RannKyn: Börn, ungmenni og kyngervi í nútímasamfélagi

Kl. 13:40-15:10

RannKyn

Annadís G. Rúdólfsdóttir

Ungar konur á Íslandi: Skömm, kvíði og grimmileg bjartsýni

Annadís G. Rúdólfsdóttir, dósent, MVS HÍ og Ásta Jóhannsdóttir, lektor, MVS HÍ

Í þessu erindi leiðum við saman fyrri rannsóknir okkar til þess að draga fram reynslu kvenna og upplifun á fyrirbærinu kvenleika. Rannsóknirnar byggja á hálfstöðluðum viðtölum, samvinnurannsókn, orðræðugreiningu á stafrænum fjölmiðlum í kjölfar #freethenipple á Íslandi, tilviksrannsókn og gögnum sem safnað var með sögulokaaðferð. Þessum gögnum var safnað á árunum 2012–2018. Við greinum gögnin út frá orðræðum sem virkja og kalla fram ákveðin hrif frekar en önnur. Skilaboðin í neyslumenningu samtímans eru að konur standi jafnfætis körlum og það sé undir þeim sjálfum komið hvort þær nái að hámarka hæfileika sína. Til þess að ná árangri þarf kroppurinn þó að vera „í lagi“ og þar eru ekki allir líkamar jafnir. Alið er á skömm og ógeði gagnvart t.d. feitum eða hárugum kvenlíkömum og ungar konur gera þær hugmyndir að sínum. Gögnin sýna hvernig ungar konur leitast við að aga líkama sína á þann hátt að þeir veki ekki ógeð hjá öðrum og þær upplifi þar með skömm og kvíða. Margar vísanir voru í hina „týpísku óöruggu stelpu“. Gögnin sýna þó einnig hvernig ungar konur leita í smiðju femínismans til að storka þessum hugmyndum. Þannig gagnrýna þær „grimmilega bjartsýni“ neyslusamfélagsins þar sem konur eru í stöðugri vinnu við að reyna að verða besta útgáfan af sjálfum sér og upplifa um leið kvíða og óöryggi því þær ná aldrei fyllilega því takmarki. Þannig benda þær á hvernig óraunhæfar kvenleikahugmyndir standa í vegi fyrir vellíðan og velferð ungra kvenna.

 

Kvíði, stress, reiði, undrun, sorg, hræðsla og hamingja: Kynjaði tilfinningaskalinn á samfélagsmiðlum

Þórður Kristinsson, doktorsnemi, MVS HÍ og Annadís G. Rúdólfsdóttir, dósent, MVS HÍ

Þessi rannsókn er hluti af stærra rannsóknarverkefni sem snýr að börnum á tímum kynlífsvæðingar og stafrænnar tækni. Rannsóknin gengur út frá þeim forsendum að börn séu virk í að skilgreina og skapa kyngervi sitt. Leitast er við að draga fram þau málefni sem þau sjálf telja brýn, snerta kynjuð samskipti og kynjaðan reynsluheim þeirra. Í þessum hluta var leitast við að skoða hugmyndir unglinga um hinn stafræna heim og þá möguleika og hættur sem hann býður upp á. Sögulokaaðferð (e. story-completion method) var notuð til að afla gagna meðal nemenda í 10. bekk, þ.e. unglingarnir fengu upphaf að sögu sem tengist rannsóknarefni sem þau voru beðin um að ljúka. Ýmist var söguhetjan stelpa eða strákur. Gögnin voru þemagreind og skoðað hvaða orðræðum um kynhlutverk og tilfinningar þemun tengdust. Þemun sýna kynjaðar birtingarmyndir átaka á milli þess að vilja breyta rétt og fylgja straumnum og svo hvernig samfélagsmiðlar geta verið uppspretta frægðar og frama en einnig tól til útskúfunar. Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Þórðar.

