Menntun fyrir alla

Háskóli Íslands

Menntun fyrir alla

1. október kl. 9:00 til 10:30 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Að skapa samtalsrými um fjölmenningarlega kennaramenntun. Starfstengd sjálfsrýni tveggja kennaramenntenda

Gunnhildur Óskarsdóttir, dósent, MVS, HÍ og Karen Rut Gísladóttir, dósent, MVS, HÍ

Aukinn fjöldi nemenda af erlendum uppruna í íslenskum skólum kallar á fjölmenningarlega nálgun í kennslu og kennaramenntun. Kennaramenntendur standa frammi fyrir því verkefni að undirbúa kennaranema til að kenna fjölmenningarlegum nemendahópum. Fjölmenningarleg áhersla kallar ekki aðeins á breytingar á hlutverki kennaramenntenda heldur krefst samverkandi umbreytingar á sjálfsvitund einstaklinga, kennsluháttum og samfélagi. Í slíkri umbreytingarvinnu gegnir samtalið lykilhlutverki. Tilgangur rannsóknarinnar var að skapa samtalsrými (e. dialogic space) til að þróa sameiginlega sýn á fjölmenningarlega kennaramenntun. Markmið var að rýna í einstök atvik til að skoða hvernig við gætum þróað hlutverk okkar og kennsluhætti sem kennaramenntendur út frá fjölmenningarlegum áherslum. Rannsóknin fór fram frá hausti 2017 til hausts 2019 og kjarnast um starfstengda sjálfsrýni (e. self-study) sem sett var utan um samvinnu 14 kennaramenntenda sem vildu skoða hvað þyrfti að gera til að undirbúa kennaranema til að vinna með fjölmenningarlegum nemendahópum. Gögnin sem safnað var voru sjálfsviðtöl, rýnihópaviðtöl og upptökur af fundum. Gagnagreining fólst í listrænni framsetningu gagnanna, í formi skúlptúra og ljóða, sem hjálpuðu kennaramenntendum að finna kjarna og sameiginlegar áherslur í vinnu þeirra. Niðurstöður varpa ljósi á margvíslega þætti sem hafa áhrif á samvinnu kennaramenntenda og að þeir gefi sér þann tíma sem þarf til að skapa samtalsrými sem tekur mið af margvíslegri reynslu og þekkingu hópsins. Í þessu erindi segjum við frá samvinnu höfunda og hvað þeir voru að takast á við í ferlinu við að skapa samtalsrými til að þróa sameiginlega sýn á fjölmenningarlega kennaramenntun.

Háskólakennarar rýna í menntun fyrir alla

Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor, MVS, HÍ, Samúel Lefever, dósent, MVS, HÍ og Gunnhildur Óskarsdóttir, dósent, MVS, HÍ og Jónína Vala Kristinsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna hvernig kennaranemar á Menntavísindasviði eru búnir undir að kenna fjölbreyttum nemendahópum. Rannsóknarspurning hljóðar svo: Hvernig er nám kennaranema skipulagt í þeim tilgangi að undirbúa þá til kennslu í skóla fyrir alla? Markmið verkefnisins er að bera kennsl á leiðir til að þróa og innleiða fjölbreytt, skapandi vinnubrögð í kennaramenntun þar sem áhersla er lögð á fjöltyngi og nemendamiðaða nálgun sem byggir á auðlindum nemenda. Þó að hugmyndir um skóla fyrir alla liggi til grundvallar námskrám í mörgum löndum er túlkun stefnunnar ólík milli landa og jafnvel sérfræðinga innan sömu kennaramenntunarstofnana og því brýnt að greina sýn kennara við MVS. Rannsóknin byggir á rýnihópaviðtölum við kennslu- og menntunarfræðikennara. Rætt var um áherslur, kennsluaðferðir og fræðilegan bakgrunn kennslufræðinámskeiða við sviðið. Niðurstöður voru greindar með þemagreiningu og var horft til þess hvernig menntun án aðgreiningar birtist í námskeiðunum. Hugmyndir kennara um skóla fyrir alla og þekking á kennsluháttum sem styður við nám allra nemenda voru ólíkar. Sumir höfðu lítinn gaum gefið að því hvernig kennaranemar geta lært að kenna fjölbreyttum nemendahópi en margir höfðu leitað leiða til þess. Víða er beitt skapandi vinnubrögðum og upplýsingatækni notuð í þeim tilgangi að kennaranemar geti notað ólíka nálgun í eigin námi og öðlist einnig hæfni til að nýta fjölbreytt vinnubrögð í eigin kennslu. Með rýnihópaviðtölum og samræðu kennara um kennslu sína gefst þeim tækifæri til að endurskoða kennsluhætti sína og styðja hver annan í þróun kennsluhátta í kennaranámi.

