Tileinkun formlegrar orðræðu á ensku: Námsaðferðir, orðaforði, lestur og ritun

Kl. 8:30-10:00

Akademísk enska, þverfaglegt diplómanám á Hugvísindasviði Háskóla Íslands

Jóna Guðrún Guðmundsdóttir

 

Akademísk enska og námskröfur við upphaf háskólanáms: Væntingar og ávinningur tileinkunar

Ásrún Jóhannsdóttir, aðjúnkt, HUG HÍ

Rannsóknir á Íslandi sýna að töluverður hluti nemenda á í erfiðleikum með að skilja og nota ensku í námi þrátt fyrir mikla útbreiðslu ensku á heimsvísu. Kröfur um að nemendur læri og skili verkefnum á sérhæfðu erlendu tungumáli, akademískri ensku, sem ekki allir hafa á valdi sínu bæði hér og erlendis, verða til þess að lagt er í mikla aukavinnu sem hægt er að komast hjá þegar stuðningur og þjálfun er fyrir hendi. Akademísk enska er 60 ECTS hagnýt námsleið á BA-stigi sem ætluð er háskólastúdentum sem vilja styrkja færni sína í að nota ensku í háskólanámi, þ.e. í öðrum námsgreinum en ensku. Sérstök áhersla er lögð á að undirbúa nemendur til þess að takast á við nám þar sem enska er helsta kennslumálið eða námsefni er aðallega á ensku. Í þessu erindi verður fjallað um hvernig námskeið námsleiðarinnar styðja tilgang og kröfur náms og væntingar nemenda. Greint verður frá hvernig námskeiðin falla að hæfniviðmiðum, útbreiðslu ensku og hvað nemendur hafa að segja um námið.

 

Formfast akademískt læsi fangað: fælingarmáttur eða fjölbreytt fyrirheit?

Jóna Guðrún Guðmundsdóttir, doktorsnemi, HUG HÍ

Læsisfærni og góður lesskilningur eru grundvallarforsendur framfara í atvinnulífi og meginundirstöður alls náms á háskólastigi. Í íslensku málumhverfi nútímans, þar sem aukið ílag og tileinkun enskrar tungu telst órjúfanlegur þáttur daglegs lífs, er aukin krafa gerð til lestrarfærni og lesskilnings í báðum tungumálum – íslensku og ensku (tvílæsi, e. biliteracy). Í fjölda starfa atvinnulífsins sem og í háskólanámi bætist við ílag formlegs máls sem oftast er á ensku, en um 90% lesefnis við Háskóla Íslands er t.d. á ensku. Aukinn lesskilningur á formlegri ensku og þverfagleg tileinkun á akademískum enskum orðaforða eru því nauðsynleg öllum er hyggja á frekara nám eða þeim er auka vilja farsæld og framgang í starfi. Í erindinu verður athygli beint að lesskilningi, orðaforðatileinkun og lesaðferðum tengdum formlegri enskri orðræðu. Fjallað verður um hvernig námskeiðunum Læsi og orðaforði I og II er ætlað að auka skilning nemenda á mismunandi gerðum texta í ólíkum fræðigreinum og þjálfa notkun viðeigandi námsaðferða við lestur fræðilegra texta á ensku. Þá er reifuð vinna nemenda með þekkta almenna akademíska orðalista til að stækka og dýpka orðaforða, bæði hugtök tengd ákveðnum fræðigreinum en ekki síst almennan orðaforða og orðræðu sem er grundvöllur túlkunar og skilnings á akademískum textum.

 

Að þjálfa ritfærni úr óformlegum frásagnarstíl í akademíska rithæfni til árangurs í námi og starfi

Súsanna Björg Vilhjálmsdóttir, doktorsnemi, HUG HÍ

Við upphaf háskólanáms fyllast nemendur metnaði til að ná árangri í námi og velgengni í framtíðarstarfi. Til að ná árangri er góð rithæfni á ensku orðin algeng krafa bæði hjá háskólum og fyrirtækjum í alþjóðlegu samfélagi. Á sama tíma upplifa nemendur óöryggi í hæfni sinni til að uppfylla þær væntingar sem gerðar eru til þeirra að skrifa akademíska texta á ensku vegna skorts á textavitund á grunnatriðum fræðilegrar ritunar, s.s. mismunandi setningagerðir, orðalag, uppbyggingu efnisgreinar, svo ekki sé minnst á algengustu textategundina sem rituð er á háskólastigi, ritgerð. Í erindinu verður fjallað um tvíþættan tilgang námskeiðanna Akademísk enska: Ritun I og II. Til að auka textavitund nemenda á akademískum textum rituðum á ensku eru þeir annars vegar þjálfaðir í að greina stutta námsbókatexta, tímaritsgreinar og skýrslur með mismunandi námsaðferðum og hins vegar er færni í fræðilegri ritun aukin með mismunandi ritunarverkefnum til að efla eigin námsaðferðir og námsvenjur, nákvæmni í formlegri málnotkun og orðavali, og til að aðstoða nemandann við að þjálfa sína rödd í textagerð. Greint verður frá því hvernig er leitast við á námskeiðinu að aðstoða nemendur til að takast á við kröfur náms og eigin væntinga með því að þjálfa textavitund þeirra á formlegri ensku, efla hæfni þeirra til að beita akademískum rithefðum við textasmíð með eflingu sjálfstrausts (sjálfsmats) og raddar í huga.