Textílrannsóknir ─ sjálfbærni, nýsköpun, skólamál og útgáfa: Seinni hluti

Kl. 10:10-11:40

Rannsóknarstofa í textíl

Ásdís Jóelsdóttir

Um bókina ÍSLENSKIR VETTLINGAR

Guðrún Hannele Henttinen, verslunareigandi og textílkennari, Storkinum

Kveikjan að rannsókn og innihaldi bókar er áhugi höfundar á vettlingum um árabil enda hefur hann kennt vettlingaprjón og safnað vettlingum. Eftirspurn hafði einnig aukist eftir vettlingauppskriftum á íslensku og þá helst af hefðbundnum vettlingum. Vettlingaprjón er og hefur verið vinsæl iðja á Íslandi. Víða á minjasöfnum um land allt leynast vettlingar sem marga hefur langað til að prjóna. Það lá því beint við að gera einhverjar af þessum gersemum aðgengilegar. Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi varð fyrir valinu sökum mikils vettlingaúrvals, enda er að finna vettlinga þar frá fyrri öld sem Halldóra Bjarnadóttir safnaði, auk þess sem safninu hafa borist ýmsir vettlingar víða að frá stofnun þess. Fyrirfram hugmyndir okkar um hvernig íslenskir vettlingar líta út gætu tengst því hvaða uppskriftir eru aðgengilegar hverju sinni. Fjölbreytileiki íslenskra vettlinga endurspeglast í bókinni þar sem leitast er við að sýna þá breidd með vali á ólíkum mynstrum og mismunandi útfærslum á hluta vettlinga; þumlum, stofnum, stroffum og totum. Tuttugu og fimm vettlingapör voru talin út, teiknuð upp og löguð að nýrri prjónfestu. Mynstrin og saga þeirra er einn vinkill þegar vettlingarnir eru skoðaðir og er saga þeirra rakin, ef hún er þekkt. Einnig var lögð áhersla á að skilgreina orðanotkun um vettlingaprjón á íslensku og í því samhengi kom sér vel nýútgefið íðorðasafn um prjón frá Íðorðanefnd um hannyrðir. Í erindinu verður fjallað um rannsóknina og fjölbreytileika hefðbundinna íslenskra vettlinga; ólík mynstur, útfærslur og nálgun í prjóni og verður stuðst við ljósmyndir af vettlingum sem koma fyrir í bókinni.

 

Námsefni í þjóðbúningagerð fyrir unglingastigið

Sigrún Óskarsdóttir, meistaranemi og kennari, MVS HÍ

Leiðbeinandi: Ásdís Jóelsdóttir, lektor, MVS HÍ

Þjóðlegar gersemar er námsefni í þjóðbúningagerð fyrir nemendur á unglingastigi. Markmiðið er að kynna fyrir nemendum handverk og gerð íslenskra þjóðbúninga sem mikilvægan lið í að varðveita íslenskan menningararf. Tilgangurinn er að gera nemendum kleift að búa til eigin þjóðbúning á persónulegan og skapandi hátt sem þeir geta nýtt í nokkur ár, en líka sem hvatning til að sauma eða eignast síðar nýjan búning með þeim gildandi aðferðum og leikni sem viðgengst. Rannsóknarverkefnið var unnið sem sjálfstætt verkefni í list- og verkgreinum til MT-gráðu á meistarastigi undir leiðsögn leiðbeinanda. Rannsóknin byggir á B.Ed.-verkefni höfundar þar sem gerð var frumtillaga að verkefnahefti. Í þeirri rannsókn voru útfærð ný snið í þremur stærðum af upphlutsbol á stúlkur og vesti á drengi og við þá vinnu var notast við eldri snið og lýsingar. Sniðin eru í þremur stærðum og í fullri stærð til að auðvelda vinnuferlið. Einnig voru saumaðar frumgerðir af upphlut, svuntu og pilsi, vesti og skotthúfu. Gerðar voru tilraunir með saumtækni til að einfalda vinnuferlið sem byggt er á handverksþekkingu frá fyrri tíð. Megináherslan í nýjum hluta rannsóknar eru breytingar á skipulagi og uppröðun innihalds, nýjar textaleiðbeiningar og í staðinn fyrir ljósmyndir af vinnuferlinu hefur höfundur handteiknað útskýringarmyndir. Markmiðið er að gera verkefnin aðgengilegri og viðráðanlegri til kennslu í textílmennt á unglingastigi. Í erindinu er fjallað um uppbygginguna á námsefninu og hvernig mögulegt er að skapa þekkingu, virðingu, löngun og vilja til þess að viðhalda hefðinni með því að aðlaga og færa menningararfinn á verklegan hátt til yngri kynslóða.

