Farsæld barna og unglinga

Virk þátttaka og farsæld barna

Hervör Alma Árnadóttir, doktorsnemi, MVS HÍ og Guðrún Kristinsdóttir, prófessor emerita, MVS HÍ

Víða í íslensku lögunum er lögð áhersla á að veitt þjónusta sé unnin í samráði við og með notendum, þar á meðal börnum. Þessar áherslur eru skýrar í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögbundinn var á Íslandi árið 2013 og í nýjum lögum um farsæld barna. Til þess að fá að tala við börn þurfa rannsakendur gjarnan leyfi og aðstoð fagmanna og forsjáraðila svokallaðra hliðvarða. Markmiðið hér er að fjalla um virka þátttöku barna í rannsókum á síðustu árum og í því samhengi leitast við að greina hvort breytingar hafi orðið á virkri þátttöku barna sem skilgreind eru í viðkvæmri stöðu. Því er spurt; hvaða breytingar má greina er varða virka þátttöku barna í rannsóknum á síðustu árum? Til að leita svara var skoðuð staða þekkingar á viðfangsefninu frá árinu 2015 til 2022. Fyrstu niðurstöður benda til þess að almenn þátttaka barna hafi aukist en þátttaka barna sem skilgreind eru í viðkvæmri stöðu hafi síður aukist. Viðhorf hliðvarða til hæfni barna og þátttöku hafi mikil áhrif á það hvort hliðverðir aðstoði rannsakendur við það að fá aðgengi að börnum. Hliðverðir telja að rannsakendur þurfi að leggja meiri vinnu í umsóknir sínar og rökstuðning þegar þeir óska eftir aðstoð þeirra. Mikilvægt er að rannsakendur og fagmenn sem starfa með börnum séu meðvitaðir um mikilvægi þess að fjölbreyttur hópur barna fái tækifæri til þátttöku í rannsóknum til þess að bæta þjónustu og þá farsæld barna.

Sólin vermi blessuð skólabörnin – Barnafræðsla í Fljótum í Skagafirði 1880-1946

Kristín Sigurrós Einarsdóttir, skjalavörður og MA í menntavísindum, Héraðsskjalasafn Skagfirðinga og Bragi Guðmundsson, prófessor, HA

Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á sögu barnafræðslu í Fljótum í Skagafirði frá 1880–1946. Við rannsóknina var beitt hinni sögulegu aðferð. Litlar skrásettar heimildir er að hafa fram til 1894 en eftir það eru skýrslur sem tengjast styrkveitingum til farkennara mikilvæg heimild um fræðslu í byggðarlaginu. Úrvinnsla þessara gagna leiddi í ljós að eftir að styrkhæf farkennsla hófst í Fljótum var hún regluleg fram að setningu fræðslulaganna 1907. Opinbera barnafræðslu í Fljótum má að flestu leyti telja sambærilega því sem gerðist utan kaupstaða á landsvísu 1903–1904 og sambærilega við barnafræðslu í héruðum við Húnaflóa á sama tíma. Sama má segja um menntun og bakgrunn sveitakennara. Allir nema einn þeirra sem kenndu þar til fast skólahald komst á í Fljótahreppunum höfðu formlega menntun að baki, ýmist kennarapróf, gagnfræðapróf eða búfræðinám. Athygli vekur að aðeins þrjár konur voru í hópi þessara kennara. Um helmingur sveitakennaranna var lengi við kennslu og einn þeirra áratugum saman. Fast skólahald komst á í tveimur þinghúsum í Holtshreppi kringum 1930 en í Haganeshreppi var byggður heimavistarskóli í byrjun fimmta áratugarins. Átti sú ráðstöfun sér langan og stormasaman aðdraganda sem meðal annars einkenndist af pólitískum deilum og trúmálum. Deilan leystist svo farsællega þegar skóli var byggður í landi Barðs í Flókadal, í samstarfi Haganeshrepps og kvenfélagsins Vonar á Siglufirði. Árið 1973 gerðist Holtshreppur aðili að skólanum. Skólahald var á Sólgörðum allt þar til skólahald í byggðarlaginu lagðist af vorið 2018.