Menntun fyrir alla: Framtíðarsýn og tillögur um aðgerðir

Edda Óskarsdóttir, lektor, MVS, HÍ, Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor, HA og Rúnar Sigþórsson, prófessor, HA

Í erindinu verða til umfjöllunar niðurstöður skýrslunnar Menntun fyrir alla – horft fram á veginn sem kom út í júní 2019 á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Skýrslan er byggð á niðurstöðum funda um allt land sem haldnir voru á vegum stýrihóps um menntun fyrir alla haustið 2018. Í skýrslunni eru tillögur um aðgerðir til að festa í sessi stefnu yfirvalda um menntun fyrir alla á Íslandi og efla menntun fyrir alla í íslenskum skólum. Tillögurnar eru í sjö liðum, sem hver um sig inniheldur nokkra undirliði. Þær eru byggðar á forgangsröðun aðgerða sem þátttakendur á landshlutafundunum töldu mikilvægastar til að efla menntun fyrir alla og má því segja að þær séu ákall skólasamfélagins um hvernig að því skuli staðið. Tillögurnar eru enn fremur byggðar á niðurstöðum skýrslu um úttekt Evrópumiðstöðvarinnar um sérþarfir og menntun án aðgreiningar frá 2017 og settar í samhengi við líkan af vistkerfi menntunar, sem kynnt er í skýrslunni, með það fyrir augum að greina á hvaða stjórnsýslustigum menntakerfisins ábyrgð á framkvæmd hvers þáttar liggur.

Starfsþróunarnámskeið um menntun fyrir alla: Að ná til fjölbreytts hóps þátttakenda í fjarnámi

Anna Katarzyna Wozniczka, doktorsnemi, MVS, HÍ og Edda Óskarsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Starfsþróun kennara og starfsfólks grunn- og leikskóla í dreifðum byggðum Íslands getur verið áskorun fyrir sveitarfélög og einstaklinga vegna kostnaðar og aðgengis. Á sama tíma er skortur á menntuðum kennurum á ýmsum svæðum og kallar það á sameinað átak kennaramenntunarstofnana og sveitarfélaga til að tryggja aðgengi allra nemenda að gæðanámi í heimaskóla. Í þessu erindi segjum við frá tilurð og framkvæmd 10 eininga starfsþróunarnámskeiðs sem kennt var í samstarfi við Sveitarfélagið Hornafjörð og starfendarannsókn sem við kennarar unnum á námskeiðinu. Markmiðið með rannsókninni var að kanna hvernig hægt er að skipuleggja starfsþróunarnámskeið um menntun fyrir alla í gegnum fjarnám fyrir fjölbreyttan hóp þátttakenda. Rannsóknarspurningin var: Hvernig er hægt að sníða fjarkennslunámskeið sem viðheldur áhuga og virkni þátttakenda og hvetur þá til breytinga á eigin starfi? Rannsóknin byggir á gögnum sem aflað var í gegnum námskeiðið, þ.m.t. verkefni nemenda, mat á námskeiðinu, rýnihópaviðtöl, fundargerðir og dagbókarfærslur okkar. Gögnin voru greind með aðferðafræði grundaðrar kenningar, sem hentar rannsóknarsniði starfendarannsóknar þar sem það byggir á ferli spíralsins. Helstu niðurstöður gefa innsýn í þær ýmsu tæknilegu, kennslufræðilegu og persónubundnu áskoranir sem þátttakendur og við stóðum frammi fyrir og hvernig námskeiðið þróaðist þegar við tókumst á við þær. Niðurstöður sýna enn fremur hver áhrif félagaþrýstings og stuðnings frá stjórnendum voru á myndun lærdómssamfélaga á fjarkennslunámskeiði fyrir heilan skóla. Einn stærsti lærdómurinn sem draga má af rannsókninni er að námskeið af þessu tagi er kjörin leið til að stuðla að sjálfbærri þróun byggðar og gæðamenntun fyrir börn og ungmenni um land allt.