Heilsa á tímum COVID-19

Svefnvenjur og hreyfing íslenskra háskólanema á tímum COVID-19: Þversniðsrannsókn mæld með svefn- og hreyfimælum

Rúna Sif Stefánsdóttir, lektor, MVS HÍ, Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor, MVS HÍ, Þórdís Gísladóttir, dósent, MVS HÍ, Erlingur Jóhannsson, prófessor, MVS HÍ, Sunna Gestsdóttir, lektor, MVS HÍ og Gréta Jakobsdóttir, MVS HÍ

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna svefnmynstur og hreyfingu íslenskra háskólanema á tímum Covid-19. Einnig var skoðaður munur kynjanna og samband milli svefns og hreyfingar. Úrtak rannsóknarinnar voru nemar á fyrsta námsári við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Alls tóku 118 nemendur þátt í rannsókninni (46% þátttökuhlutfall), 92 nemendur fengu svefn- og hreyfimæla og í heildina voru 76 þátttakendur með gild svefn- og hreyfigögn (57% karlar). Ein vika af svefni og hreyfingu var mælt með actigraph hreyfimæli, staðsettur á úlnliði og við mat á gögnunum var stuðst við ýmsar tölfræðilegar greiningar, keyrðar í Jamovi tölfræðiforritinu. Meðalaldur þátttakenda var 24.4 ± 3.49 ár. Yfir alla vikuna var meðalsvefnlengd úrtaksins 6,5 ± 0,9 klst, háttatími var kl. 01:41 ± 1,6 klst. en fótaferðatími var kl. 08:56 ± 1.3 klst. Karlar sváfu marktækt styttra og fóru seinna að sofa og vöknuðu seinna miðað við konur. Hins vegar hreyfðu konur sig marktækt meira en karlar yfir vikuna. Nemendur sem hreyfðu sig að meðaltali meira yfir vikuna fóru seinna að sofa og sváfu lengur en ekki voru marktæk tengsl milli hreyfingar og svefnlengdar hjá nemendum yfir vikuna. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að svefn- og hreyfivenjur háskólanema breyttust á tímum Covid-19 sem er í samræmi við niðurstöður rannsókna víða um heim. Mikilvægt er að fylgjast með hvernig heimsfaraldur sem þessi getur haft áhrif á svefnvenjur og hreyfingu ungs fólks á Íslandi á tímum COVID-19, sérstaklega í ljósi mikilvægis svefns og almennrar hreyfingar á heilsu.

Hreyfing háskólanema á tímum heimsfaraldurs

Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor, MVS HÍ, Gréta Jakobsdóttir, lektor, MVS, HÍ, Þórdís Lilja Gísladóttir, dósent, MVS HÍ, Sunna Gestsdóttir, dósent, MVS HÍ, Rúna Sif Stefánsdóttir, lektor, MVS HÍ og Erlingur Jóhannsson, prófessor, MVS HÍ

Hreyfing er stór þáttur í heilsu fólks og mikilvægt er að skoða hreyfingu háskólafólks á tímum heimsfaraldurs. Markmið rannsóknarinnar var að bera hreyfingu háskólanema saman við fyrir tíma COVID-19 sem og meta hreyfingu þeirra á tímum COVID-19. Alls svöruðu 118 nemendur á fyrsta ári við Menntavísindasvið Háskóla Íslands spurningalista í janúar 2021, af þeim áttu 92 nemendur gögn úr hreyfimælum en gild gögn áttu 76 þátttakendur (57% karlar). Þátttakendur voru beðnir um að meta hreyfingu sína á tímum COVID-19 auk þess sem þeir báru hreyfimæli sem mældi magn hreyfingar. Þátttakendur voru beðnir um að bera hreyfingu sína saman við fyrir tíma heimsfaraldursins. Meðalaldur þátttakenda var 24,4±3,5 ár. Um 25% háskólanema stundaði íþróttir með íþróttafélagi og 76% stundaði líkams- eða heilsurækt á eigin vegum. Um 67% töldu hreyfingu sína vera minni og 37% töldu hreyfingu sína vera eins eða meiri en fyrir tíma COVID-19. Yfir alla vikuna var meðalhreyfing háskólanema, mæld með hreyfimæli, 1570±362 slög/mín/dag. Konur hreyfðu sig marktækt meira en karlar alla vikuna, virka daga og um helgar (p <0,05). Þeir sem hreyfðu sig meira yfir vikuna hreyfðu sig einnig meira virka daga og um helgar en hreyfing var marktækt minni um helgar en virka daga. Almennt hafa venjur fólks breyst á tímum heimsfaraldursins með tilfærslu á námi skólafólks inn á heimilin. Íþróttafélög og líkamsræktarstöðvar störfuðu undir takmörkunum sem dregur almennt úr hreyfingu hjá fólki. Mikilvægt er að fylgjast með venjum ungs fólks og þróun þeirra bæði á tímum og eftir tíma heimsfaraldurs.

Netsamskipti og andleg líðan meðal 15 ára ungmenna árin 2003 og 2015

Óttar Guðbjörn Birgisson, doktorsnemi, MVS HÍ, Guðrún Sunna Gestsdóttir, dósent, MVS HÍ og Erlingur Jóhannsson, prófessor, MVS HÍ

Á síðustu árum hafa netsamskipti orðið órjúfanlegur hluti af lífi ungs fólks og vísbendingar eru um áhrif slíkra samskipta á geðheilsu barna og ungmenna. Í þessari rannsókn var skoðað hvernig netsamskipti og einkenni þunglyndis og kvíða hafa breyst hjá 15 ára ungmennum frá árinu 2003 til 2015. Einnig var skoðað hvort sambandið milli netsamskipta og einkenna þunglyndis og kvíða hafi breyst á þessum árum. Rannsóknin studdist við gögn úr spurningalistum fyrir árgang 1988 frá 2003 (N=385, 51% drengir) og fyrir árgang 1999 frá 2015 (N=302, 42% drengir).  Til að meta mun á þunglyndis- og kvíðaeinkennum milli drengja og stúlkna og milli ára var stuðst við marghliða dreifigreiningu. Formgerðargreining milli hópa var notuð til að meta hvort tengslin milli netsamskipta og andlegrar líðanar hefði breyst frá 2003-2015 eftir kyni. Niðurstöður sýndu að drengir og stúlkur vörðu jafnmiklum tíma í netsamskipti árið 2003 en árið 2015 voru stúlkur að eyða marktækt meiri tíma en drengir. Árið 2003 voru stúlkur með marktækt meiri kvíða en drengir en kvíðinn jókst ekki milli ára. Stúlkur voru með marktækt meiri þunglyndiseinkenni en drengir árið 2003 og jukust einkennin milli ára hjá stúlkum en ekki drengjum. Árið 2003 var ekkert marktækt samband milli netsamskipta og geðheilsu en árið 2015 var komið á marktækt samband milli netsamskipta og bæði þunglyndis- og kvíðaeinkenna hjá stúlkum. Ástæða er til að hafa áhyggjur af versnandi geðheilsu og tengslum við netsamskipti, einkum meðal stúlkna. Þörf er á ítarlegri skoðun á eðli tengslanna milli geðheilsu og netsamskipta.