Rannsóknir á verk- og starfsmenntun

Kl. 13:40-15:10

Rannsóknarstofa um verk- og starfsmenntun (RannVerk)

Elsa Eiríksdóttir

Hvernig tryggjum við samfellu í námi milli þrepa og kerfa? Uppbygging námslínu fyrir ferðaþjónustu

Haukur Harðarson, sérfræðingur, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor, VoN HÍ

Í júní 2019 kom út skýrslan Hæfni er grunnur að gæðum, innlegg atvinnulífsins í mótun mennta- og hæfnistefnu fyrir ferðaþjónustuna. Þar kom fram þörf atvinnulífs fyrir öflugra hagnýtt (starfstengt) nám í ferðaþjónustu og mikilvægi þess að tryggja samfellu í námi milli skólakerfa. Frá útgáfu skýrslunnar hefur verið unnið að því að koma þessari framtíðarsýn ferðaþjónustunnar í framkvæmd, að skapa heildarmynd af uppbyggingu náms sem tengist greininni. Horft er til þess að nám sem tengist ferðaþjónustu hafi skýra tengingu við þarfir atvinnulífs, að samræmi sé í uppbyggingu náms, námið hafi gildi milli skólastiga og að sýnileiki náms- og starfsmöguleika verði aukinn. Einnig sé mikilvægt að þau sem þegar eru starfandi í ferðaþjónustu geti fengið sína færni metna. Áréttuð er þörf fyrir millistjórnendur á þrepum þrjú og fjögur. Námskrárskrif hófust árið 2020 og lýkur haustið 2021. Samstarf er við háskólastig til að tryggja að starfsnám á þrepum tvö og þrjú í ferðaþjónustu nýtist til frekara náms. Farið verður yfir verkefnið í heild sinni, vinnulag og afurðir. Markmiðið er að fá fram raddir hagsmunaaðila úr atvinnugreininni, menntakerfinu og frá stjórnvöldum um áskoranir og tækifæri við uppbyggingu á heildstæðu námi í ferðaþjónustu á ólíkum þrepum í menntakerfinu.

 

Starfsmenntanemar í skiptinámi: „Svo miklu meira en bara vinnustaðurinn“

Guðfinna Guðmundsdóttir, menntunarfræðingur og matreiðslumeistari, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Kársnesskóla og Elsa Eiríksdóttir, dósent, MVS HÍ

Í erindinu verður fjallað um rannsókn á reynslu starfsmenntanema að afloknu skiptinámi í Evrópu. Styrkjaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+, veitir meðal annars styrki til skiptináms í starfsnámi. Þannig hljóta nemendur tækifæri til að vinna við sitt fag í öðrum löndum Evrópu, stofna til tengsla við kollega og skapa jafnvel atvinnutækifæri á stærri vinnumarkaði. Skiptinemar fá því kjörið tækifæri til að auka og dýpka hæfni sína í faginu. Þó er lítið vitað um reynslu þeirra eða hvernig skiptinámið í raun nýtist þeim – bæði í náminu og síðar í starfi. Markmið rannsóknarinnar er því að fá innsýn í reynslu starfsmenntanema af dvölinni, sérstaklega hvaða áhrif dvölin hafði og útkomu fyrir þá, bæði persónulega og sem fagmenn. Einnig verður horft til þess hvað skiptir máli varðandi undirbúning og framkvæmd skiptináms í starfsmenntun og hvaða áskoranir nemendur upplifa. Hálfopin einstaklingsviðtöl voru tekin við 12 starfsmenntanema úr mismunandi fögum sem dvöldu í ólíkum löndum vegum Erasmus+ áætlunarinnar. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að viðmælendur voru ánægðir með bæði skipulag og framkvæmd skiptinámsins. Þeir voru sammála um að dvöl í öðru landi væri þroskandi og þeir hefðu fengið mörg og fjölbreytt tækifæri til að kynnast starfsgrein sinni á meðan dvölinni stóð. Einnig kom fram að margir þeirra höfðu eignast vini til frambúðar, gjarnan innan fagsins. Allir sem talað var við sögðust tilbúnir til að fara aftur ef það byðist. Reynslan virðist því á heildina litið jákvæð, en í erindinu verður rætt frekar um námstækifæri í skiptinámi og áhrif þess til lengri tíma litið.

