Leikur, styðjandi samskipti og lærdómssamfélag – Menntastefna Reykjavíkur

Kl. 10:10-11:40

RannUng (Rannsóknarstofa í menntunarfræðum ungra barna)

Margrét S. Björnsdóttir

Samstarfsrannsókn í reykvískum leikskólum

Sara Margrét Ólafsdóttir, lektor, MVS HÍ; Arna H. Jónsdóttir, dósent, MVS HÍ; Hrönn Pálmadóttir, dósent, MVS HÍ; Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, dósent, MVS HÍ; Kristín Karlsdóttir, dósent, MVS HÍ og Margrét S. Björnsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ

Fjallað verður um samstarfsrannsóknina Leikur, styðjandi samskipti og lærdómssamfélag sem unnin var í samstarfi RannUng og fjögurra leikskóla og er liður í framkvæmd nýrrar menntastefnu Reykjavíkur. Markmiðið er að efla fagmennsku deildarstjóra og annars starfsfólks leikskólanna. Tilgangurinn er að ná fram markmiðum nýrrar menntastefnu Reykjavíkur um læsi, sjálfseflingu, skapandi hugsun, félagsfærni og heilbrigði barna. Einnig að styrkja leikskólana sem lærdómssamfélag þar sem litið er á börn sem virka þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Þátttakendur völdu viðfangsefni og þróuðu starf í leikskólunum út frá þáttum menntastefnunnar með megináherslu á nám í gegnum leik og styðjandi samskipti. Við framkvæmd rannsóknarinnar prófuðu þátttakendur sig áfram með nýjungar og þróuðu starfið, en greint verður frá framkvæmdinni í hverjum leikskóla fyrir sig. Þrátt fyrir að val á áherslum hafi samhljóm þá voru farnar ólíkar leiðir í breytingaferlinu enda hver leikskóli einstakur hvað varðar reynslu og mannauð. Ígrundun á starfsháttum átti sér stað í takt við þær áherslur sem hver leikskóli valdi. Gagnasöfnun fór fram á öllum stigum samstarfsrannsóknarinnar, til dæmis upptökur af fundum, viðtöl, myndbands- og ljósmyndaskráningar, vettvangsathuganir og rannsóknardagbækur. Í gegnum rannsóknarferlið fólst stuðningur RannUng við þátttakendur aðallega í heimsóknum í leikskólana þar sem haldnir voru fyrirlestrar á vettvangi, gerðar athuganir, tekin viðtöl og fundað með þátttakendum. RannUng hefur mikla reynslu í að framkvæma samstarfsrannsóknir en í þessari samstarfsrannsókn, eins og öðrum, þá hefur þátttakan leitt til breytinga í leikskólunum. Áskorun fólst í að skipuleggja ferlið sem átti sér stað, þar sem máli skipti að hlusta á rödd hvers þátttakanda en jafnframt að móta sameiginleg markmið.

 

Félagsfærni og skráningar á leik barna í Reynisholti

Aðalheiður Stefánsdóttir, leikskólastjóri, Reynisholti, Inga Rut Ingadóttir, deildarstjóri, Reynisholti og Lísa Ármannsdóttir, deildarstjóri, Reynisholti

Við innleiðingu menntastefnunnar ákvað Reynisholt að byrja á félagsfærni og beina sjónum að leik barna. Markmiðið var að nýta uppeldisfræðilegar skráningar á leik barna til að meta félagsfærni þeirra og til umræðu meðal starfsfólks um gildi leiks og félagsfærni í leikskóla. Nýttir voru gátlistar um félagsfærni og sjálfsmynd barna ásamt skráningum og fundargerðum. Gefinn var ríkulegur tími til samræðu meðal starfsfólks til að efla sameiginlega sýn hópsins. Helstu niðurstöður voru að skráningar gáfu miklar upplýsingar um stöðu barna. Þær voru einnig hvetjandi verkfæri til umræðu fyrir starfsmannahópinn um það leikumhverfi sem við búum börnum og þann stuðning sem starfsfólk veitir þeim í leik. Ásamt skráningum voru nýttar félagsfærnisögur og kyrrðarstundarkörfur til að efla vellíðan og aðstoða börn við samskipti í leik. Haldið hefur verið áfram með að festa þessar áherslur enn frekar í sessi í leikskólanum.

