LeikA – Leikskólinn og tímarnir tvennir

Kl. 8:30-10:00

LeikA – leikskólakennarar tengdir Háskólanum á Akureyri

Kristín Dýrfjörð

 

Orðræða leikskólafólks um viðhorf til leikskólans á tímum COVID-19

Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor, HA

Frá mars 2020 til júní 2021 tókst samfélagið á við COVID-19 og yfirvöld þurftu að taka ákvarðanir, gjarnan með litlum fyrirvara, sem höfðu umtalsverð áhrif á skólastarf. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða orðræðu leikskólafólks í kjölfar slíkra ákvarðana með það að markmiði að greina umræðu um viðhorf til leikskólans og til hlutverksins sem hann gegnir í samfélaginu. Gagnaöflun fór fram á tímabilinu mars 2020 til apríl 2021 og beindist að umræðu leikskólafólks á tveimur fjölmennum síðum sem tengjast leikskólanum. Þrír hápunktar voru í umræðunni, sá fyrsti eftir að samkomubann var sett á í mars 2020, annar þegar þriðja bylgja brast á í október sama ár og sá síðasti þegar nýjar samkomutakmarkanir tóku gildi í mars 2021. Rýnt var í orðræðuna með áherslu á þau viðhorf, hugmyndir og tilfinningar sem voru ráðandi í orðanotkun, hugtökum, lýsingum og myndlíkingum.

Niðurstöður sýna ákveðna jákvæðni fyrst sem minnkar eftir því sem á líður og undir lokin eru dýpri neikvæðar tilfinningar ríkjandi. Þrástef í umræðunni voru meðal annars menntahlutverk leikskóla, virðing fyrir starfinu sem þar fer fram og skilningur á starfsemi leikskóla. Af umræðunni má draga þá ályktanir að leikskólafólk telur tilhneigingu til að horfa fram hjá menntahlutverki leikskóla þegar á reynir, því finnst starfinu ekki alltaf sýnd nægileg virðing og fólk utan skólanna hafa lítinn skilning á því sem þar fer fram.

 

Upplifun leikskólabarna af COVID-19 faraldrinum, daglegt líf og skólastarf

Ingi Jóhann Friðjónsson, leikskólakennari, leikskólanum Lundarseli, Akureyri

Verkefnið Upplifun leikskólabarna af COVID-19 faraldrinum, daglegt líf og skólastarf var unnið sumarið 2020 fyrir félagasamtökin Delta Kappa Gamma, nánar tiltekið Beta- og Mýrardeild vegna Alþjóðadags kennara. Tekin voru viðtöl við 20 leikskólabörn á aldrinum 5–6 ára um upplifun þeirra af fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins og með það að markmiði að sjá hvaða áhrif takmarkanir höfðu á daglegt líf þeirra og líðan. Verkefnið var ekki unnið í vísindalegum tilgangi en notaðar voru eigindlegar aðferðir við skipulag og framkvæmd viðtalanna. Notast var við hálfstaðlaða spurningalista þar sem opinna spurninga var spurt til að komast nær reynsluheimi barnanna. Gögnin voru ekki greind heldur var markmiðið að leyfa röddum barnanna að heyrast. Einnig voru gerð tvö myndbönd sem eru aðgengileg á heimasíðu Lundarsels. Þrátt fyrir að gögnin hafi ekki verið greind voru dregnar ályktanir út frá svörum barnanna en taka má fram að frekari greiningar er þörf. Dregin var sú ályktun að þau börn sem mættu meira í leikskólann í apríl og maí, þegar aðgerðir stjórnvalda voru sem harðastar, höfðu minni áhyggjur af ástandinu en þau börn sem voru aðallega heima. Sum börnin fundu fyrir leiða vegna þess að þau gátu ekki hitt vini sína í leikskólanum og höfðu jafnframt áhyggjur af heilsu fjölskyldunnar, meðan öðrum leið vel. Einnig mátti greina að þau börn sem mættu í leikskólann nutu sín í minni hópum og í ró.

 

Stéttaskipting innan leikskóla og grunnskóla – mat leikskólakennara sem starfa í grunnskólum

Kristín Dýrfjörð, dósent, HA

Stundum er sagt að innan leikskólans ríki flatt stjórnkerfi. Þar sé gert lítið úr faglegum mun á leikskólakennurum og öðru starfsfólki. Allir gangi í öll störf og séu jafnir. Leikskólakennarar sópi fataherbergi til jafns við unglinga. Ekki skipti máli hver sér um samverustund, fagfólk eða ófaglærðir. Margir leikskólakennarar telja sínum tíma ekki vel varið á þennan hátt á meðan aðrir verja vinnulagið. Sumir hafa áhyggjur af að fagmennska líði fyrir þetta og að verklagið leiði til (af)fagmennsku leikskólans. Undanfarin ár hefur verið ákveðið streymi leikskólakennara til grunnskólans, sem er slæm þróun í ljósi skorts á leikskólakennurum. Erindið fjallar um viðhorf leikskólakennara sem kenna við grunnskóla til stéttaskiptingar og hvernig þeir upplifa virðingu fyrir starfinu, annars vegar innan leikskóla þar sem þeir störfuðu og grunnskóla sem þeir starfa nú í. Fjallað er um hluta af niðurstöðu viðtalsrannsóknar á meðal leikskólakennara alls staðar á landinu sem hafa flutt sig í grunnskóla. Flestir viðmælendur áttu langan starfsaldur í leikskólum. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvað skilur að kennslu á leik- og grunnskólastigi að mati viðkomandi. Niðurstöður benda til að leikskólakennarar upplifi að samfélagslega sé borin meiri virðing fyrir kennslu þeirra í grunnskólum – að við skiptin hafi þeir færst upp metorðastiga. Þeir upplifa líka flestir að verkaskipting innan grunnskólans sé skýrari en innan leikskólans en líka að stéttaskipting sé meiri innan grunnskólans sem birtist m.a. í verkefnum, verkaskiptingu og ábyrgð á störfum. Í ljósi gagna má spyrja hvort leikskólakennarar þurfi að breyta starfsháttum og vinna að aukinni samfélagsvirðingu fyrir starfinu, og hvort flatt stjórnkerfi sé fagstarfi til trafala.