Rannsóknir á verk- og starfsmenntun

Háskóli Íslands

Rannsóknir á verk- og starfsmenntun

1. október kl. 15:30 til 17:00 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa um verk- og starfsmenntun

Elsa Eiríksdóttir

Námsleið skiptir máli: Langtímarannsókn á gildi náms og trú á eigin getu í bóknámi og starfsnámi

Heiður Hrund Jónsdóttir, doktorsnemi, FVS, HÍ og Kristjana Stella Blöndal, dósent, FVS, HÍ

Framhaldsskólanemar sem hafa trú á eigin námsgetu og telja nám sitt merkingarbært eru líklegri til að ljúka námi og auka þannig almenna velferð sína til framtíðar. Í erindinu verður farið yfir niðurstöður rannsóknar á þeim breytingum sem verða á trú á eigin námsgetu og skynbragði á gildi námsins meðan á framhaldsskólagöngu stendur. Þessar breytingar verða skoðaðar út frá því hvort nemendur stunduðu bóknám eða starfsnám og hvort þeir höfðu verið í bóknámsskóla eða fjölbrautaskóla. Notast er við gögn úr langtímarannsókninni Borgarbörn þar sem spurningakönnun var lögð fyrir nemendur í 10. bekk á höfuðborgarsvæðinu og svo aftur fjórum árum seinna, auk upplýsinga frá Hagstofu Íslands um námsferil þátttakenda eftir að grunnskólagöngu þeirra lauk. Tveggja þátta blandað ANOVA-próf (e. two-factor mixed ANOVA) sýndi að nemar í starfsnámi mátu námsgetu sína og merkingarbærni náms meiri við lok framhaldsskóla en þeir gerðu við lok grunnskóla en hið gagnstæða átti við um bóknema í bóknámsskólum. Niðurstöðurnar eru á skjön við kenningar um að starfsnámsnemar þrói með sér neikvæðari viðhorf en bóknemar þar sem þeir beri sig saman við nemendur á námsbrautum og skólum sem almennt njóta meiri virðingar en þeirra eigin námsleið. Þetta bendir til þess að samanburður nemenda við bekkjarfélaga og aðra nema í sínu nánasta námsumhverfi vegi þyngra en samanburður við hinn dæmigerða framhaldsskólanema. Niðurstöðurnar eru mikilvægar þegar kemur að því að efla trú starfsnámsnema á eigin getu strax í grunnskóla sem og sporna gegn því að bóknemar missi þá trú sem þeir áður höfðu á eigin getu.

Sveinspróf í iðnmenntakerfinu: Bleiki fíllinn í stofunni

Guðfinna Guðmundsdóttir, meistaranemi, MVS, HÍ og Elsa Eiríksdóttir, dósent, MVS, HÍ

Í erindinu verður fjallað um sveinspróf, bæði út frá stöðu þeirra sem samfélagsleg viðurkenning á hæfni fagmanns og sem lokamat á námi í iðngrein. Sveinsprófin eru próf atvinnulífsins og tekin eftir að námi í skóla lýkur með burtfararprófi og vinnustaðahluta námsins er lokið. Sveinspróf í iðngrein er álitið gott veganesti fyrir þann sem það hefur, þar sem það veitir lögvernduð réttindi til að starfa sjálfstætt við iðngrein og er talið mælikvarði á kunnáttu fagmanns í greininni. Markmið rannsóknarinnar var að skoða viðhorf þeirra sem starfa innan starfsmenntakerfisins til hlutverks og framkvæmdar sveinsprófa. Unnið var úr viðtalsgögnum við kennara, meistara og sveina í fjórum ólíkum iðngreinum. Niðurstöður benda til þess að innihaldsréttmæti sveinsprófa sé ábótavant og að ekki sé verið að meta það sem kennt er í náminu í heild, það er í skóla og á vinnustað. Viðmælendur höfðu ekki allir sömu sýn á hvort sveinsprófið væri í takt við kröfur fagsins og þess sem kennt væri á vinnustöðum, en flestir voru sammála um að svo væri ekki. Niðurstöður sýna að lagaumhverfi sveinsprófa er flókið og þarfnast endurskoðunar og lagfæringar. Ekki er nægilegt að setja lög og reglugerðir ef engin viðurlög eru ef ekki er farið eftir þeim. Nám til iðnsveins í tvískiptu kerfi löggiltra iðngreina er ekki heildstætt. Gæði náms á vinnustað er ekki markvisst og þarf því að lagfæra fyrirkomulagið til þess að tryggja að sveinsprófin mæli þá þekkingu, hæfni og leikni sem iðnneminn á að hafa fengið í vinnustaðahluta námsins.

