Framhaldsskólinn á umbrotatímum

Guðrún Ragnarsdóttir

Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs

Úr viðjum vanans. Áhrif skólamenningar á sjálfræði og sjálfstæði framhaldsskólakennara til breytinga í og í kjölfar heimsfaraldurs

Þorsteinn Árnason Sürmeli, doktorsnemi, MVS HÍ,  Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor, MVS HÍ og Guðrún Ragnarsdóttir, dósent, MVS HÍ

Í þessu erindi er fjallað um áhrif COVID-19 heimsfaraldursins á kennara í framhaldsskólum í ljósi viðbragða þeirra, vinnuálags, kennsluhátta og samstarfs og samskipta þeirra við stjórnendur og aðra kennara. Farið verður yfir hvernig skólamenning virðist hafa áhrif á sjálfræði og sjálfstæði kennara þegar bregðast þarf við breyttum aðstæðum. Einnig verður fjallað um þann stuðning sem þeir sóttu til stjórnenda og samstarfsfélaga á meðan takmarkanir á hefðbundnu skólastarfi voru í gildi frá mars 2020 til ársloka en þá voru viðtölin við kennarana tekin. Byggt er á viðtölum við tólf kennara sem störfuðu í þremur ólíkum framhaldsskólum; tveimur á höfuðborgarsvæðinu og einum á landsbyggðinni; tveimur fjölbrautaskólum og einum bekkjarskóla. Niðurstöður rannsóknarinnar verða ræddar í ljósi kenninga um mismunandi gerðir og samsetningu skóla, sjálfræði og sjálfstæði framhaldsskólakennara og fyrri rannsókna á kennsluháttum í íslenskum framhaldsskólum. Niðurstöður benda til að skólamenning hafi haft áhrif á hvernig kennarar brugðust við takmörkunum á skólastarfi, samstarf þeirra á milli og vilja og getu þeirra til að byggja á reynslunni og breyta kennsluháttum þegar litið er til framtíðar. Þó að starf framhaldsskólakennara sé gjarnan bundið ákveðnum námsgreinum er samstarf innan kennarahópsins sem og traust og stuðningur skólastjórnenda mikilvægir þættir þegar stigin eru skref breytinga. Þessi rannsókn skoðar það í samhengi við reynslu íslenskra framhaldsskólakennara á tímum heimsfaraldurs.

Togstreita og andstæð sjónarmið: Sýn kennara og skólastjórnenda á þróun og framtíðarmöguleika framhaldsskólans

Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor, MVS HÍ og Guðrún Ragnarsdóttir, dósent, MVS HÍ

Þegar starfsemi íslenskra framhaldsskóla hafði farið fram með fjarfundabúnaði í um það bil heilt ár vegna COVID-19 faraldursins leitaði spurningin um framtíðarþróun skólastigsins á mörg þeirra sem láta sig skólamál varða. Markmið þessarar rannsóknar var að varpa ljósi á sýn kennara og stjórnenda á þróun framhaldsskólans og framtíðarmöguleika með hliðsjón af þeirri reynslu sem kreppuástand heimsfaraldursins hafði veitt fram að því. Tekin voru viðtöl við tólf kennara og sex stjórnendur þriggja ólíkra framhaldsskóla. Skólarnir og viðmælendur voru valdir með tilgangsúrtaki til að fá sem mesta breidd í niðurstöðurnar. Þrjú meginþemu voru áberandi í gögnunum. Þau varða fjarkennslu og félagslegar þarfir, þróun kennsluhátta og tækni og möguleika á sveigjanlegra skólastarfi. Niðurstöðurnar sýna áhugaverða togstreitu og andstæð sjónarmið viðmælenda. Þátttakendur leggja áherslu á umhyggju fyrir nemendum og að farsóttin hafi skerpt á hugmyndum um félagslegt gildi framhaldsskólans. Einnig bentu þeir á tækniframfarir í kennslu sinni og veltu fyrir sér opnara og sveigjanlegra skólastarfi til að koma til móts við þarfir ólíkra nemenda og kennara. Jafnframt fjölluðu þátttakendur um margvíslegar áskoranir í því samhengi. Niðurstöðurnar eru mikilvægt innlegg í áframhaldandi umræðu um þróun framhaldsskólans. Þær sýna reynslu kennara og skólastjórnenda sem staddir voru í óvæntu breytingaferli og hugmyndir þeirra um þróun og framtíðarmöguleika skólastigsins. Höfundar leggja áherslu á að raddir skólafólks verði sterkar í samræðum um mótun framhaldsskóla framtíðarinnar.

Foreldrar framhaldsskólanema í nýju hlutverki á tímum COVID-19

Ómar Örn Magnússon, doktorsnemi, MVS,  HÍ. Leiðbeinandi: Guðrún Ragnarsdóttir, dósent, MVS HÍ

Jöfnuður í íslensku skólakerfi er almennt talinn mikill líkt og hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Erlendar rannsóknir benda til þess að ójöfnuður hafi aukist í skólakerfum á tímum samkomutakmarkana meðan á COVID-19 faraldrinum stóð. Fjarnám krefst meira sjálfstæðis frá nemendum og þeir þurfa í auknum mæli að leita í tengslanet sitt þar sem foreldrar gegna mikilvægu hlutverki. Ýmislegt bendir til þess að þeir nemendur sem höllustum fæti stóðu fyrir, hafi farið verst út úr faraldrinum. Fjallað verður um reynslu foreldra framhaldsskólanema af fjarnámi og hugmyndir þeirra og orðræða settar í samhengi við kenningar Basil Bernstein um félagslegt réttlæti í menntakerfum. Umfjöllunin byggir á 12 viðtölum við foreldra í þremur framhaldsskólum sem eru þátttakendur í rannsókninni Framhaldsskólinn á tímum COVID-19: Kreppa, áskoranir og aðlögun. Fyrstu niðurstöður sýna að aðstæður nemenda eru mjög mismunandi. Niðurstöðurnar vekja áleitnar spurningar um fyrirkomulag náms á tímum COVID-19 og ýmislegt bendir til að fyrirkomulagið hafi aukið félagslegt ójafnræði.