Innleiðing menntastefnu Reykjavíkurborgar – Mælingar, stuðningur, aðgerðir og eftirfylgni

Kl. 10:10-11:40

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar

Fríða Bjarney Jónsdóttir

 

Árangur fyrstu þriggja ára við innleiðingu á menntastefnu Reykjavíkurborgar

Fríða Bjarney Jónsdóttir, deildarstýra Nýsköpunarmiðju menntamála, Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur; Hjörtur Ágústsson, verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðju menntamála, Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur og Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, sérfræðingur, Skrifstofu sviðsstjóra Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur

Vinna við innleiðingu á menntastefnu Reykjavíkurborgar hófst í upphafi árs 2019 og lýkur því fyrstu þremur árum í innleiðingu menntastefnunnar í lok árs 2021. Samhliða samþykkt menntastefnunnar var samþykkt aðgerðaáætlun til þriggja ára þar sem tilgreind voru 10 aðgerðir sem ætti að ráðast í til að stuðla að innleiðingu markmiða menntastefnunnar. Mótun aðgerðaáætlunar fyrir árin 2022–2024 hófst í upphafi ársins 2021 þegar kallaður var saman framtíðarhópur menntastefnu Reykjavíkur. Framtíðarhópurinn samanstendur af starfsfólki í skóla- og frístundastarfi borgarinnar og fjölbreyttum hópi sérfræðinga og hagsmunaaðila. Framtíðarhópurinn hefur það að markmiði að rýna í framgang innleiðingar menntastefnu Reykjavíkurborgar, meta sóknarfæri, álitamál og mögulegar umbætur í skóla- og frístundastarfi borgarinnar til næstu framtíðar og veita álit á tillögum um næstu skref í innleiðingu menntastefnu Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022–2024. Í erindinu verður stuttlega gerð grein fyrir innleiðingu menntastefnunnar, fjallað um vinnu framtíðarhópsins og sagt frá næstu skrefum.

 

Hvernig mælum við sjálfseflingu? – Þróun mælikvarða og gátlista menntastefnu Reykjavíkur

Guðrún Mjöll Sigurðardóttir og Sigrún Harpa Magnúsdóttir, sérfræðingar hjá skrifstofu sviðsstjóra Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar

Strax í upphafi innleiðingar menntastefnu Reykjavíkurborgar var ákveðið að mæla áhrif hennar á grundvallarþætti menntastefnunnar; félagsfærni, sjálfseflingu, heilbrigði, sköpun og læsi. Það eru þeir eiginleikar og hæfni sem markmiðið er að börn tileinki sér en jafnframt leiðarljós stefnunnar sem lýsa þeim vinnubrögðum sem eru viðhöfð, fagmennsku, samstarfi og virkri þátttöku barnanna. Ljóst var að mælingar vantaði til að meta suma þessara þátta og hefur því talsverð vinna farið í að þróa og afla þeirra. Þá voru unnir gátlistar sem leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar geta nýtt til að meta að hversu miklu eða litlu leyti unnið er í anda hvers grundvallarþáttar menntastefnunnar. Sett hefur verið upp kerfi þar sem hægt er að leggja grunnlínu, setja inn aðgerðaáætlanir og meta framgang. Í erindinu verður sagt frá þessari vinnu og hvernig hún mun nýtast til að fylgjast með áhrifum innleiðingar menntastefnu Reykjavíkur.

 

Rafrænt MenntaStefnumót Skóla- og frístundasviðs – 10.000 þátttakendur og 32 klukkustundir af efni

Hjörtur Ágústsson og Hildur Rudolfsdóttir, verkefnastjórar hjá Nýsköpunarmiðju menntamála, Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar

Árið 2019 var tekin ákvörðun um að halda uppskeruhátíð fyrir allt starfsfólk í skóla- og frístundastarfi borgarinnar í lok fyrstu þriggja áranna af innleiðingu menntastefnu Reykjavíkur. Markmiðið var fyrst og fremst að skapa vettvang til að miðla þeim fjölbreyttu þróunar- og nýsköpunarverkefnum sem unnið var að 2019–2021 um leið og skapað væri samtal um menntun í nútíð og framtíð með þátttöku erlendra og innlendra sérfræðinga. Mikill metnaður var fyrir deginum en ákveðið var að hann yrði starfsdagur á öllum starfsstöðvum Skóla- og frístundasviðs og börnum yrði gefið frí. Heimsfaraldur setti strik í reikninginn og í upphafi ársins var ljóst að ekki yrði unnt að halda viðburðinn í ráðstefnuhúsinu Hörpu eins og áætlað var. Við það sköpuðust ný og ófyrirséð tækifæri til að vinna að efnissköpun og framleiðslu á rafrænu efni sem gefur innsýn í þau verkefni sem unnið hefur verið að og um leið möguleika á að nýta efnið í lengri tíma til starfsþróunar. Í erindinu verður stiklað á stóru um þann mikla brunn efnis sem til varð við framkvæmd MenntaStefnumóts Skóla- og frístundasviðs 10. maí 2021. Viðburðurinn markaði tímamót í sögu menntaviðburða á Íslandi, en þar tóku þátt og fylgdust með samtímis meira en 10.000 þátttakendur úr leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi borgarinnar. Farið verður yfir þá fjölþættu samvinnu sem þurfti til við að skipuleggja viðburðinn, þau sóknarfæri sem felast í að halda stóra menntaviðburði á netinu og þær áskoranir sem það felur í sér að skipuleggja og framkvæma slíka viðburði.