 

Hlutverk deildarstjóra í innleiðingu menntastefnu í Stakkaborg

Jónína Einarsdóttir, leikskólastjóri, Stakkaborg og Andrea Sigurjónsdóttir, deildarstjóri, Stakkaborg

Í upphafi á innleiðingu menntastefnunnar var ákveðið að vinna með tvo þætti hennar, þ.e. félagsfærni og sköpun. Nýttir voru skráningarlistar menntastefnunnar til að staðsetja hvar starf leikskólans í þessum þáttum væri statt og fóru fram umræður á deildarfundum. Okkar nálgun í þessari rannsókn var að dýpka hlutverk og starf deildarstjórans við innleiðingu stefnunnar. Við höfum fengið stuðning frá Rannung til þess með tengilið við verkefnið sem kemur, fylgist með, kemur á deildarfundi og handleiðir deildarstjóra. Starfsfólk hefur verið ánægt með aðkomu tengiliðs og hefur þetta styrkt starfsfólk í tjáningu um þau verkefni sem það vinnur að í starfi sínu með börnunum. Þróun hefur orðið í skráningu á starfinu í tengslum við gerð ferilmappa, Vináttuverkefni Barnaheilla dýpkað og aðferðir Hugarfrelsis teknar inn sem hluti af félagsfærninni. Verkefnið hefur styrkt deildarstjóra í leiðbeiningarhlutverkinu gagnvart öðru starfsfólki og verið valdeflandi. Næsta vetur stefnum við á að halda áfram á þessari braut, að styðja við deildarstjóra í starfi og hvernig næsti þáttur menntastefnunnar getur tengst inn í starfið. Að deildarstjórar fái handleiðslu og svigrúm til að vinna að því með hvaða hætti er best að vekja áhuga starfsfólks á þáttum menntastefnunnar og hvernig deildarstjórinn geti stutt starfsfólkið við að innleiða stefnuna inn í sitt daglega starf með börnunum.

 

Sjálfsefling barna í Tjörn

Hulda Ásgeirsdóttir, leikskólastjóri, Tjörn, Helga Ingimarsdóttir, leikskólakennari, Tjörn, María Worms, deildarstjóri, Tjörn

Haustið 2018 bauðst okkur að taka þátt í verkefni á vegum RannUng við innleiðingu nýrrar menntastefnu. Markmiðið með verkefninu var að styðja við deildarstjóra og allt starfsfólk við innleiðingu nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar. Í sameiningu völdum við sjálfseflingu sem okkar viðfangsefni. Markmiðið með sjálfseflingunni er að styðja og styrkja börnin til sjálfsbjargar í daglegu starfi. Einnig að þau kynnist sínum eigin styrkleikum, læri að axla ábyrgð á sjálfum sér og séu meiri þátttakendur í daglegu starfi. Verkefnið hefur sameinað starfsmannahópinn sem er í tveimur aðskildum húsum og verið rauði þráðurinn í öllu okkar starfi. Á starfsmannafundum, fagfundum og starfsdögum höfum við unnið að sameiginlegri sýn okkar og ígrundað okkar starf út frá sjálfseflingu. Raddir barnanna hafa fengið meira vægi og lýðræði tekið meira inn í starfið. Má þar til dæmis nefna kosningar sem börnin hafa gengið til með kjörklefa og öðru tilheyrandi. Haustið 2020 hófst vinna við ferilmöppur, hefur sú vinna farið vel af stað, fallið vel inn í starf okkar og verið mikill stuðningur við skráningar.

 

Að efla lærdómssamfélag í Ægisborg út frá sjálfseflingu og félagsfærni

María Halldóra Jónsdóttir, deildarstjóri, leikskólanum Ægisborg og Diljá Agnarsdóttir, leikskólanum Ægisborg

Hér er sagt frá starfendarannsókn sem unnin er í leikskólanum Ægisborg. Markmiðið var að innleiða menntastefnu Reykjavíkurborgar. Ákveðið var að leggja áherslu á sjálfseflingu í Ægisborg sem er einn af grunnþáttum menntastefnunnar. Starfsfólk Ægisborgar hefur átt í samstarfi við fyrirtækið KVAN með það að markmiði að efla börnin og starfsfólkið. Starfsfólk hefur fengið fræðslu um samvinnuleiki með börnum og matstæki um stöðu barna innan barnahópsins. Samskipti starfsfólks við einstök börn hafa verið fest í sessi í starfi á deildum. Einstaklingarnir eru jafn ólíkir og þeir eru margir og við leitumst við að mæta þeim öllum, hverjum á sínum stað, og styðja þá til að vera bestu útgáfan af sjálfum sér. Markmiðið var jafnframt að efla lærdómssamfélag í leikskólanum og horfa á leikrými barna, samskipti og flæði í öllu starfi leikskólans. Ýmsar leiðir hafa verið farnar til að vinna með sjálfseflingu, t.d. komum við upp matsal í skólanum sem hefur heldur betur slegið í gegn hjá börnum, starfsfólki og foreldrum. Áhersla var lögð á að börnin yrðu sjálfbjarga að mestu og að þau fyndu fyrir stolti yfir eigin getu. Niðurstöður starfendarannsóknarinnar verða nýttar til að þróa starfið í Ægisborg enn frekar, með áherslu á sjálfseflingu barna og fullorðinna.