Streita

Kl. 8:30-10:00

Gyða Margrét Pétursdóttir

„Hlúa vel hvert að öðru, halda góðu sambandi við samstarfsfólk ykkar og sýna hvert öðru stuðning“: Greining á tilkynningum Háskóla Íslands tengdum kórónuveirufaraldrinum

Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor, FVS HÍ og Thamar Melanie Heijstra, prófessor, FVS HÍ 

Kórónuveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á starf Háskóla Íslands. Umbylta þurfti starfinu á skömmum tíma og stjórn Háskóla Íslands hélt nemendum og starfsfólki skólans upplýstu um stöðu faraldursins, áhrif hans á skólastarf og sérstakar ráðstafanir sem gera þurfti á hverjum tíma samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis. Tilkynningar voru sendar að jafnaði vikulega og þeim fylgdi ýmiss konar hvatning til starfsfólks og nemenda auk ljóðmæla. Markmið þessarar rannsóknar er að greina þessar tilkynningar, sem sendar voru í nafni rektors Háskóla Íslands, með hliðsjón af jafnréttisáherslum háskólans og rannsóknum sem fjalla um háskólastarf, hugmyndafræði nýfrjálshyggju og kyngervi. Í rannsókninni er spurt: Hvort og þá með hvaða hætti endurspeglast áherslur Háskóla Íslands á kynjajafnrétti í tilkynningunum? Hvert er kyngervi þeirra sem vísað er í og fjallað er um? Hvaða skilaboðum er miðlað til starfsfólks varðandi æskilegt framferði? Gögn rannsóknar samanstanda af tilkynningum sem sendar voru á tímabilinu febrúar 2020 til maí 2021. Gögnin, um 34.000 orð, voru þema- og orðræðugreind. Helstu niðurstöður eru þær að karlar eru oftar en konur nafngreindir í tilkynningunum og oftar er vísað í þá. Í tilkynningunum er fjallað um æskilega eiginleika starfsfólks, hvernig talið er að starfsfólki líði, með hvaða hætti æskilegt er talið að beita huganum og starfsfólk er hvatt til að verja tíma sínum utan vinnu með ákveðnum hætti. Tilgangur okkar með rannsókninni er að vekja athygli á mikilvægi þess að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við alla stefnumótun, sama í hvaða formi hún birtist. Rannsóknir sýna að ein af afleiðingum kórónuveirufaraldursins er aukin misskipting og hætta á bakslagi varðandi kynjajafnrétti. 

 

Algengi vinnutengdrar streitu meðal leikskólakennara og grunnskólakennara síðustu misserin

Hjördís Sigursteinsdóttir, dósent, HA og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor, FVS HÍ 

Hugtakið streita er flókið en talað um að vinnutengd streita sé neikvæð viðbrögð, líkamleg jafnt sem andleg, sem koma fram þegar misræmi er milli þeirra krafna sem starfið gerir til okkar og þeirrar getu, þarfa og eiginleika sem við búum yfir. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða algengi vinnutengdrar streitu meðal grunn- og leikskólakennara síðustu misserin. Spurningalistakönnun var lögð fyrir leikskólakennara og grunnskólakennara sem starfa hjá íslenskum sveitarfélögum á vordögum 2019 og 2021. Til þess að leggja mat á streitu leikskólakennara og grunnskólakennara var notaður PSS-streitukvarðinn (Perceived Stress Scale) sem inniheldur tíu spurningar sem mældar eru á kvarðanum 0-4. Niðurstöðurnar sýna að í fyrirlögninni 2019 var meðalskor streitu 13,9 stig og samkvæmt kvarðanum mældust um 51% leik- og grunnskólakennara yfir streituviðmiðunum. Einnig kom í ljós að meðalskor fyrir vinnutengda streitu mældist mjög svipað hjá leikskólakennurum (13,7 stig) og grunnskólakennurum (14,2 stig) (t(2550) =1,86, p>0,05). Um 53% leikskólakennara mældust yfir streituviðmiðum og um 50% grunnskólakennara. Í fyrirlögninni 2021 mældist meðalskor fyrir vinnutengda streitu 14,32 stig og mældust 52% leik- og grunnskólakennara yfir streituviðmiðunum. Meðalskor fyrir vinnutengda streitu leikskólakennara árið 2021 var 15,18 stig en 13,95 stig meðal grunnskólakennara (t(2432) =4,05, p<0,05). Um 55% leikskólakennara voru yfir streituviðmiðum en 51% grunnskólakennara. Niðurstöðurnar sýna töluverða streitu meðal leik- og grunnskólakennara í báðum fyrirlögnum spurningalistans, þó meiri í síðari fyrirlögninni og meiri meðal leikskólakennara en grunnskólakennara. Mikilvægt er að skoða vel til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að tryggja leik- og grunnskólakennurum heilsusamlegra starfsumhverfi. 

 

Kulnun meðal grunnskólakennara á tímum COVID-19

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor, FVS HÍ og Hjördís Sigursteinsdóttir, dósent, HA 

Kulnun (e. burnout) í starfi er þegar starfsmaður upplifir tilfinningalega örmögnun sem er tilkomin vegna ójafnvægis milli starfstengdra krafna og getu starfsmannsins til að sinna starfi sínu. Um er að ræða ástand sem rakið er til meðal annars langvarandi streitu á vinnustað og skorts á úrræðum starfsmannsins. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða algengi kulnunar í starfi meðal grunnskólakennara á tímum COVID-19. Sendur var spurningalisti í tölvupósti til kennara á vordögum 2019 og 2021. Kulnun í starfi var mæld með CBI-mælikvarðanum (Copenhagen Burnout Inventory) sem mælir að hve miklu leyti einstaklingar upplifa andlega og líkamlega þreytu og örmögnun gagnvart starfi sínu. Í heildina voru 1729 grunnskólakennarar sem svöruðu öllum spurningunum um kulnun í starfi, 14,1% karlar og 85,6% konur. Niðurstöðurnar sýna að í fyrirlögninni 2019 mældust 33% grunnskólakennaranna með engin merki um kulnun í starfi, 43,8% með nokkur atriði sem einstaklingur ætti að vera meðvitaður um, 20,5% grunnskólakennaranna mældust með kulnunareinkenni sem þeir ættu að gera eitthvað í og 2,7% kennaranna mældust svo útbrunnir að þeir ættu að leita sér tafarlaust hjálpar til að breyta stöðu sinni. Fyrirlögnin 2021 sýnir hærra hlutfall grunnskólakennara sem mældist með kulnunareinkenni sem þeir ættu að gera eitthvað í, eða 23,6% og einnig hærra hlutfall grunnskólakennara sem mældust svo útbrunnir að þeir ættu að leita sér tafarlaust hjálpar til að breyta stöðu sinni, eða 3,6%. Mikilvægt er að skoða vel starfsumhverfi grunnskólakennara í því augnamiði að lagfæra þá þætti starfsumhverfinu sem hafa áhrif á kulnun grunnskólakennara í starfi og stuðla þannig að heilsusamlegra starfsumhverfi.