Háskólar: Námskrárgerð

Háskóli Íslands

Háskólar: Námskrárgerð

1. október kl. 10:45 til 12:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa um háskóla

Guðrún Geirsdóttir

Kennsluhættir á alþjóðlegum brautum LHÍ

Sigríður Geirsdóttir, verkefnastjóri gæða og kennslu, LHÍ og Þorgerður Edda Hall, verkefnastjóri Alþjóðaskrifstofu, LHÍ

Greint verður frá rannsókn sem gerð var á einkennandi þáttum náms á alþjóðlegum brautum Listaháskóla Íslands. Tekin voru rýnihópaviðtöl við tólf kennara, átta nemendur og einn hollnema af öllum alþjóðlegum brautum skólans. Viðtölin fóru fram á ensku eða íslensku eftir hópum og tóku öll klukkutíma. Viðmælendur voru leiddir í gegnum fjögur meginþemu; kennsluhætti, stuðning í námi, kennslutungumál og samskipti. Helstu rannsóknarspurningar sneru að því hvað einkennir kennsluhætti á alþjóðlegum brautum, hversu meðvitaðir kennarar eru um kennsluaðferðir sem þeir beita í fjölbreyttum nemendahópi og upplifun nemenda á náminu. Niðurstöður draga fram það sem vel er gert og sem vert er að deila ásamt veikleikum í starfsháttum stofnunarinnar. Mikilvægt er að umbótastarf sé byggt á gögnum sem safnað hefur verið kerfisbundið innan skólans. Fræðsla til kennara um fjölbreytta nemendahópa og kennsluhætti sem taka mið af þeim verður markvissari og byggð af fremsta megni á þeim raunveruleika sem kennarar starfa við innan skólans. Bregðast má við niðurstöðum með því að efla ákveðna þætti í starfsemi skólans, hvort heldur á stoðsviðum eða við endurskipulagningu námskeiða. Kennslufræðileg þekking eykst innan skólans, nemendur verða meðvitaðri um þá þætti sem hafa áhrif á nám þeirra og upplifun af náminu. Einnig dýpkar rannsóknin skilning á þeim forsendum sem búa að baki námsframboði í skólanum og á þeirri námsmenningu sem þar ríkir.

 

Þróun fjarnáms fyrir tónlistarskólakennara: Áskoranir og ávinningur

Elín Anna Ísaksdóttir, fagstjóri hljóðfærakennslu við tónlistardeild LHÍ

Umfjöllunarefnið er starfendarannsókn sem unnin var á vormisseri 2020 en rannsóknin var lokaverkefni í diplómanámi kennslufræði háskóla. Viðfangsefni rannsóknarinnar er þróun fjarnámskeiðs í kennslufræðum fyrir starfandi tónlistarskólakennara en kveikjan að þróun námskeiðsins er skýrsla sem unnin var á vegum Listaháskóla Íslands 2018–2019. Þar var m.a. skoðuð þörf á námsframboði fyrir kennara og stjórnendur tónlistarskóla. Í niðurstöðum kom fram að mikil þörf væri talin á auknu námsframboði á þessu sviði og þá ekki hvað síst í formi fjarnáms svo ná mætti til kennara og stjórnenda tónlistarskólanna á landsvísu. Námskeiðið er viðleitni tónlistardeildar LHÍ til að mæta þessari þörf og er það eitt hið fyrsta sinnar tegundar í Listaháskólanum. Í rannsókninni er horft til reynslunnar af þróun og kennslu á sviði fjarnáms auk þess sem reynsla og viðhorf nemendanna eru skoðuð, en allir búa þeir yfir talsverðri reynslu af starfi á vettvangi. Rýnt er í fræðileg skrif um fjarkennslu á háskólastigi auk þess sem tengt er við kenningar um nám fullorðinna og áhrif og gildi reynslunnar í námi. COVID-19 faraldurinn kom inn í mitt ferlið og hafði talsverð áhrif og er sjónum beint að því hvaða áhrif allir þessir þættir munu mögulega hafa á framtíðarkennsluhætti og hugsanlega þróun námsframboðs við Listaháskólann en ein meginniðurstaða rannsóknarinnar er að mikil þörf er á áframhaldandi þróun fjarnáms fyrir þennan markhóp.

