sjónum beint að  atriðum sem ekki koma fyrir í námskránni en eru samt þekkt úr umræðu um náttúruvísindamenntun og ættu að þykja sjálfsögð. Í því samhengi er gerður samanburður á þeim meginhugmyndum og rökum (rationale) sem greina má í texta námskrárinnar og alþjóðlegri umfjöllun um rök fyrir menntun í náttúruvísindum. Slík rök má flokka á eftirfarandi hátt: Hagnýtt gildi fyrir hvern einstakling, hagrænt gildi fyrir samfélagið, menningarlegt gildi, gildi fyrir lýðræðislega umræðu, gildi fyrir nýsköpun og tækniþróun og gildi fyrir félagslegt réttlæti. Við þetta má bæta að taka þarf tillit til tveggja meginsjónarmiða, þ.e. náms og kennslu sem ætla þarf öllum til að lifa og starfa í nútímasamfélagi og náms og kennslu sem tekur mið af undirbúningi fyrir áframhaldandi nám í náttúruvísindum. Mikilvægi náttúruvísinda og tækni hefur sjaldan verið meira en nú og mun velferð samfélaga markast af þekkingu á þessum sviðum í framtíðinni. Má nefna að viðbrögð við heimsfaröldrum svo sem COVID-19, viðbrögð við loftslagsbreytingum, viðbrögð við náttúruhamförum, nýjar lausnir varðandi orkuvinnslu og nýtingu, og að hæfni til að takast á við fjórðu iðnbyltinguna byggja á slíkri þekkingu. Vegna formlegrar stöðu aðalnámskrár í menntakerfinu og þeirrar leiðsagnar sem hún á að veita kennurum, skólastjórnendum og námsefnishöfundum er mikilvægt að aðalnámskrá grunnskóla sé skýr hvað varðar tilgang og gildi náttúruvísindamenntunar.

Hvað varð um fætur hvalsins? Forhugmyndir nemenda um þróun lífs

Þórdís Arna Guðmundsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ og Edda Elísabet Magnúsdóttir, lektor, MVS HÍ

Rannsóknir hafa sýnt að nemendur byggja nám sitt að miklu leyti á forhugmyndum sem þeir hafa myndað sér út frá hversdagslegri reynslu áður en skólaganga hefst. Þessar forhugmyndir eru oft á skjön við vísindalegar staðreyndir. Rannsóknir hafa sýnt að ranghugmyndir um þróun lífs eru algengar meðal nemenda og almennings. Algeng forhugmynd er að nemendur telji að umhverfi hafi bein áhrif á eiginleika lífveru og að einstaklingar geti þróast á sinni lífsleið. Slíkar hugmyndir eru á skjön við náttúrulega ferla sem hafa áhrif á þróun lífs. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða forhugmyndir nemenda í 7. og 10. bekk. Markmiðið var að kanna algengi fimm þekktra ranghugmynda um þróun lífs hjá þessum aldurshópum. Gögnum var safnað með spurningakönnun þar sem hver þessara fimm ranghugmynda var könnuð með nokkrum fjölvalsspurningum. Forhugmyndir þeirra nemenda sem tóku þátt í rannsókninni um þróun lífs voru að miklu leyti rangar. Rannsóknin leiddi jafnframt í ljós að nemendur í 10. bekk voru nánast jafn líklegir til að búa yfir sömu forhugmyndum og nemendur í 7. bekk en aðeins mátti sjá marktækan mun milli aldurshópanna hjá bæði drengjum og stúlkum sem tengdist einni forhugmynd. Niðurstöðurnar benda því til þess að kennsla í þróunarfræði skili ekki tilskildum árangri á unglingastigi. Þar sem nemendur byggja nám sitt á eigin forhugmyndum er mikilvægt að kennarar kanni forhugmyndir nemenda sinna til að auðveldara sé að leiðrétta þær. Rannsóknir hafa sýnt að ef forþekking er ekki könnuð og kennslan ekki mótuð út frá fyrri hugmyndum nemenda skili hún ekki tilætluðum árangri. 