 

Að vera stór fiskur í lítill tjörn: Áhrif nemendahópsins á trú ungmenna á eigin getu

Heiður Hrund Jónsdóttir, doktorsnemi, FVS HÍ og Kristjana Stella Blöndal, dósent, FVS HÍ

Brotthvarf úr framhaldsskóla hefur neikvæðar afleiðingar fyrir einstakling og samfélag. Framhaldsskólanemar sem hafa trú á eigin námsgetu eru líklegri til að ljúka námi og auka þannig almenna velferð sína til framtíðar. Rannsóknir skortir á samsetningu nemendahópa í tengslum við trú ungmenna á eigin getu sem er mikilvægur þáttur til að koma í veg fyrir brotthvarf. Meginmarkmið þessarar rannsóknar er að kanna (a) hvernig trú nemenda á eigin getu þróast frá lokum grunnskóla og yfir fjögurra ára tímabil og (b) hvernig þróunin mótast af ólíkri samsetningu nemendahópa í framhaldsskóla. Sérstök áhersla verður lögð á að bera saman nemendahópa í bóknámi og starfsnámi. Notast er við gögn úr langtímarannsókninni Borgarbörn þar sem spurningakönnun var lögð fyrir nemendur í 10. bekk á höfuðborgarsvæðinu og svo aftur fjórum árum seinna. Í báðum könnunum var trú nemenda á eigin námsgetu metin. Upplýsingar frá Hagstofu Íslands um framhaldsskóla og námsbraut þátttakenda eftir að grunnskólagöngu þeirra lauk eru notaðar til að flokka nemendur í hópa og námsgeta þeirra og þess nemendahóps sem þeir tilheyra er metin út frá einkunnum þeirra á samræmdum prófum við lok grunnskóla. Stigveldis aðhvarfsgreining (e. hierachical regression) verður notuð til að meta áhrif nemendahópsins á þróun ungmenna á trú þeirra á eigin námsgetu en frumniðurstöður benda til þess að því slakari sem námsárangur hópsins er, því frekar styrkist trú nemenda á eigin námsgetu. Niðurstöðurnar munu auka skilning á mikilvægi nemendahóps fyrir trú nemenda á eigin getu og brotthvarf frá námi og munu nýtast í forvörnum og inngripum gegn brotthvarfi.

 

Áskoranir starfsmenntunar á Íslandi

Elsa Eiríksdóttir, dósent, MVS HÍ

Á síðustu áratugum hefur starfsmenntakerfið á Íslandi glímt við áskoranir sem illa virðist ganga að ráða fram úr: (1) Stjórnsýsla starfsmenntunar hefur þótt umfangsmikil og flókin, (2) starfsmenntun hefur þótt undirskipuð bóknámi og verið síður eftirsóknarverð, sérstaklega þegar litið er til námsvals ungmenna og áherslu á mikilvægi háskólamenntunar í íslensku samfélagi, og (3) illa hefur gengið að samhæfa nám í skóla og á vinnustað og sammælast í hverju nákvæmlega vinnustaðanám felst. Þessar áskoranir eru að mörgu leyti samtvinnaðar og skýringa á því hversu illa hefur gengið að fást við þær má meðal annars leita í togstreitu ólíkra hagsmunaafla. Töluverðar breytingar hafa þó orðið á starfsmenntakerfinu síðastliðinn áratug sem enn er ekki útséð um. Með nýrri aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 breyttist skilgreiningarvald á skipulagi og inntaki starfsmenntunar; dregið var úr miðstýringu og framhaldsskólar sáu um að skilgreina starfsnámsbrautir. Umræður og tillögur um stjórnsýslu starfsmenntunar, tengt til dæmis Natlogue-fundum (2012) og Hvítbók um umbætur í menntun (2014), skiluðu litlum breytingum fyrst um sinn, en virðast liggja til grundvallar breytingum sem nú eru í farvatninu, til dæmis nýrri reglugerð um vinnustaðanám sem tók gildi í ágúst 2021. Markmið rannsóknarinnar er að skoða umræður um og breytingar á skipulagi og stjórnsýslu starfsmenntunar á framhaldsskólastigi síðastliðinn áratug með það fyrir augum að fá heildarmynd hvert stefnir í ljósi þeirra áskorana sem starfsmenntakerfið stendur frammi fyrir.