Háskólar: Nemendur og tengsl

Kl. 13:40-15:10

Rannsóknarstofa um háskóla

Magnús Þór Torfason

Tengslamyndun fyrsta árs nema í COVID-19 faraldrinum

Magnús Þór Torfason, dósent, FVS HÍ; Anna Helga Jónsdóttir, dósent, VoN HÍ og Margrét Sigrún Sigurðardóttir, dósent, FVS HÍ

Góð tengsl við samnemendur eru mikilvægur þáttur í háskólanámi. Rannsóknir sýna að nemendur með veikara tengslanet eru líklegri til að hverfa úr námi en þeir sem hafa sterkara tengslanet. Tengsl sem nemendur stofna til í háskóla skipta máli fyrir upplifun og vellíðan nemenda og starfsframa eftir námslok. Haustið 2017 var gerð könnun á tengslanetum fyrsta árs nema á Félagsvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Könnunin var endurtekin og þróun tengslaneta nemendanna greind. Haustið 2020 hóf annar hópur fyrsta árs nema nám en vegna samkomutakmarkana í COVID-19 faraldrinum þurfti sá hópur að stunda hluta námsins á rafrænan hátt. Ákveðið var að leggja kannanasyrpuna sem lögð hafði verið fyrir fyrsta árs nema veturinn 2017–2018 á ný fyrir fyrsta árs nema veturinn 2020–2021 til að bera saman tengslanet og þróun þeirra hjá þessum tveimur hópum. Niðurstöður sýna að nemendur sem hófu nám í COVID-19 faraldrinum tilgreindu marktækt færri tengsl í upphafi náms en fyrri árgangur. Munurinn á milli árganganna jókst eftir því sem leið á veturinn. Sérstaklega áberandi var hversu lítið var um ný tengsl hjá COVID-19 árganginum. Í fyrri árganginum voru aðeins 9% nemenda sem gáfu ekki upp nein ný tengsl í upphafi annars misseris en fyrir COVID-19 árganginn var þetta hlutfall 47%. Að einhverju leyti vega nemendur upp skert tækifæri til að kynnast nýju fólki með áframhaldandi umgengni við eldri kunningja, en ljóst er að tækifæri þessa hóps til að styrkja tengslanet í háskólanámi sínu voru margfalt lakari en nemendur eiga almennt að venjast. Niðurstöðurnar skipta máli bæði fyrir viðbrögð gagnvart þessum hópi og til að skilja betur langtímaáhrif samkomutakmarkana.

 

Upplifun nemenda af tengslum við kennara og umhyggju hans fyrir þeim í námskeiði sem kennt var í fjarnámi við Háskóla Íslands

Sigurbjörg Jóhannesdóttir, verkefnastjóri, MVS HÍ og Ásta Bryndís Schram, dósent og kennsluþróunarstjóri, HVS HÍ

Nemendur telja oft tengsl við kennara takmörkuð þegar námskeið er kennt í fjarnámi. Tengsl við kennara hafa áhrif á hvernig nemendur upplifa kennslu í námskeiði, sérstaklega hvort þeir upplifa að það sé kennaranum mikilvægt að þeim gangi vel. Sýnt hefur verið fram á að upplifun af slíkri umhyggju hafi áhrif á áhugahvöt nemenda. Því er mikilvægt að skilja hvaða þættir í fjarkennslu hafa áhrif á tengslamyndun en það var markmið þessarar rannsóknar. Sendur var rafrænn spurningalisti til nemenda námskeiðsins (182) með spurningum um tengsl við kennarann. Gildur kvarði var notaður til að mæla upplifun nemenda m.a. af afstöðu kennarans til námsgengis þeirra (umhyggja). Notaður var sex þrepa Likert-kvarði frá mjög ósammála (1) … til mjög sammála (6). Þrír rýnihópar, samtals tíu manns, voru boðaðir til að dýpka og auka skilning á niðurstöðum spurningalistans. Þátttakendur í netkönnuninni voru 82, svarhlutfall 45%. Tæplega 80% töldu að þeir hefðu náð nægilega góðum tengslum við kennarann (frekar sammála, sammála, mjög sammála) þrátt fyrir að hitta hann aldrei. Þátttakendur rýnihópa útskýrðu að þeim hefði fundist þeir kynnast kennaranum. (1) Í myndböndum var hún opin og frjálsleg, persónuleg; (2) Í PPT-kennslumyndböndum var hún í mynd; (3) Hún svaraði spurningum nemenda vikulega í myndbandi; (4) Nemendur kynntu sig allir stuttlega. Niðurstöður kvarðans sýndu að nemendur upplifðu umhyggju kennara. Nemendur upplifðu einnig að frábært skipulag bæri vott um að kennaranum væri ekki sama hvernig þeim gengi. Vanda ber uppbyggingu á fjarnámskeiðum til að nemendur upplifi tengsl við kennara og umhyggju (e. caring) hans.

