Samskipti og sjálfsmynd barna og ungmenna 

Kl. 13:40-15:10

Kristján Ketill Stefánsson

Áhrif þátttöku í Skrekk á skólabrag

Jóna Guðrún Jónsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Rannveig Björk Þorkelsdóttir, dósent, MVS HÍ 

Á hverju ári frá árinu 1990 hefur Reykjavíkurborg boðið nemendum í grunnskólum Reykjavíkur að taka þátt í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskóla Reykjavíkur, þar sem lögð er áhersla á virka þátttöku, lýðræði, reynslunám og mannréttindi. Í þessu erindi gefum við innsýn í yfirstandandi rannsóknarverkefni þar sem markmiðið er að skoða hvaða áhrif þátttaka í verkefni eins og Skrekk hefur á skólabrag þátttökuskóla. Einnig er markmiðið að stuðla að aukinni þekkingu á listgreinakennslu þar sem skoðað er hvaða listgreinar eru kenndar í viðkomandi skólum. Aðferðafræðin sem notuð er í þessari rannsókn er eigindleg (e. qualitative research) og felur í sér viðtöl við stjórnendur ásamt spurningalista sem sendur var út. Frumniðurstöður sýna að þátttaka í Skrekk hefur mikil áhrif á skólabrag þátttökuskóla. Hún bætir liðsheild meðal nemenda og starfsmanna skólans, stuðlar að vinskap milli nemenda, hjálpar börnum í minnihlutahópum að kynnast fleirum innan skólans ásamt að kennarar skólans kynnast nýjum hliðum á nemendum sínum. Einnig kom fram að í öllum skólum nema einum var kennari við skólann sem sá um og aðstoðaði nemendur í Skrekk. Einnig kom fram að listgreinarnar eru kenndar í öllum skólunum sem tóku þátt en fá mismunandi vægi. 

 

Dalandi sjálfsálit barna og unglinga á Íslandi 2010-2021

Kristján Ketill Stefánsson, sjálfstætt starfandi fræðimaður 

Í þessari rannsókn er markmiðið að gera grein fyrir neikvæðri þróun sjálfsálits barna og unglinga á Íslandi á árunum 2010-2021. Rannsóknin er eftirvinnsla (e. post-analysis) á gögnum úr Skólapúlsinum sem nýtt hafa verið til innra mats í á annað hundrað grunnskólum á síðustu árum. Mikill meirihluti nemenda í 6.-10. bekk (um 15 þús. nemendur árlega) hafa svarað könnuninni. Meginniðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að sjálfsálit, mælt með stuttri útgáfu af Rosenberg-kvarðanum, hafi að jafnaði dalað töluvert (d = -0,5) á þeim 11 skólaárum sem gögnin ná til. Meginþorra lækkunarinnar (d = -0,4) má rekja til síðustu þriggja skólaára tímabilsins; 2018-19, 2019-20 og 2020-21. Greina má brot í þróun sjálfsálits þegar kynslóðirnar sem fæddust á árunum 2005-2009 hófu nám í 6. bekk. Sjálfsálit þeirra mældist lægra og féll hraðar á mið- og unglingastigi heldur en barna sem fædd voru á árabilinu 1999-2004. Fjallað verður um niðurstöðurnar í tengslum við erlendar rannsóknir sem tengja dalandi andlega líðan unglinga við aukna nýmiðlanotkun (e. new media use) sem og nýlegar rannsóknir sem tengja lækkun á sjálfsáliti við aukningu á þunglyndi og sjálfsvígum.  

 

Hvaða máli skiptir líðan ungmenna og gæði tengsla við foreldra fyrir þróun áfengis- og kannabisneyslu á unglingsárum?

