Skólastarf á tímum COVID-19 

Kl. 13:40-15:10

Ellen Dröfn Gunnarsdóttir

Getur góð endurgjöf styrkt tengsl kennara og nemenda í fjarnámi? Notkun Turnitin við kennslu

Guðný Sigurðardóttir, meistaranemi, FVS HÍ; Harpa Dröfn Kristinsdóttir, meistaranemi, FVS HÍ; Sigurbjörg Jóhannesdóttir, verkefnastjóri og leiðbeinandi, HÍ; Hilma Gunnarsdóttir, sérfræðingur, Landsbókasafni Íslands, Háskólabókasafni og Tinna Karen Sveinbjarnardóttir, meistaranemi, FVS HÍ  

Háskólar og framhaldsskólar brugðust við COVID-19 með því að færa kennslu í fjarkennslu. Það skapaði nýjar áskoranir við kennsluna og í kennslu á stafrænan máta vakna spurningar um hvernig megi mynda, styrkja og viðhalda tengslum nemenda og kennara. Íslenskum framhaldsskólum býðst aðgangur að forritinu Turnitin Feedback Studio. Forritið býður upp á gagnvirkt nám og nýja nálgun með stafrænni endurgjöf, ritskimun og jafningjamati. Rannsóknir hafa sýnt að regluleg notkun forritsins getur styrkt tengsl kennara og nemenda í fjarnámi og flýtt verulega fyrir vinnu kennara. Skoðar voru nýjar fræðigreinar og rannsóknir um efnið. Send var netkönnun (spurningakönnun) um notkun Turnitin og kennsluhætti í fjarnámi til allra kennara í framhaldsskólum sumarið 2021. Notaður var sex þrepa Likert-kvarði frá mjög ósammála (1) til mjög sammála (6). Einnig voru tekin viðtöl við rýnihóp framhaldsskólakennara sem nota forritið mikið í kennslu.Kennarar sem nota Turnitin Feedback Studio segja að endurgjöf með forritinu stytti vinnutíma við yfirferð verkefna, hvetji til sjálfstæðra vinnubragða nemenda, auki gæði verkefna þeirra og styðji við akademísk heilindi nemendanna. Vellíðan kennara og nemenda eykst og tengsl þeirra styrkjast. Efla þarf gagnvirka notkun Turnitin Feedback Studio í fjarnámi til að auka sjálfstraust nemenda í námi og akademísk heilindi en fyrst og fremst til að styðja við tengslamyndun kennara og nemenda. 

 

Fordæmalausir tímar: Reynsla leikskólastjóra á tímum COVID-19 

Kristín Gísladóttir, skólastjórnandi, leikskólanum Ugluklett Borgarbyggð og Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor, FVS HÍ 

Heimsfaraldur COVID-19 kom eins og þruma úr heiðskíru lofti yfir allt samfélagið og þar með inn í starf leikskóla. Leikskólar eru ein af grunnstoðum samfélags og mikilvægt að varpa ljósi á reynslu leikskólastjóra af stjórnun við þessar einstöku aðstæður. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna reynslu leikskólastjóra í starfi í fyrstu bylgju COVID-19 og að kanna hvaða áherslur og aðferðir þeir nýttu til þess að komast í gegnum tímabilið. Tekin voru eigindleg viðtöl við tíu leikskólastjóra víða að af landinu. Við greiningu gagna komu fram þrjú þemu og nokkur undirþemu sem lýsa reynslu leikskólastjóranna. Fyrsta þemað fjallar um það álag sem varð á tímabilinu, annað þemað fjallar um samvinnu sem myndaðist og þriðja þemað lýsir hvernig starfsfólk og skólasamfélagið valdefldist í tengslum við þessa reynslu. Niðurstöður gefa til kynna mikilvægi þess að hafa skýr markmið, skýra sýn og að gefa starfsfólki leikskóla hlutdeild í þeim verkefnum sem það á að takast á við. Jafnframt nauðsyn þess að hlusta á og virða líðan og tilfinningar fólks, að styðja starfsfólk við að takast á við erfið og flókin verkefni og að hlúa vel að öllum, ekki síst stjórnendum. Fram komu vísbendingar um að áherslur og aðferðir þjónandi forystu og áherslur lærdómssamfélagsins séu árangursríkar til þess að leiða leikskólastarf á tímum álags og áfalla. Niðurstöðurnar eru framlag til þekkingar um árangursríkar áherslur í stjórnun á tímum heimsfaraldurs og geta nýst innan skóla sem og fyrir aðra sem takast á við óvæntar áskoranir og krísur. 

 

Framhaldsskólanemendur og COVID-19

Kristjana Stella Blöndal, dósent, FVS HÍ og Elva Björk Ágústsdóttir, framhaldsskólakennari, Menntaskólinn við Hamrahlíð 

Skuldbinding til náms og skóla skiptir miklu um farsæla skólagöngu. Aftur á móti virðist hún almennt minnka á unglingsárum sem eykur líkur á brotthvarfi frá námi. Talið er að þessa neikvæðu þróun megi rekja til þess að framhaldsskólinn komi ekki nægilega til móts við þarfir nemenda á þessu þroskaskeiði en rannsóknir skortir. Þær óvenjulegu aðstæður sem sköpuðust í skólastarfi vegna COVID-19 gefa einstakt tækifæri til að auka skilning á hvernig skuldbinding mótast í samspili ungmenna og skóla. Markmið er að varpa ljósi á upplifun framhaldsskólanemenda á mikilvægi þess að mæta í skólann og er hér beint sjónum að hlutverki kennarans. Byggt er á viðamikilli eigindlegri rannsókn með langtímasniði sem náði til 40 nemenda í mismunandi skólum á tímum samkomutakmarkana. Niðurstöður leiddu í ljós að tengsl við kennara skiptu miklu fyrir upplifun nemenda á mikilvægi þess að mæta. Greina mátti fjögur meginþemu í umfjöllun þeirra um gott samband við kennara: 1. Hvetjandi nærvera. 2. Stuðningur og sveigjanleiki. 3. Umhyggja og hlýja. 4. Góð samskipti kennara og nemenda. Skýrt kom fram hversu miklu máli tengsl við kennara skiptu fyrir skuldbindingu nemenda. Nemendur sem lýstu sterkum tengslum höfðu jákvæðari afstöðu og metnað í námi og fannst þeir tilheyra skólanum. Nemendur virtust öll sakna „hefðbundinna“ samskipta við kennarana í fjarkennslunni. Þrátt fyrir að samband kennara og nemenda breytist eftir því sem nemendur þroskast og framhaldsskólinn sé talinn ópersónulegri en fyrri skólastig varpa þessar óvenjulegu aðstæður ljósi á einstakt hlutverk kennara og hve mikilvægt gott samband kennara og nemenda er fyrir skólagönguna.