Sköpun og kennsla 

Kl. 12:00-13:30

Torfi Hjartarson

Þróunarverkefni á fullri ferð – Austur-Vestur, sköpunarsmiðjur í þremur grunnskólum 

Svala Jónsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ; Svava Pétursdóttir, lektor, MVS HÍ; Svanborg R. Jónsdóttir, prófessor, MVS HÍ; Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Torfi Hjartarson, lektor, MVS HÍ 

Sköpunarsmiðjur (e. makerspaces) hafa litið ljós í skólastarfi sem eitt viðbragð við ákalli um aukna sköpun og atbeina í námi nemenda. Austur-Vestur er þróunarverkefni þriggja grunnskóla í Reykjavík; Ingunnarskóla, Selásskóla og Vesturbæjarskóla. Verkefnið snýst um að innleiða og þróa sköpunar- og tæknismiðjur í skólunum. Framtíðarsýnin með þróunarverkefninu er að bæta námsumhverfi skólanna, auka áherslu á samvinnu bæði nemenda og kennara, efla sjálfstæði nemenda og ýta undir skapandi vinnu við lausn verkefna, nýtingu tækninnar og samþættingu námsgreina. Í skólunum eru verkefnastjórar og haldnar eru sameiginlegar menntabúðir þar sem kynnt eru stafræn verkfæri og kennsluhugmyndir. Rannsóknarhópur á vegum RASK og RannUM á Menntavísindasviði hefur fylgst með verkefninu, rannsakað og veitt ráðgjöf frá því það hófst haustið 2019. Þegar verkefnið var hálfnað í febrúar 2021 var lögð fyrir alla kennara skólanna könnun til að skoða stöðu verkefnisins, 75 af 80 kennurum skólanna svöruðu. Flestir kennaranna segjast í henni hafa góðan skilning á verkefninu, hafa áhuga á því og telja það mikilvægt fyrir nám og hæfni nemenda. Flestir telja þátt sköpunar og tækni mikilvægastan og höfðu aukið þá þætti í kennslu sinni frá því að verkefnið hófst. Svörin benda líka til töluverðrar virkni kennara í verkefninu þar sem 80% svarenda höfðu prófað eitthvað af því sem kynnt hefur verið í menntabúðum verkefnisins. Svörin benda almennt til þess að verkefninu sé vel stýrt og því veitt skýr fagleg forysta. Ljóst er að skipulag verkefnisins og sýn birtist í skólastarfinu með aukinni áherslu á verkefni sem styðja við atbeini nemenda og sköpun. 

 

Allt annað en upp á töflu: Námsreynsla í sýndarveruleika

Anna Kristín Valdimarsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ; Flosi Jón Ófeigsson, meistaranemi, MVS HÍ; Ásta Olga Magnúsdóttir, verkefnastjóri, Gagarín; Rannveig Björk Þorkelsdóttir, dósent, MVS HÍ og Hanna Ólafsdóttir, lektor, MVS HÍ 

Í þessu erindi veitum við innsýn í þróunar- og rannsóknarverkefni sem heitir Astrid Loftslagsmál, en það hlaut styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2021. Tilgangur verkefnisins er annars vegar að þróa námsefni og umgjörð um sýndarveruleikaupplifunina Astrid, sem er þróuð af Gagarín í samstarfi við Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík með styrk frá Loftslagssjóði. Hins vegar á að rannsaka upplifun nemenda á samvinnu í sýndarveruleika sem kennslufræðilegu afli. Námsefnið er ætlað efstu stigum grunnskóla og nemendum í framhaldsskólum. Til grundvallar liggur núgildandi aðalnámskrá ásamt skuldbindingum íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum og skapandi kennsluháttum sem stuðla að menntun til sjálfbærrar þróunar. Áhersla er á nemendamiðað og umbreytandi nám þar sem hver og einn nemandi fær tækifæri til að þróa hugmyndir sínar og hæfileika í samvinnu við aðra í skapandi leitarnámi þvert á námsgreinar. Rannsóknin byggir á eigindlegri rannsóknarhefð og fyrirbærafræðilegu sniði og er enn á frumstigi. Gagnaöflun byggist á notendaprófum og rýnihópaviðtölum með þátttakendum ásamt fræðilegri rýni. Frumniðurstöður benda til þess að sýndarveruleikaupplifunin kveiki áhuga hjá nemendum og vilja til að öðlast dýpri þekkingu á viðfangsefninu ásamt að veita fjölbreytt sjónarhorn á margþættan vanda á þverfaglegan hátt. 

 

Hvað er að vera skapandi – í listum?

Margrét Elísabet Ólafsdóttir, dósent, HA 

Sköpun er einn af grunnþáttum menntunar samkvæmt gildandi aðalnámskrá. Litið er svo á að hún sé ekki einungis mikilvægur þáttur í listmenntun, heldur í öllu námi og starfi – en er sjálfgefið að öll listmenntun sé skapandi? Hvernig er farið að því að efla þennan þátt? Þessar spurningar vöknuðu á námskeiði í myndmennt fyrir kennaranema, sem hafa lítinn eða engan bakgrunn í listum. Fram undir lok 20. aldar hefði verið hægt að benda á að besta leiðin væri að byrja á að kenna nemendunum tæknileg undirstöðuatriði, en við upphaf 21. aldar hljótum við að spyrja um gagnsemi slíkrar undirstöðu. Hvaða máli skiptir hún þegar þau eru hætt að skipta meginmáli í menntun myndlistarmanna? Þetta hefur nefnt affærni (e. deskilling) sem vekur upp þá spurningu hvort ný færni hafi komið í stað þeirrar sem áður þótti mikilvæg. Svörin við þessum spurningum eru studd eigin starfskenningu, kenningum í fagurfræði og sálfræði um sköpun, og dæmum um myndmenntarkennslu barna í sögulegu samhengi. Í niðurstöðum verður sett fram sú kenning að við stöndum á tímamótum í myndmenntarkennslu þar sem sköpunarþátturinn hefur fengið það vægi sem tæknileg færni hafði áður.