 

Sjálfbærar og umhverfisvænar textílaðferðir – kennsluverkefni í textíl

Kristína Berman, meistaranemi, MVS HÍ

Leiðbeinandi: Ásdís Jóelsdóttir, lektor, MVS HÍ

Rannsóknarverkefnið er stutt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og var unnið sumarið 2021 af flytjanda, meistaranema á MVS við HÍ, í samstarfi við Grunnskóla Fjallabyggðar og Menntaskólann á Tröllaskaga. Markmið rannsóknarinnar er að fá yfirsýn yfir þær fjölbreyttu umhverfisvænu og sjálfbæru textílaðferðir sem hægt er að nýta í náttúrunni á Tröllaskaga til að lita og færa mynstur yfir á efni. Einnig er markmiðið að sannreyna og prófa aðferðirnar á staðnum, athuga hvernig aðferðirnar ganga í raun og hversu kennsluvænar þær reynast. Umfang verkefnisins er heimildasöfnun, rannsókn á vettvangi, hráefnasöfnun, tilraunavinna og úrvinnsla. Rannsóknin verður gerð með það fyrir augum að þróa kennsluverkefni fyrir nemendur með áherslu á sjálfbærar textílaðferðir og nýta til þess efnivið úr nærumhverfi þeirra. Textílaðferðir og -tækni víða að úr heiminum verða skoðaðar og aðlagaðar að rannsóknarsvæðinu og náttúrulegu umhverfi þess. Kennsluverkefnið er í takt við aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla og sérsniðið að nærumhverfi skólanna sem rannsóknin nær yfir. Gildi verkefnisins felst helst í að taka saman upplýsingar sem geta nýst kennurum við textílkennslu ungs fólks, sem auka meðvitund nemenda um siðferði í textílframleiðslu og hvetur þá meðal annars til umhugsunar um ábyrga og sjálfbæra neyslu og framleiðslu. Leitað verður álits kennara í sveitarfélaginu á því hvernig niðurstöður verkefnisins gætu gagnast í skólastarfi þeirra við úrvinnslu rannsóknarinnar. Í erindinu verður fjallað um rannsóknarferlið og rýnt í niðurstöður.

 

Þráðhyggja

Berglind Ósk Hlynsdóttir, fatahönnuður og Sólveig Hansdóttir, fatahönnuður

Þráðhyggja er verkefni, stutt af Nýsköpunarsjóði námsmanna, sem snýst um að lengja líftíma textíls með endurnýtingu og endurvinnslu. Verkefnið er unnið undir leiðsögn Evu Maríu Árnadóttur (LHÍ) og Elsu Arnardóttur (Textílmiðstöð Íslands). Markmiðið við endurgerðina er að nota þekktar frumvinnsluaðferðir eins og að kemba og spinna, ásamt að kanna aðrar og nýjar leiðir við efnisgerð. Ónýtt efni eða garn, sem fallið hafa til við gerð fatnaðar eða sem lokið hafa upprunalegu hlutverki sínu, verða klippt niður eða rakin upp, þ.e. „af-ofin“ eða „af-prjónuð“. Markmiðið er að vinna áfram með hráefnið í upprunalega eða nýja þræði. Úr þráðunum verða notaðar þekktar jafnt sem óþekktar leiðir til þess að skapa ný efni í nýrri mynd. Niðurstöður verkefnisins verða tíu tillögur að nothæfum efniseiningum sem nýta má áfram í mismunandi vörur innan fata- og textílframleiðslu. Í erindinu verður gerð grein fyrir ferli og aðferðum, sýndar efnisprufur og fjallað um möguleika á notkun þeirra í nýjar afurðir.

 

Sjálfbærni í textíl – neysla, nýting og nýsköpun

Ásdís Jóelsdóttir, lektor, MVS HÍ

Eftir að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru innleidd um sjálfbæra þróun er enn meiri þörf á þátttöku almennings í aðgerðum gegn umhverfismengun. Markmiðið með rannsóknarverkefninu, sem hófst árið 2019, var að ná utan um þá helstu þætti sem textílgreinin hefur upp á að bjóða í slíkum aðgerðum og niðurstaðan nú færð yfir í bókarform. Með aðferðum kennslufræðinnar er sýnt fram á að grunnþekking í textílaðferðum og -fræðum sé mikilvæg leið til að virkja hugsun í verki gegn sóun og mengun frá textílheiminum. Bókin skiptist í þrjá hluta: Neysla, Nýting og Nýsköpun. Í fyrsta hlutanum er fylgt eftir ferli endurhugsunar, það að ekki sé hægt að takast á við vandann nema að þekkja til sögunnar og þeirrar offramleiðslu og ofneyslu sem mótað hafa þær aðstæður sem við lifum nú við. Í næsta hluta er hugað að grunnþekkingu í ýmsum textílaðferðum til að takast á þær aðgerðir sem notaðar eru til að endurbæta og endurnota tilbúnar textílafurðir sem þegar eru til staðar. Í þriðja hlutanum eru tekin fyrir næstu skref sem eru að endurvirkja efni frá textílafurðum. Til þess eru nýttar aðferðir endurnýtingar, hönnunar og nýsköpunar – að endurhanna eða búa til eitthvað alveg nýtt úr notuðu með nýtt útlit og notagildi í huga. Niðurstöður sýna að Neysla í merkingunni endurhugsun, Nýting í merkingunni endurnotkun og Nýsköpun í merkingunni endurnýting hafa mikilvæga tengingu sem umhverfisvænar aðgerðir sem stuðlað geta að breyttu neyslumynstri og sjálfbærum lífsstíl. Í erindinu verður rætt nánar um uppbyggingu á innihaldi bókarinnar og samtengingu fyrrnefndra þátta.