Menntun fyrir alla 

Kl. 10:10-11:40

Anna Björk Sverrisdóttir

„Við eiginlega þorum ekki að segja öllum að við séum á sérnámsbraut af því að sumir eru hræddir um að það verði gert grín að þeim“: Valdatengsl og viðnám nemenda á sérnámsbrautum í framhaldsskólum

Anna Björk Sverrisdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ  

Stefnan um skóla án aðgreiningar (e. inclusive education) var lögfest hér á landi árið 2008. Hún er því ekki beinlínis ný af nálinni en þrátt fyrir það ríkir enn óvissa um hvað stefnan feli í raun og veru í sér og hvernig eigi að útfæra hana. Þessi óvissa birtist ekki hvað síst í þeirri mótsögn að fækka aðgreindum úrræðum fyrir fatlaða nemendur á grunnskólastigi en vísa þeim svo á sérnámsbrautir (aðgreind úrræði) á framhaldsskólastigi. Fyrir marga getur þetta talist einföld og rökrétt uppbygging innan kerfisins þar sem markmiðið er að koma betur til móts við þá nemendur sem þurfa mikinn stuðning. Fyrir þá nemendur sem eru sigtaðir frá með þessum hætti er þetta hins vegar hvorki einfalt né rökrétt og nemendur lenda í hringiðu ólíkra valdatengsla sem þrífast innan skólakerfisins, tengsla sem geta haft mikil áhrif á sýn annarra á nemandann sem og á mótun sjálfsmyndar nemendanna sjálfra. Í fyrirlestrinum verður fjallað um stöðu nemenda á sérnámsbrautum í framhaldsskóla, valdatengsl, áhrif sérkennslu og viðnámi gagnvart henni. Viðtöl við nemendur voru lesin með hliðsjón af kenningum Foucault um vald og valdatengsl og kenningum Deleuze og Guattari um viðnám. Niðurstöður sýna að valdatengsl hafa mismunandi áhrif á nemendur og að viðnám gagnvart áhrifum sérkennslu er oft á tíðum frekar falið. Þá má draga þá ályktun að núverandi uppbygging kerfisins standi að einhverju leyti í vegi fyrir því að fatlaðir nemendur fái tækifæri til að þroska hæfileika sína til fulls. 

 

„Glíman við kerfið“: Reynsla fagfólks og foreldra af þjónustu við börn með röskun á einhverfurófi og aðrar skyldar þarfir 

Jónína Sæmundsdóttir, lektor, MVS HÍ  

Á síðustu árum hefur börnum sem greind eru með röskun á einhverfurófi farið fjölgandi. Lögum samkvæmt ber sveitarfélögum ásamt sérhæfðari stofnunum að veita skólum og foreldrum barnanna stuðning og ráðgjöf til viðbótar við greiningar. Samvinna milli þessara aðila er því mikilvæg. Hér verða kynntar niðurstöður tveggja nátengdra eigindlegra rannsókna sem annars vegar kanna reynslu foreldra barnanna og hins vegar reynslu sérfræðimenntaðs fagfólks. Tekin voru sex viðtöl við foreldra barna og sjö við sérfræðimenntað fagfólk. Viðtölin voru greind með þemagreiningu og stuðst var við kenningu Bronfenbrenner við greininguna. Meðal helstu niðurstaðna var að aðgangur að sérfræðiþjónustu er torveldaður vegna langra biðlista auk talsverðrar starfsmannaveltu hjá sumum stofnananna. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að foreldrar hafa í vaxandi mæli leitað til einkageirans varðandi greiningar og ráðgjöf vegna barna sinna. 

 

Virkt samráð við stefnumótun á grundvelli breiðs hóps fatlaðs fólks 

Laufey Elísabet Löve, lektor, MVS HÍ  

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (2007) staðfestir og áréttar mannréttindi óháð tegund skerðingar. Ein af grundvallaráherslum samningsins er réttur fatlaðs fólks til fullrar og virkrar þátttöku til ákvarðana sem varða eigin hagsmuni. Skylda stjórnvalda til þessa er ítrekuð og skýrð í leiðbeiningum nefndar samningsins þar sem fram kemur að til að sú þátttaka sem kallað er eftir geti talist virk og árangursrík þurfi samráð að endurspegla breiðan flokk skerðinga. Mikilvægi þessarar áherslu verður sérstaklega ljóst þegar haft er í huga að oft gætir innbyrðis ójafnræðis innan réttindahreyfingar fatlaðs fólks sem verður til þess að ákveðnir hópar fatlaðs fólks, ekki síst fólk með þroskahömlun og einhverfu, eiga erfiðara uppdráttar og réttindi og þarfir þess falla frekar í skuggann. Sú rannsókn sem gerð verður grein fyrir skoðar þær leiðir sem hagsmunasamtök fatlaðs fólks á Íslandi hafa notað til að móta athugasemdir og tillögur sem endurspegla sjónarmið breiðs hóps félagsmanna sem innlegg í gerð laga og stefnumótunar í málefnum sem varða fatlað fólk. Rannsóknin er framlag til gagnrýninnar umræðu um aðferðir til að stuðla að virkri þátttöku breiðs hóps fatlaðs fólks við stefnumótun á öllum stjórnsýslustigum. Hún er jafnframt innlegg í umræðu um hvort sambærileg nálgun geti nýst til að stuðla að virku samráði við aðra jaðarhópa og til alþjóðlegrar umræðu um leiðir og nýjar nálganir til að auka virkt lýðræði þar sem hvatt er til virkrar þátttöku fjölbreyttra hópa fólks. Rannsóknin byggir á eigindlegum gögnum í formi viðtala, rýnihópa og rýni í rituð gögn.