Ragný Þóra Guðjohnsen, lektor, MVS HÍ  

Á unglingsárum takast einstaklingar á við ýmiss konar breytingar og áskoranir. Andleg vanlíðan er ein þessara áskorana og áhyggjur vekur að líðan ungmenna fer hrakandi, bæði hér á landi og víða erlendis. Að sama skapi beinast áhyggjur að vímuefnaneyslu ungmenna en sífellt koma fram nýjar áskoranir í því efni. Því er kallað eftir stefnumótun og úrræðum sem snúa að þessum þáttum en jafnframt því að skoða áhættuþætti og verndandi þætti sem tengjast andlegri velferð og vímuefnaneyslu. Tilgangur rannsóknarinnar er að kortleggja líðan og vímuefnaneyslu ungmenna í 10. bekk grunnskóla og skoða þessa þætti í tengslum við gæði tengsla við foreldra ungmennanna. Einnig að kanna hvort líðan ungmenna og gæði tengsla við foreldra spái fyrir um áfengis- og kannabisneyslu ungmenna. Notuð voru gögn úr spurningalistakönnuninni Heilsa og lífskjör skólabarna (HBSC, 2017-2018); mælingarnar styrkur tengsla við foreldra, líðan ungmenna og vímuefnanotkun ungmenna. Helstu niðurstöður voru að ungmenni sem upplifa slakari tengsl við foreldra eru líklegri en hin sem höfðu góð eða mjög góð tengsl við foreldra, til að líða illa og upplifa fleiri sállíkamleg einkenni og jafnframt til að nota vímuefni og það í meiri mæli. Líðan ungmennanna og tengsl við foreldra spá fyrir um áfengis- og kannabisneyslu þeirra en líðan er einnig sjálfstæður áhættuþáttur. Af niðurstöðum má ráða að aðkallandi er að styðja við betri líðan ungmenna. Góð tengsl við foreldra eru mikilvæg og stuðningsþjónusta þarf að vera til staðar. Snemmbær inngrip geta skipt sköpum fyrir líðan og minnkað líkur á að ungmenni þrói með sér frekari geð- og vímuefnavanda. 

 

Lærdómur sumardvalar í sveit

Jónína Einarsdóttir, prófessor, FVS HÍ  

Allt frá lokum 19. aldar var það algengur íslenskur siður að senda börn í sveit yfir sumartímann. Þar dvöldu þau ýmist hjá fjölskyldu, vinum eða vandalausum. Undir lok 20. aldar varð það þó allt sjaldgæfara að börn færu í sveit og var gjarnan fjallað um illa meðferð á börnum sem dvöldu sumarlangt fjarri foreldrum. Markmiðið er að kanna mat fullorðinna Íslendinga á reynslu af sveitardvöl í æsku með áherslu á lærdóm sumardvalanna. Eigindlegum gögnum var safnað með á sjötta tug viðtala við einstaklinga sem höfðu farið í sveit. Spurningakönnun með lagskiptu slembiúrtaki úr Þjóðskrá, 18 ára og eldri (n=2000) var framkvæmd í nóvember 2015 til janúar 2016 (svarhlutfall 66%). Nánast níu af hverju tíu svarenda í spurningakönnuninni áttu „margar góðar minningar úr sveitinni“ og svöruðu játandi fullyrðingunni „sveitardvölin breytti mér og mínu lífi á jákvæðan hátt“. Flestir viðmælenda lögðu áherslu á jákvæðar hliðar sveitardvalar þó að hún hefði ekki alltaf verið létt. Töldu margir að þeir hefðu þroskast mikið og lært margt, sérstaklega til verka en einnig að meta náttúruna og dýrin. Um tíundi hver svarandi reyndist ósáttur við dvöl sína, m.a. vegna heimþrár, ofbeldis, verkefna sem þeir réðu ekki við, vinnuþrælkunar og skorti á samráði um sveitardvölina. Mikill meirihluti þeirra sem fór í sveit í æsku leið vel og dvölin reyndist þeim lærdómsrík. Hún var þó ekki alltaf auðveld og of stór hópur varð fyrir illri meðferð. Siðurinn að senda börn í sveit er á undanhaldi. Gangi hann í endurnýjun lífdaga þarf að huga að vellíðan og öryggi barnanna.