 

MOCAT – að smala köttum

Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður Kennslumiðstöðvar, HA og Helena Sigurðardóttir, kennsluráðgjafi, HA

Fjallað verður um alþjóðlegt samstarfsverkefni sem Kennslumiðstöð HA (KHA) tekur þátt í ásamt átta öðrum háskólum víðs vegar um heiminn. Verkefnið ber heitið Modern competences of academic teachers – the key to modernize higher education, MOCAT. Verkefnið er styrkt af The Polish national agency for academic exchange – NAWA og er stýrt af WSB, viðskiptaháskólanum í Poznan. Háskólarnir átta sem taka þátt í verkefninu eru frá Tyrklandi, Póllandi, Íslandi, Kenía, Georgíu, Rúmeníu, Indónesíu og Ítalíu. Í MOCAT-verkefninu er verið að þróa sameiginlega sjálfbærar lausnir til að bæta gæði menntunar í háskólum með notkun nútímalegra kennsluaðferða, tækninotkunar og kennsluefnis fyrir háskólakennara á sviði kennslufræði. Tilgangurinn með verkefninu er sköpun þekkingar og miðlun reynslu meðal samstarfsháskólanna, ásamt að þróa og útbúa hæfniviðmið fyrr starfandi háskólakennara. Hæfniviðmiðin stýra svo gerð námsefnis sem verður útbúið til að auka aðferðafræðilega kennslu og fjölmenningarlega hæfni háskólakennara í bæði stað- og fjarnámi. Markmið verkefnisins er að háskólakennarar, einkum þeir sem kenna á ensku, í fjölmenningarlegum hópum frá samstarfsríkjum verkefnisins, hafi greiðan aðgang að þjálfunar- og fræðsluefni. Með tileinkun á efninu geta þeir eflt hæfni sína sem háskólakennarar og bætt kennslu sína og menningarlega hæfni, sérstaklega þeir háskólakennarar sem eru án kennslufræðilegs bakgrunns. Í erindinu verður farið yfir tilgang verkefnis, hvert sé hlutverk og hver sé hagur KHA í að taka þátt í svona samstarfsverkefni.

 

Heilbrigðisvísindanálgun á efni raunvísinda

Björn Viðar Aðalbjörnsson, lektor, MVS, HÍ

Þverfræðileg nálgun á námsefni getur skipt miklu máli þegar nemendur læra námsefni sem virðist ótengt þeirra námsbraut en er í raun mikilvæg undirstaða. Tilgangurinn með þessu verkefni er að taka saman grunnefnafræði og laga að þörfum tveggja námsgreina – matvælafræði og næringarfræði. Eitt af þeim atriðum sem kom upp við gerð sjálfsmatsskýrslu Matvæla- og næringarfræðideildar var þörf nemenda á betri tengingu efnafræði við það framtíðarstarf sem þeir sáu fyrir sér í heilbrigðisvísindum. Tveir áfangar í grunnefnafræði voru hannaðir fyrir þessar námsgreinar og verða kenndir veturinn 2020–2021. Með verkefninu er stefnt að því að auka áhuga og skilning nemenda á mikilvægi þess að búa yfir góðri efnafræðiþekkingu. Kannanir voru lagðar fyrir nemendur og kennara Matvæla- og næringarfræðideildar innan HÍ þar sem kannaðar voru hugmyndir þátttakenda um kennsluaðferðir og tengingu námsefnisins við þessar tvær starfsgreinar. Hér verður gerð grein fyrir niðurstöðum kannana og jafnframt litið á þá þætti sem þurfti að hafa í huga að við þróun námsefnis um raunvísindi fyrir nemendur í heilbrigðisvísindum.