Háskólar: Námskrárgerð

Upptaka af málstofu

Kl. 12:00-13:30

Rannsóknarstofa um háskóla

Ragna Kemp Haraldsdóttir

Námsbraut á gatnamótum: Akademískt frelsi, fagmennska og jafnrétti sem áhrifavaldar framþróunar

Ragna Kemp Haraldsdóttir, lektor, FVS HÍ

Lítil og fjársvelt námsbraut stendur frammi fyrir áskorunum varðandi breytingar á uppbyggingu og innihaldi náms til að mæta innri og ytri kröfum. Verkefnið leiðir huga rannsakanda að akademísku frelsi, fagmennsku og jafnrétti sem marka gildi háskólasamfélagsins. Markmið rannsóknarinnar var að skoða þessar áskoranir frá ýmsum hliðum og í takt við tímaramma raunverulegra breytinga. Horft var til þarfa og væntinga nemenda og atvinnumöguleika þeirra, og aukinnar samvinnu við ólíka hagsmunaaðila til að þarfir nemenda og atvinnulífs héldust enn betur í hendur. Fjallað er um akademískt frelsi samhliða breytingum á námsbraut og hvernig slíkt frelsi fléttast og/eða skarast á við fagmennsku og jafnrétti. Þá er jafnrétti til náms skoðað með tilliti til staðnáms og fjarnáms.

Notast var við blandaða aðferðafræði. Fyrst var rýnt í utanaðkomandi athugasemdir, eins konar kröfulýsingu faggreinarinnar til námsins og viðbrögð við þeim. Þá voru könnuð vinnubrögð og niðurstöður faglegs rýnihóps sem kom að þróunarvinnu með námsbrautinni. Leiðsögn deildarforseta með akademísku starfsfólki var tekin til skoðunar og spurningakönnun var lögð fyrir ákveðinn hluta nemenda. Loks var rýnt í umræðuþráð nemenda í námsumsjónarkerfinu Canvas. Frumniðurstöður benda til þess að tímabært hafi verið að gera breytingar á námsbraut og að tekist hafi í stórum dráttum að mæta kröfum faggreinarinnar. Reynslan sýnir að lausnamiðað viðhorf akademískra starfsmanna og aðkoma rýnihóps reyndist styðja verkefnið. Þá skipti leiðsögn deildarforseta sköpum fyrir framgang þess og til að viðhalda fagmennsku og jafnrétti til ákvarðanatöku. Fjárhagsleg afkoma námsbrautarinnar er þó enn í járnum og er það umhugsunarvert fyrir háskólasamfélagið í heild.

 

Kennsla í geislavörnum og hlutverk geislafræðinga á Íslandi

Jónína Guðjónsdóttir, lektor, HVS HÍ

Geislafræðingar hafa án efa stóru hlutverki að gegna þegar kemur að öruggri notkun jónandi geislunar og við læknisfræðilega notkun geislunar eru geislafræðingar oft í fremstu víglínu. Við íslenskar menntastofnanir er aðeins eitt námskeið um geislavarnir í boði, en það er skyldunámskeið á fyrsta ári við námsbraut í geislafræði við HÍ. Við endurskoðun námskeiðs í geislavörnum árið 2020 voru hæfniviðmið námsbrautarinnar borin saman við viðmið fyrir þekkingu, færni og hæfni geislafræðinga sem Evrópsk samtök félaga geislafræðinga (European Federation of Radiographer Societies, EFRS) hafa gefið út. Í kennsluskrá var aðeins að finna hæfniviðmið sem svöruðu til tveggja af fjórum kjarnhæfniviðmiðum EFRS og vakti það spurningar um hvort geislafræðingar byggju almennt ekki yfir þessari hæfni að námi loknu eða hvort kennsluskráin endurspeglaði innihald námsins ekki nógu vel. Gerð var nafnlaus könnun á meðal geislafræðinga þar sem lagðar voru fyrir tvær spurningar tengdar hverri kjarnahæfni þar sem geislafræðingar merktu við hve sammála þeir væru því að i) búa yfir hæfni og ii) að þetta væri hlutverk geislafræðinga.

Fjórðungur aðspurðra svaraði könnuninni (n=51). Varðandi þau tvö kjarnahæfniviðmið sem eiga sér samsvörun í námskrá í geislafræði voru geislafræðingar almennt sammála um að búa yfir hæfni og að hlutverkið tilheyrði þeim, en varðandi hin tvö kjarnahæfniviðmiðin voru svör sundurleitari og aðeins um helmingur var sammála því að verkefnin væru hlutverk geislafræðinga. Niðurstöðurnar sýna að tilefni er til umræðu milli námsbrautar, starfandi geislafræðinga, fagfélags og annarra stofnana um innihald náms og kennslu í geislavörnum.