 

Námshópar: „Bara æði, við náðum vel saman, vil halda mig með þessum hóp“

Ólöf Júlíusdóttir, kennslustjóri, HVS og Ásta Bryndís Schram, dósent og kennsluþróunarstjóri, HVS HÍ

Haustið 2020 fengu framhalds- og háskólar landsins ákall frá stjórnvöldum um að nauðsynlegt væri að taka sérstaklega vel á móti nýnemum sem væru að hefja nám í nýju umhverfi á erfiðum tímum. Viðbrögð Heilbrigðisvísindasviðs (HVS) við ákallinu voru að stofna sérstaka námshópa við hverja deild og námsbraut sviðsins þar sem sjö til tíu nemendur voru settir saman í hóp. Gætt var að því að hafa sem jafnasta kynjaskiptingu og að nemendur væru á svipuðum aldri. Markmið námshópanna var að skapa vettvang fyrir nemendur til að læra saman, kynnast, minnka einangrun og efla námsandann í þessu óvenjulega árferði. Til að kanna mikilvægi námshópanna og hvort halda ætti áfram með svipað fyrirkomulag að ári var lögð fyrir netkönnun, með opnum og lokuðum spurningum, fyrir fyrsta árs nemendur í lok nóvember 2020. Þátttakendur voru 454 af 952 nemendum, tæplega helmingur þeirra sem settir höfðu verið í námshóp svöruðu könnuninni. Unnið var úr opnum svörum nemenda með þemagreiningu. Helstu niðurstöður gefa til kynna að flestir nemendur vilja gjarnan vinna í hópum þrátt fyrir að mismikil samskipti hafi verið innan hópa. COVID-19 var sagður helsti orsakavaldur dræmrar hópavinnu þar sem erfitt reyndist að mynda góð tengsl og viðhalda þeim í netheimum. Á meðal sumra nemenda var námshópurinn þeirra helsti félagsskapur og stuðningur á misserinu. Stefnt er að því að halda áfram með námshópa á HVS á haustmisseri 2021, þá með meiri aðkomu sviðsráðs nemenda HVS og með því að styðja hópa við að koma sér af stað og „brjóta ísinn“, sérstaklega ef hist er í netheimum.

 

Manngildi og upplýsingaþörf

Eva Heiða Önnudóttir, prófessor, FVS HÍ

Í þessu verkefni er greint frá því með hvaða hætti nemendur verða sér úti um upplýsingar sem lúta að þeirra námi og hvaða væntingar þeir hafa til kennara um upplýsingamiðlun. Jafnframt er greint hvort nemendur beiti ólíkum leiðum eða hafi ólíkar væntingar til upplýsingamiðlunar eftir því hvers konar mannleg gildi þeir leggja áherslu á og er þar notaður kvarði Schwartz sem skiptist í fjóra yfirþætti; þörf fyrir öryggi og hefðir (e. conservation), áhersla á að vera opin fyrir breytingum (e. openness to change), áhersla á góðvild gagnvart öðrum og umburðarlyndi (e. self-transcendance), áhersla á skemmtun og eigin árangur (e. self-enahancement). Fyrstu niðurstöður benda m.a. til þess að þeir nemendur sem hafa meiri þörf fyrir öryggi og hefðir eru jafnframt þeir nemendur sem þora ekki að spyrja kennara beint út þar sem þeir eru hræddir um að líta illa út. Jafnframt sjáum við að þessir nemendur eru líklegri til að telja að upplýsingamiðlun byggð á samtali af hálfu kennara nýtist þeim í námi á meðan valdboð kennara í formi fyrirmæla virðist ekki skipta þá máli.