Háskólar: Kennarar og þróun kennsluhátta

Kl. 10:10-11:40

Rannsóknarstofa um háskóla

Margrét Sigrún Sigurðardóttir

Samtal um kennslu á Félagsvísindasviði

Margrét Sigrún Sigurðardóttir, dósent, FVS HÍ og Magnús Þór Torfason, dósent, FVS HÍ

Samtal um kennslu er mikilvægt tæki í kennsluþróun. Á Félagsvísindasviði hafa svokallaðir vendifundir verið haldnir til þess að efla samtal um kennslu. Vendifundir fara þannig fram að stuttar upptökur eru gerðar um fundarefni og það síðan rætt yfir kaffi. Markmið með vendifundum er það sama og með vendikennslu, að tryggja virkni fundargesta. Í desember 2020 var gerð könnun á meðal kennara á Félagsvísindasviði til að kortleggja tengslanet kennara þegar kemur að samtali um kennslu og greina þátttöku í vendifundum, hvoru tveggja áhorfi á myndbönd og mætingu á fundi. Niðurstöður sýna að rúmlega fjórðungur kennara sem svöruðu könnuninni nefndu engan þegar spurt var um kennara sem þeir ættu samtal um kennslu við, og rúmlega þriðjungur taldi engan upp við spurningunni „Til hvaða aðila getur þú leitað varðandi ráð um kennslu?“ Þar sem ætla má að þátttaka í könnun um kennslu og kennsluþróun sé bjöguð að því leyti að kennarar sem hafa áhuga á kennslumálum séu líklegri til þess að svara má leiða að því líkum að stór hluti kennara á sviðinu eigi ekki samtöl um kennslu. Hugmyndin á bak við vendifundi var að skapa svigrúm til þess að ræða kennslu og niðurstöður könnunarinnar benda til þess að þeir hafi að einhverju marki náð til þeirra einstaklinga sem að öllu jöfnu ræða ekki um kennslu. Athyglisvert er að meðal þeirra sem ræða við flesta um kennslu er áhorf á myndbönd lægra en þeirra sem telja færri upp. Leiða má líkum að því að þörf þeirra fyrir samtal um kennslu sé uppfyllt innan tengslanetsins.

 

A review of what supports teacher identity formation in higher education

Abigail Grover Snook, aðjúnkt, HVS HÍ

Teacher identity among healthcare science faculty is challenged by other identities such as clinician and/or researcher. Yet, having an identity as a teacher is important as it has been shown to be a critical organizing element in a person’s professional life, driving their thoughts, choices, and energies. This review examines what research suggests is important to teacher identity formation.

A review of the teacher identity literature was performed with a special emphasis on teacher identity formation among healthcare science faculty, which include second-career academics and clinical teachers. Sections within the literature review included a brief definition of teacher identity, its importance, its challenges, and what supports teacher identity. Subgroups of supports for teacher identity were grouped according to what supports the following psychological processes: (1) a sense of appreciation for good teaching – supported by acknowledgement; (2) a sense of connectedness – supported by communities of practice, mentoring, communication; (3) a sense of competence – supported by skills training based on perceived needs of teachers; (4) a sense of commitment – supported by reflection, goal-setting; (5) a future trajectory – supported by possibility of promotion; (6) a sense of autonomy – supported by letting teachers decide content/methods; and (7) a “care-full” environment – where teachers know they are cared for. Similar supports were identified for all types of teachers, although context was always important. A merged or integrated identity between teacher and clinician/researcher was suggested as most desirable.

 

„Fólk þarf að sjá að það sé hægt að hafa áhrif“ – Sýn nemenda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands á aðkomu þeirra að mati á gæðum náms og kennslu

Eygló Rúnarsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Lóa Guðrún Gísladóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Rannsóknin er hluti af rannsóknarverkefninu Samstarf kennara og nemenda um aukin gæði náms og kennslu sem fékk styrk úr Kennslumálasjóði árið 2020. Markmið rannsóknarverkefnisins er að skoða mat á gæðum náms og kennslu á MVS og leita eftir hugmyndum nemenda, kennara og stjórnenda um fjölbreyttari leiðir í því efni. Markmið þessa hluta rannsóknarinnar var að kalla eftir sýn nemenda á eigin aðkomu að mati á námi og kennslu og kennslukannanir. Gagna var aflað með fjórum rýnihópaviðtölum með alls 15 nemendum MVS sem svöruðu opnu kalli um þátttöku. Niðurstöður gefa vísbendingar um að nemendur þekki ekki boðleiðir og formlega ferla varðandi samtal og ábendingar um nám og kennslu og hafi óskýra mynd af notkun kennslukannana. Nemendur vilja aukið samtal um nám og kennslu með fjölbreyttari leiðum en eru jafnframt óöruggir um afleiðingar þess að setja fram gagnrýni eða ábendingar. Nemendur telja að áhugasamir kennarar, fjölbreytt námsmat og kennsluhættir, gagnkvæm virðing nemenda og kennara og inntak námskeiða í takt við þarfir vettvangs og nýjustu þekkingu auki gæði náms. Gildi rannsóknarinnar felst í að gera sjónarmið og rödd nemenda varðandi gæði náms og kennslu á Menntavísindasviði sýnilega í þróun náms og kennslu við sviðið sem og við Háskóla Íslands almennt. Rannsóknin er jafnframt lóð á vogarskálar samtals um þróun náms og kennslu í samstarfi við nemendur og framlag til rannsókna á sviði kennsluþróunar í háskólakennslu á Íslandi.

 

Þróun 12 reynsluspora rafrænnar kennslu

Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður Kennslumiðstöðvar, HA og Gísli Kort Kristófersson, dósent, HA

Fjallað verður um 12 reynsluspor sem höfundar hafa hannað sem viðmið til rafrænnar kennslu í grunn- og framhaldsnámi í háskóla. Rafræn kennsla, sérlega í klínískum og verklegum fögum, vex mörgum í augum og því hafa höfundar þróað viðmið til að hjálpa sér og öðrum í sömu sporum. Að þekkja rannsóknir á kennslu og sérlega í rafrænni kennslu er hjálplegt, en er gagnlítið ef ekki eru ákveðin grundvallaratriði til staðar. Hin 12 reynsluspor rafrænnar kennslu eru til þess miðuð að samþætta praktíska og fræðilega nálgun á rafræna kennslu á háskólastigi. Höfundar hafa þróað, byggt á kennslureynslu frá fjórum háskólum í tveimur löndum og nýjustu rannsóknum á sviðinu, 12 spor sem eru í stöðugri þróun. Í erindinu verða viðmiðin kynnt og kostir þeirra og gallar ræddir.