 

Að takast á við siðferðilegar áskoranir – Kennsla á sviði viðskiptasiðfræði á krossgötum

Þröstur Olaf Sigurjónsson, prófessor, FVS HÍ

Vaxandi fjöldi fræðimanna lýsir efasemdum um að vel hafi tekist til við kennslu á sviði viðskiptasiðfræði í viðskiptaháskólum. Stöðugur vöxtur hneykslismála á sviði rekstrar fyrirtækja og stofnana ýtir undir áhyggjur af að kennsla og þjálfun nemenda, þegar kemur að því að leysa siðferðileg álitaefni í viðskiptum, hafi mistekist. Þar af leiðandi hafa sífellt fleiri rannsóknir beint sjónum að skorti á þeim áhrifum sem kennsla á sviði viðskiptasiðfræði þarf að hafa á nemendur. Í þessum rannsóknum hefur rödd stjórnenda vart heyrst, jafnvel þó að stjórnendur séu líklega þeir sem best eru til þess fallnir að meta getu útskriftarnema til að leysa siðferðileg álitamál. Í rannsókninni sem hér er kynnt koma fram viðhorf íslenskra stjórnenda til hlutverks viðskiptaháskóla og fyrirtækja við að efla getu nemenda til að takast á við siðferðileg álitaefni. Með því að skoða sjónarhorn stjórnenda er horft til „eftirspurnarhliðar“ á menntun á sviði viðskiptasiðfræði sem mótvægi við „framboðshliðina“, þar sem viðhorf rannsakenda sjálfra hefur mikið verið kannað (háskólakennara). Rannsóknin var framkvæmd með þeim hætti að stjórnendur 300 stærstu íslensku fyrirtækjanna fengu viðhorfskönnun senda rafrænt ásamt að tekin voru djúpviðtöl við nokkra þeirra. Niðurstöður sýna að stjórnendur telja að viðskiptaháskólar geti gert mun betur þegar kemur að því að efla nemendur til að takast á við siðferðileg álitamál eftir útskrift, en að fyrirtækin sjálf hafi hér enn fremur hlutverki að gegna. Kallað er eftir auknu samstarfi milli háskóla og atvinnulífs.

 

Vísindagreinaverkefni til að vekja nemendaáhuga

Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, lektor, Raunvísindadeild, VoN HÍ

Fjölbreyttur nemendahópur þarf að taka námskeið í lífrænni efnafræði sem hluti af skyldunáminu á sinni námsleið. Nemendur sjá stundum mismikla tengingu milli fagsins og sinnar faggreinar og sjá því stundum takmarkaðan tilgang í að taka námskeiðið. Markmið verkefnisins var að leyfa nemendum að uppgötva sjálf tenginguna við faggrein sína og vekja þannig aukinn áhuga þeirra á námsefninu. Nemendur völdu sér vísindagrein, tengda lífrænni efnafræði, til að lesa og vinna verkefni upp úr. Greinin þurfti að tengjast bæði lífrænni efnafræði og áhugasviði þeirra og þurftu nemendur m.a. að fjalla um þá tengingu, helstu niðurstöður greinarinnar og hvað þeim þótti áhugaverðast í vísindagreininni. Sem aukahvatning hefur verkefnið gilt 10% til upphækkunar. Verkefnið hefur þróast úr ritgerðarverkefni yfir í að nemendur svara afmörkuðum spurningum. Verkefnið hefur í heild tekist nokkuð vel til. Nemendum finnst oft vera áskorun að finna hentuga grein en í heildina er upplifun þeirra flestra almennt góð. Þrátt fyrir að þeim finnst oft erfitt að skilja alveg allt í greinunum þá finnst þeim hvetjandi að sjá tengingu milli lífrænnar efnafræði og þeirra áhugasviðs og oft gaman að sjá að þau skilja samt meira í greinunum en þau bjuggust við að gera. Lestur vísindagreina er mikilvægur í háskólanámi. Vísindagreinaverkefni geta líka nýst til að leyfa nemendum að uppgötva sjálf tengingu námskeiðs við áhugasvið þeirra og hversu mikið þau hafa lært í námskeiðinu, en bæði getur reynst hvetjandi fyrir nemendurna.