 

Tjáning fimm ára barna um kyn og kyngervi

Þórdís Þórðardóttir, dósent, MVS HÍ og Kristín Karlsdóttir, dósent, MVS HÍ

Fjallað verður um rannsóknaraðferð sem styðst við skapandi söguaðferð (e. creative storytelling) og er hluti af rannsóknarverkefninu Börn á tímum stafrænnar tækni og kynlífsvæðingar. Markmið þessa hluta rannsóknarinnar er að varpa ljósi á huglægan skilning barna um kyn og kyngervi með því að ígrunda og greina hugmyndir barna um kyngervi sem birtist í samræðu, skapandi tjáningu og sögusköpun leikskólabarna. Tilgangurinn er að nota upplýsingar rannsóknarinnar sem grundvöll fyrir tillögur að leiðum til að vinna með jafnrétti kynja í menntun, þar sem sjónarmið barna eru höfð að leiðarljósi. Rannsóknin gengur út frá þeim forsendum að börn séu virk í að skilgreina og skapa kyngervi sitt. Rannsóknaraðferðin sækir innblástur til aðferða og hugmynda sem eru tiltölulega nýjar og tengjast rannsóknum með börnum, ungmennum og öðrum hópum sem eru í viðkvæmri valdastöðu. Áhersla er lögð á að hlusta á raddir barna, þar sem hætt er við að veik valdastaða þeirra verði til þess að lítið sé á þau hlustað. Í niðurstöðum kemur fram að samræður barnanna voru um margt líkar í þremur þátttökuleikskólum og báru sterk einkenni gagnkynhneigðra sjónarmiða. Lesa má úr tjáningu barnanna hvaða augum þau líta á kyn og kyngervi, svo sem út frá mismunandi þáttum í vináttu stelpna og stráka og hvernig ást getur verið ólík eftir því hverjir tjá hana. Rannsóknaraðferðin byggir á áhrifum frá sögulokaaðferðinni en styður auk þess við skapandi tjáningu barna. Nálgunin veitir gagnlega innsýn í upplifun og skilning barna á kyni og kyngervi sem nýtist til að móta jafnréttismenntun sem byggir á sjónarmiðum barna.

 

Hvernig segja 5 ára börn frá þekkingu sinni á kyngervi og kynverund?

Kolbrún Lára Kjartansdóttir, meistaranemi, MVS HÍ

Þessi rannsókn er hluti af stærri rannsókn sem ber heitið „Börn á tímum kynlífsvæðingar og stafrænna miðla: Rannsóknir og aðgerðir“. Rannsóknin beinist að því að varpa ljósi á hvernig börn í leik-, grunn- og framhaldsskólum skynja og túlka þá kynjuðu menningu sem birtist þeim í stafrænum miðlum og öðru afþreyingarefni fyrir börn ásamt að skoða þau tækifæri og takmarkanir sem börnum er sett við að birta og móta kyngervi sitt. Í þeim hluta rannsóknarinnar sem beinist að yngri börnum voru heimsóttir þrír leikskólar, tveir á höfuðborgarsvæðinu og einn á landsbyggðinni. Rætt var við 12 fimm ára börn í fjögur skipti og þau m.a. beðin um að útbúa klippimynd og búa til sögu um klippimyndirnar í anda sögulokaaðferðarinnar til þess að komast að þeirra hugmyndum um hvernig þau túlka þá kynjuðu menningu sem birtist þeim í gegnum ýmsa miðla. Rannsóknin er eigindleg og sá hluti hennar sem hér er kynntur byggir á gögnum sem safnað var í einum leikskóla. Helstu niðurstöður benda til þess að leikskólabörn tileinki sér viðhorf um kyn og kyngervi í gegnum stafræna miðla og frá fullorðnum. Þekking barnanna einkenndist m.a. af eðlis- og gagnkynhneigðarhyggju sem kom fram þegar börnin ræddu um leikefni fyrir stúlkur og drengi, klæðnað, liti og samskipti kynjanna. Niðurstöður rannsóknarinnar má nýta til að skilja hugmyndir leikskólabarna um kyn og kyngervi við mótun menntunar um kynjajafnrétti í leikskólum.