Menntun og aðgengi fyrir alla 

Kl. 13:40-15:10

Edda Óskarsdóttir

Úthlutun og ráðstöfun fjármuna í grunnskóla fyrir alla

Edda Óskarsdóttir, lektor, MVS HÍ og Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ  

Menntun fyrir alla og skóli margbreytileikans eru forgangsatriði hjá mörgum alþjóðlegum stefnumótendum og evrópskum stofnunum. Vísbendingar eru um að fjármögnun grunnskóla hér á landi styðji við aðgreinandi starfshætti sem komi í veg fyrir skólaþróun er stuðlar að menntun fyrir alla. Einnig er talið að of mikil áhersla hafi verið lögð á greiningar sem forsendu stuðnings við börn með sérþarfir. Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga settu af stað samstarfsverkefni með þátttöku 13 sveitarfélaga til að móta leiðbeinandi viðmið um ráðstöfun fjármuna með áherslu á menntun fyrir alla. Tilgangur verkefnisins var að koma auga á, greina og stuðla að skilvirkri ráðstöfun fjármuna í grunnskólum sem styður við menntun fyrir alla og byggir á kenningum um opinbera stjórnsýslu. Lykilspurningin sem leiddi verkefnið var: Hvaða breytinga er þörf við úthlutun og ráðstöfun fjármagns til skóla til að styðja við starfshætti sem stuðla að menntun fyrir alla? Í erindinu verður sagt frá kortlagningu núverandi fjármögnunar. Niðurstöður benda til þess að ráðstöfun fjármagns til skóla sé sambærileg milli sveitarfélaga og að vilji sé til að auka sjálfræði skólastjórnenda í ráðstöfun fjármuna með það fyrir augum að styðja betur við skólana sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangsefni sem upp koma í skólastarfi. Afrakstur verkefnisins eru tólf leiðbeinandi viðmið sem skólaskrifstofur sveitarfélaga og stjórnendur grunnskóla geta nýtt til að skoða, ræða og ígrunda hvort ráðstöfun fjármuna taki mið af margbreytilegum nemendahópi. Niðurstöður verkefnisins geta einnig nýst stefnumótendum og rannsakendum til að stuðla enn frekar að menntun fyrir alla og skóla margbreytileikans. 

 

Staða lesblindra grunnskólabarna í nútíma skólasamfélagi 

Fjóla Björk Karlsdóttir, aðjúnkt, HA 

Erindið fjallar um stöðu lesblindra barna í grunnskólum á Íslandi. Rannsóknin er byggð á tillögum um úrbætur í skýrslu nefndar um lestrarörðugleika og leshömlun sem gerð var á vegum Menntamálaráðuneytisins árið 2007. Tillögur skýrslunnar voru flokkaðar í fjóra efnisflokka: Skimun og greining, fræðsla og samstarf við foreldra, stuðningur við lesblind börn í námi og stuðningur við kennara er varðar kennslu lesblindra barna. Rannsókn var gerð til að meta hvaða breytingar hafa verið gerðar frá útgáfu skýrslunnar og hvernig fjölbreyttir aðilar innan skólasamfélags lesblindra barna upplifa stöðu þeirra í skólasamfélaginu. Rannsóknarspurning var: Hafa tillögur nefndar í skýrslu Menntamálaráðuneytisins frá árinu 2007 skilað væntum ávinningi í þessum fjórum þáttum sem nefndin lagði áherslu á að yrðu efldir að mati aðila í skólaumhverfi lesblindra barna? Til að svara rannsóknarspurningunni voru djúpviðtöl tekin við fimm mismunandi aðila sem tengjast skólaumhverfi lesblindra barna í grunnskóla; kennara, skólastjóra og fræðslustjóra sveitarfélags, sem og við foreldri og lesblindan nemanda. Úrtakið var tilgangsúrtak og tekin voru djúpviðtöl við þátttakendur en sérstaklega var leitast við að greina upplifun þátttakenda af áðurnefndum fjórum áhersluþáttum. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingu um að skimun og greining á lesblindu sé háð mati kennara barns hverju sinni en á sama tíma skortir kennara almennt haldbæra fræðslu um lesblindu og stuðning til að koma til móts við þarfir lesblindra barna. Jafnframt kom fram að náið samstarf milli skóla og foreldra lesblindra nemenda skili nemandanum bestum árangri en þar skortir jafnframt aðgang foreldra að fræðslu og þekkingu á lesblindu til að geta aðstoðað barnið við námið. 

 

Gildi faglegs stuðnings skólaþjónustu sveitarfélaga fyrir umsjónarkennara 

Hrafnhildur Þorsteinsdóttir, grunnskólakennari á Hólmavík og Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor, HA 

Í þessu erindi er markmiðið að varpa ljósi á aðkomu skólaþjónustu sveitarfélaga að faglegum stuðningi við umsjónarkennara grunnskóla og gildi hans fyrir starf í skóla án aðgreiningar og líðan í starfi. Rannsóknin var tilviksrannsókn og tilvikin skólaþjónusta fjögurra ólíkra sveitarfélaga á Norður- og Vesturlandi. Megin gagnaöflunin fór fram með viðtölum en einnig var stuðst við heimasíður sveitarfélaganna og skólanna. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við tólf umsjónarkennara í sex grunnskólum. Helstu niðurstöður gefa til kynna að flestir viðmælendur höfðu litlar væntingar til skólaþjónustu sveitarfélagsins og þótt ákveðin sameiginleg einkenni væru á henni, svo sem áhersla á greiningar barna, var hún í mörgu mismunandi milli sveitarfélaga. Þessi mismunur stafaði að einhverju leyti af aðstæðum og áherslum hvers sveitarfélags. Kennararnir telja stuðning skólaþjónustunnar við starf skólanna mikilvægan og eru þakklátir þeim stuðningi sem þeir fá en vilja að hann sé aukinn. Þeir upplifðu visst úrræðaleysi af hálfu skólaþjónustunnar sökum skorts á fjármagni og starfsfólki miðað við vandann í nýjum þjóðfélagsaðstæðum. Áhrif á líðan þeirra kom helst fram í auknu álagi og óánægju með hversu takmarkaður og oft á tíðum seinfenginn stuðningurinn var. Umsjónarkennararnir kalla eftir fleiri sérfræðingum inn í skólana og að þeir setji sig betur inn í þann veruleika sem kennarar og skólar starfa við. Flest bendir til þess að skólaþjónusta sveitarfélaga uppfylli ekki þarfir umsjónarkennara fyrir stuðning í starfi í skóla án aðgreiningar, óháð stærð sveitarfélagsins eða skóla, og að úrbóta sé þörf.