Tilgangur og gildi náttúruvísindamenntunar samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla 1999

Meyvant Þórólfsson, prófessor, MVS HÍ og Haukur Arason, dósent, MVS HÍ

Tilgangur þessa erindis er að varpa ljósi á tilurð og einkenni Aðalnámskrár grunnskóla 1999 í náttúruvísindum. Niðurstöður rannsóknar á texta námskrárinnar verða ræddar með tilliti til gildis og tilgangs náttúruvísinda í almennri menntun. Þar vekur ýmislegt athygli, einkum með hliðsjón af fyrri og seinni tíma námskrám hérlendis í náttúruvísindum, en jafnframt í ljósi áhrifa TIMSS rannsóknarinnar á tilurð námskrárinnar. Rúmur aldarfjórðungur er liðinn frá því Ísland tók í fyrsta sinn þátt í alþjóðlegri samanburðarrannsókn á þekkingu í náttúruvísindum. Það var rannsókn IEA, Third International Mathematics and Science Study (TIMSS). Slakur árangur íslenskra grunnskólanemenda í rannsókninni vakti spurningar um skipulag náttúruvísindanáms hérlendis undir lok síðustu aldar. Athyglin beindist að námsefni, kennsluháttum, vægi náttúruvísinda í viðmiðunarstundaskrá og síðast en ekki síst þágildandi aðalnámskrá. Af 40 þátttökuþjóðum í TIMSS reyndist Ísland meðal fárra þjóða þar sem skólar höfðu frjálsar hendur um val á efni, markmiðum og útfærslu námskrár. Aðalnámskráin 1989 birtist í einu hefti en kaflinn Náttúrufræði (Eðlis-, efna- og líffræði) spannaði aðeins níu blaðsíður. Hann var almennt orðaður og þótti óljós hvað varðaði miðlun og inntak þekkingar. Ný aðalnámskrá, sem spannaði 76 blaðsíður, tók gildi hér árið 1999 með áherslu á sömu svið og TIMSS, þ.e. lífvísindi, eðlisvísindi (þ.m.t. efnafræði),  jarðvísindi (þ.m.t. stjörnufræði) og umhverfismál. Markmiðin voru nemendamiðuð (Nemandi á að geta, þekkja, gera sér grein fyrir …) og snerust um þekkingu af framangreindum sviðum auk þess sem þau snerust einnig um vinnubrögð og færni ásamt hlutverki og eðli náttúruvísinda. Námskráin var mun ítarlegri en fyrri námskrá bæði varðandi markmið og inntak.

Að leika á als oddi: Fjölmenningarleg áhersla á hugtakanám í hönnun smíði

Finnur Jens Númason, aðjúnkt, MVS HÍ

Mig langar að kynna orðabók sem ég skrifaði en orðabókin fjallar um smíðaverkfæri og notkun þeirra. Heiti verkfæranna eru þýdd á sjö erlend tungumál til að auðvelda innflytjendum og tvítyngdum nemendum að læra heiti þeirra og skilja hvernig þau virka. Jafnframt er orðabókinni ætlað að auðvelda innflytjendum að aðlagast nýjum aðstæðum og vera vingjarnleg nálgun í kennslu. Gott getur verið að grípa til slíkra handbóka við upphaf kennslu bæði við innlagnir nýrra verkefna og verkfæra. Þá geta nemendur séð mynd af verkfærinu og lesið heiti þess á sjö tungumálum. Þeir geta því um leið bætt orðaforða sinn í íslensku sem og öðrum tungumálum, hvort sem um er að ræða nemendur með íslensku að móðurmáli eða nýbúa, sem tala erlent tungumál. Með hverju verkfæri í handbókinni fylgir stuttur skýringartexti, sem útskýrir hlutverk þess, auk mynda.