Virk þátttaka og farsæld barna

Hervör Alma Árnadóttir, doktorsnemi, MVS HÍ og Guðrún Kristinsdóttir, prófessor emerita, MVS HÍ

Víða í íslensku lögunum er lögð áhersla á að veitt þjónusta sé unnin í samráði við og með notendum, þar á meðal börnum. Þessar áherslur eru skýrar í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögbundinn var á Íslandi árið 2013 og í nýjum lögum um farsæld barna. Til þess að fá að tala við börn þurfa rannsakendur gjarnan leyfi og aðstoð fagmanna og forsjáraðila svokallaðra hliðvarða. Markmiðið hér er að fjalla um virka þátttöku barna í rannsókum á síðustu árum og í því samhengi leitast við að greina hvort breytingar hafi orðið á virkri þátttöku barna sem skilgreind eru í viðkvæmri stöðu. Því er spurt; hvaða breytingar má greina er varða virka þátttöku barna í rannsóknum á síðustu árum? Til að leita svara var skoðuð staða þekkingar á viðfangsefninu frá árinu 2015 til 2022. Fyrstu niðurstöður benda til þess að almenn þátttaka barna hafi aukist en þátttaka barna sem skilgreind eru í viðkvæmri stöðu hafi síður aukist. Viðhorf hliðvarða til hæfni barna og þátttöku hafi mikil áhrif á það hvort hliðverðir aðstoði rannsakendur við það að fá aðgengi að börnum. Hliðverðir telja að rannsakendur þurfi að leggja meiri vinnu í umsóknir sínar og rökstuðning þegar þeir óska eftir aðstoð þeirra. Mikilvægt er að rannsakendur og fagmenn sem starfa með börnum séu meðvitaðir um mikilvægi þess að fjölbreyttur hópur barna fái tækifæri til þátttöku í rannsóknum til þess að bæta þjónustu og þá farsæld barna.

Lýðræðisleg forysta í leikskólum

Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ og Arna H. Jónsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á lýðræðislega forystu í leikskólum í þeim tilgangi að greina hvað hvetur og hindrar leikskólastjóra í að beita lýðræðislegum stjórnunarháttum. Rannsóknir sýna að lýðræðisleg forysta hvetur til samvinnu. Hana má skilgreina sem heilveldi (e. holarchy) sem mótvægi við stigveldi (e. hierarchy). Slík forysta hvetur þá sem að starfinu koma til að vera virkir þátttakendur í skólastarfinu. Það felur í sér skuldbindingu starfsfólks og barna gagnvart sameiginlegum gildum lýðræðis og félagslegs réttlætis. Mikilvægir þættir lýðræðislegrar forystu í skólum er virk hlustun og að virkja fólk í umræðu, en þannig er komið á lýðræðislegum skólabrag og lærdómssamfélagi í leikskólanum, hvatt til frjálsra skoðanaskipta og umræðu og leitað eftir sjónarmiðum og viðhorfum kennara, foreldra og barna. Hálf-opin einstaklingsviðtöl voru tekin við átta leikskólastjóra víðs vegar um landið, en þau henta vel til að athuga reynslu, skynjun og fyrirætlanir fólks. Tveir rannsakendur skiptu á milli sín viðtölunum og tóku þeir fjögur viðtöl hver. Niðurstöður leiða í ljós að öllum viðmælendum fannst mikilvægt að beita lýðræðislegri og þátttökumiðaðri forystu í leikskólunum. Viðmælendur töldu helstu kosti þess að beita lýðræðislegri forystu að þú færð fólkið með þér, starfið verður skemmtilegra og starfsánægjan meiri. Eigin viðhorf, þankagangur, getuleysi, áhuga- og ábyrgðarleysi var nefnt sem helstu hindranir þess að beita lýðræðislegri forystu. Einnig að gefa frá sér vald og frelsi. Fræðilegt gildi rannsóknarinnar felst í aukinni þekkingu á lýðræðislegri forystu og tengslum hennar meðal annars við þátttöku og félagslegt réttlæti í leikskóla.