 

Nám á vinnustað í löggiltum iðngreinum

Elsa Eiríksdóttir, dósent, MVS, HÍ

Nám í löggiltum iðngreinum á Íslandi fer fram í skóla og á vinnustað. Á síðastliðnum áratugum hafa yfirvöld bæði í Evrópu og Íslandi lagt áherslu á mikilvægi þess að nemar í starfsmenntun taki hluta af náminu á vinnustað. Vinnustaðanám er talið hafa marga kosti, t.d. raunhæfa þjálfun og tengsl við starfsvettvang. Eins hafa rannsóknir sýnt fram á að styrkleikar vinnustaðanáms eru aðrir en náms í skóla og þegar vel tekst til bæta þessir námsstaðir hvor annan upp. Helsta gagnrýnin á vinnustaðanám snýr að vandkvæðum við að tryggja gæði þess og að nemar fái í raun þá þjálfun sem ætlast er til. Nemendur eru ábyrgir fyrir því að útvega námsstað og lítið eftirlit virðist með vinnustaðanáminu. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á tilhögun og framkvæmd vinnustaðanáms í löggiltum iðngreinum. Sveinar, meistarar og kennarar svöruðu rafrænni spurningakönnun (N=667; svarhlutfall 24%) um ólíka þætti iðnnáms, meðal annars vinnustaðanám. Í fyrirlestrinum er ætlunin er að fjalla um niðurstöður sem snúa að tilhögun og framkvæmd vinnustaðanáms. Nánar tiltekið hvernig það er skipulagt, hvernig nemum gengur að útvega sér námsstað, hvernig námi og kennslu er hagað á vinnustað og upplifun nema af vinnustaðanáminu með tilliti til félagslegs stuðnings, hvatningar og áhuga. Fyrstu greiningar gefa til kynna að niðurstöðurnar muni varpa ljósi á ólík viðhorf hópanna þriggja og sýna hvernig tilhögun og menning í vinnustaðanámi er ólík eftir flokkum iðngreina. Niðurstöðurnar verða ræddar í samhengi við fyrri rannsóknir og umræðu um hvernig tryggja má gæði vinnustaðanáms.

Kynbundið nám í framhaldsfræðslunni. Starfsmenntun fyrr og nú

Arna Jakobína Björnsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, formaður Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu

Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynjaskiptur, konur eru áberandi í umönnunarstörfum en karlar í iðngreinum og ýmsum framkvæmdatengdum störfum. Ungt fólk velur síður starfs- og iðnnám en bóknám og stúlkur enn síður en piltar. Síðastliðinn áratug hefur námsframboð fyrir fullorðna aukist á vegum framhaldsfræðslunnar. Það vekur spurningar um hvort framhaldsfræðslan sé einnig kynjuð með einhverjum hætti. Markmið með rannsókninni er að skoða kynjaskiptingu nemendahóps framhaldsfræðslukerfisins, hvaða námsleiðir konur og karlar velja, hvaða leiðir standa þeim til boða og hvort þar komi fram kynjun sem endurspegli vinnumarkaðinn. Unnið var með upplýsingar úr gagnagrunni Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA). Af þeim 31.487 einstaklingum sem sóttu námsleiðir samkvæmt námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins á árabilinu 2005–2017 voru konur 69% og karlar 31%. Konur voru í miklum meirihluta í námi sem snýr að umönnun sem er í takt við kynjaskiptingu á vinnumarkaði. Alls fór 4.431 einstaklingur í raunfærnimat á árabilinu 2007–2017 og var þar einnig mikið ójafnvægi í kynjaskiptingunni en hallaði á konur. Karlar voru 69% þeirra sem nýttu sér raunfærnimat en konur 31%. Raunfærnimat er aðallega í boði þegar um er að ræða löggiltar iðngreinar og endurspeglar því bæði hefðbundið og gjarnan karllægt iðnnám í framhaldsskólum hins kynjaskipta vinnumarkaðar. Í ljósi þessara niðurstaðna væri verðugt viðfangsefni framhaldsfræðslunnar að leita nýrra leiða til að breyta því kynjakerfi í menntun sem virðist hafa viðhaldið sjálfu sér. Þannig yrði spornað við neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla og stuðlað að þróun í takt við það sem jafnréttislög kveða á um.