Hvernig er hægt að fyrirbyggja erfiðleika í lestri?

Kl. 10:10-11:40

Rannsóknarstofa um þroska, læsi og líðan barna og ungmenna

Steinunn Torfadóttir

Er hægt að byrgja brunninn og koma í veg fyrir lestrarerfiðleika? Fylgst með árangri og framvindu lestrarnáms hjá nemendum, sem lenda í áhættuhóp vegna lestrarerfiðleika í upphafi grunnskóla

Helga Sigurmundsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Steinunn Torfadóttir, lektor, MVS HÍ

Um 22% barna skimast í áhættuhóp á skimunarprófi Lesferils vegna hugsanlegra lestrarerfiðleika, á hverju hausti, áður en formleg lestrarkennsla hefst. Markmið skimunar er að veita öflugt inngrip og eftirfylgni í kjölfarið til að freista þess að koma í veg fyrir að lestrarvandinn vaxi og teygi sig upp á mið- og unglingastig. Fylgst var með árangri lestrarnáms hjá 10 nemendum í áhættuhópi og skoðað hvernig inngrip, sérkennsla og/eða stuðningur nýtist þessum hópi barna, hvort þau ná árangri til jafns við jafnaldra og hvað það tekur langan tíma. Niðurstaðan leiddi í ljós að börn með vægari vanda (áhættuhóp 3) eru alla jafna fljótari að ná árangri og þurfa síður á sérkennslu að halda ef kennsla í bekk er einstaklingsmiðuð. Nemendur með flóknari vanda (í áhættuhópi 1) þurfa gjarnan mjög markvissan, öflugan stuðning og eftirfylgni til lengri tíma. Með markvissu inngripi kemur í ljós að framfarir þeirra geta samt sem áður oft verið hlutfallslega meiri en hjá þeim nemendum sem eru utan áhættu. Hins vegar getur tekið langan tíma að brúa bilið sem skapast hefur milli þeirra og jafnaldra. Markviss eftirfylgni og áframhaldandi stuðningur virðist því vera lykilatriði fyrir þá nemendur.

 

Athugun á tengslum lesfimi og lesskilnings: Gefur færni í lesfimi vísbendingar um hvernig nemendum í 9. og 10. bekk gengur að ná lesskilningi við lestur á aldurssvarandi, samfelldum, fræðilegum texta sem er 3–4 bls. að lengd?

Steinunn Torfadóttir, lektor, MVS HÍ og Helga Sigurmundsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Vitað er að nemendur með slaka lesfimi (sjálfvirkni) þurfa meiri tíma til að komast yfir sambærilegt námsefni en jafnaldrar. Því má gera ráð fyrir að lesefni á unglingastigi og í framhaldsskóla geti reynst þeim fyrirhafnarsamt og að það komi niður á úthaldi og einbeitingu við lestur, sem aftur hefur truflandi áhrif á lesskilning. Til að kanna fyrrgreind atriði voru valdir 50 nemendur með góða, í meðallagi og slaka lesfimi. Könnun var lögð fyrir nemendur á lestrarvenjum og gerð athugun á lesfimi og lesskilningi eftir lestur á lengri texta. Til að minnka álag á minnisþætti voru nemendur látnir lesa textann tvisvar yfir í hljóði, en máttu ekki leita að svörum í textanum eftir það. Á heildina litið benda niðurstöður til að úthald við lestur á fræðilegum, samfelldum texta sé minna hjá nemendum með slaka lesfimi en hjá hinum og að lesskilningur sé þeim erfiðari eftir því sem lesefnið verður lengra. Í erindinu verður gerð grein fyrir niðurstöðum mismunandi lesskilningsþátta og dregnar ályktanir um styrkleika og veikleika í lesskilningi með hliðsjón af því.