 

Gróska – stórsókn í uppbyggingu tækniinnviða og stafrænni hæfni starfsfólks SFS

Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, verkefnisstjóri, Nýsköpunarmiðju menntamála á skrifstofu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar

Gróskan er þriggja ára átaksverkefni er snýr að hraðari innleiðingu stafrænnar tækni með uppbyggingu tæknilegra innviða og þjónustu, starfsþróun og ráðgjöf, eflingu stafrænnar hæfni og markvissri, ábyrgri og framsækinni notkun tækni í skóla- og frístundastarfi í Reykjavík. Í erindinu verður gerð grein fyrir aðdraganda verkefnisins, tengingu þess við menntastefnu Reykjavíkur og sóknaráætlunina Græna planið. Fjallað verður sérstaklega um þá umgjörð sem mynduð hefur verið utan um þríhliða samstarf grunnskóla, Nýsköpunarmiðju menntamála og Þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar sem skuldbinda sig til að vinna saman að framþróun náms-, kennslu- og starfshátta studdri af stafrænni tækni. Farið verður yfir hvernig skjalið „Leiðarlykillinn“ nýtist sem vegvísir fyrir samráð og umbótamiðað samstarf í vegferð Gróskunnar. Nokkur dæmi verða gefin af hvernig alþjóðleg viðmið og matstæki eru nýtt fyrir hagnýta stöðutöku og áætlanagerð skóla, samráð við háskólasamfélagið og mótun miðlægrar ráðgjafar og framboðs á fjölbreyttri starfsþróun. Lagt verður mat á þann lærdóm sem draga má af upphafi Gróskunnar, horft til framtíðar verkefnisins og frekari sóknartækifæra er snúa að uppbyggingu stafrænnar hæfni og stuðningi við þróun og nýsköpun í náms- og kennsluháttum.

 

Samstarf sveitarfélaga á áhættumati hugbúnaðar fyrir nám og kennslu

Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, verkefnastjóri, Nýsköpunarmiðju menntamála á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur; Bergþóra Þórhallsdóttir, verkefnastjóri í upplýsingatækni á Menntasviði Kópavogs; Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla á Mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðar og Vala Dröfn Hauksdóttir, deildarstjóri Tölvudeildar Garðabæjar

Við gildistöku laga um persónuvernd (maí 2018) skapaðist þörf fyrir að áhættumeta hugbúnað sem nýttur er í skóla- og frístundastarfi. Með áhættumati eru dregnar fram þær áhættur sem skapast við notkun tiltekins hugbúnaðar og geta hugsanlega haft áhrif á almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar nemenda. Sumarið 2020 tóku sveitarfélögin Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur og Reykjavík upp samstarf í tengslum við áhættumat á hugbúnaði til að nýta í námi og kennslu í skóla- og frístundastarfi. Samstarfið fól í sér ráðningu nema í gegnum átaksverkefni sem var styrkt af Vinnumálastofnun í gegnum átak ríkisstjórnarinnar „Sumarstörf fyrir námsmenn“ og Nýsköpunarsjóði námsmanna. Ráðinn var verkefnastjóri og um 20 háskólanemar til verkefnisins. Verkefnið var svo endurtekið sumarið 2021, þá með stuðningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og sumarátaks Vinnumálastofnunar og ríkisstjórnarinnar. Í erindinu verður sagt frá hvernig sveitarfélögin sýndu samtakamátt sinn með því að leggjast á eitt til að mæta kröfum laganna, þróa og innleiða ferla og verklag í tengslum við áhættumat við innleiðingu á hugbúnaði í námi og kennslu. Samvinnan er gríðarlega mikilvæg fyrir sveitarfélögin, sérstaklega þau sem hafa ekki mannauð til þess að takast á við verkefni tengd áhættumati og persónuvernd. Hlutverk Sambands íslenskra sveitarfélaga er einnig mikilvægt en það felur í sér utanumhald allra gagna og miðlun þeirra á opinni vefsíðu sambandsins.