Framhaldsskólinn 

Kl. 12:00-13:30

Súsanna Margrét Gestsdóttir

Félagsleg og efnahagsleg staða nemenda og brotthvarf úr námi

Ingibjörg Jónsdóttir Kolka, doktorsnemi, MVS HÍ og Kolbeinn Stefánsson, dósent, FVS HÍ 

Markmið rannsóknarinnar er að skoða tengsl félagslegrar og efnahagslegrar stöðu ungs fólks og brotthvarfs úr námi. Annars vegar verða megindleg gögn greind til að lýsa þessum tengslum og hins vegar verða eigindleg gögn notuð til að sýna hvað býr að baki þessum tölum. Þar er um að ræða lífssöguleg viðtöl við fólk sem fékk tækifæri til að fara aftur í nám í kjölfar atvinnuleysis. Þetta átak var samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins og ríkisins til að bregðast við atvinnuleysi í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Megindlegu gögnin eru skráargögn frá Hagstofu Íslands sem spanna tvo árganga, fædda 1995 og 1996, og innihalda ýmsar upplýsingar um félagslega og efnahagslega stöðu þeirra og fjölskyldna þeirra sem varpa ljósi á samband félagslegar og efnahagslegrar stöðu við brotthvarf úr námi. Í viðtölunum var áhersla lögð á upplifun þátttakenda af framhaldsskólanámi sínu og skólasögur þeirra. Notuð er þemagreining til að greina viðtölin. Kenningum Bourdieus er beitt til þess að skoða hvernig menntun (sem menningarlegt auðmagn og lífssöguleg reynsla) getur mótað sjálfsmynd fólks og lífssögu þess í samspili við félagslega og efnahagslega stöðu þess. Frumniðurstöður úr greiningu viðtalanna gefa til kynna að þessi stuðningur til að fara aftur í nám hafi haft afdrifarík áhrif á þátttakendurna, sérstaklega lífsgæði þeirra og væntingar um framtíðina. Hann breytti einnig samskiptum þeirra við aðra og síðast en ekki síst væntingum annarra fjölskyldumeðlima til framtíðarinnar. Viðtölin sýna hvernig lífssaga fullorðins fólks getur tekið jákvæðum breytingum þegar því er gefinn kostur á að sækja sér menntun.  

 

Stjórnendur í hringiðu breytinga, innleiðing nýrrar menntastefnu í þremur rótgrónum framhaldsskólum

Alma Oddgeirsdóttir, brautarstjóri, Menntaskólanum á Akureyri og Inga Jóna Jónsdóttir, dósent, FVS HÍ 

Á árunum 2008 til 2011 voru gerðar miklar breytingar á lögum og námskrám íslenskra framhaldsskóla. Í því samhengi voru markmið þessarar rannsóknar að fá innsýn í aðgerðir á stjórnsýslustigi við undirbúning og framkvæmd meiriháttar breytinga á stefnu stjórnvalda, að kynnast því hvernig gekk að útfæra og undirbúa breytingarnar í völdum framhaldsskólum og skoða reynslu og lærdóm stjórnenda viðkomandi skóla þann tíma sem breytingaferlið átti sér stað. Rannsóknin er eigindleg tilviksrannsókn. Gagna var aflað með átta hálfopnum einstaklingsviðtölum. Þrjú viðtöl voru tekin við aðila á stjórnsýslustiginu og fimm við stjórnendur sem tóku þátt í breytingaferlinu í framhaldsskólunum. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um að innleiðing stjórnvalda á nýrri menntastefnu hafi ekki gengið sem skyldi. Margar ástæður geta legið þar að baki og fyrstar má telja efnahagshrun og úrelta kjarasamninga. Þrátt fyrir kynningar á lögunum í framhaldsskólum landsins virðist sem hugmyndafræði þeirra og andi hafi ekki náð til allra kennara. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að forsvarsfólki breytinganna í framhaldsskólunum hafi ekki tekist að sannfæra alla kennarana um að vinna að útfærslu laganna og undirbúningi að innleiðingu þeirra í skólunum. Ýmis atriði gætu hafa haft þar áhrif svo sem skortur á fjármagni, dreifstýringaráhersla laganna, sem og sterkar hefðir og tilhneiging til að viðhalda óbreyttu ástandi. Þær upplýsingar sem fram koma í rannsókninni eru óbeint framlag til þeirra breytinga sem eiga eftir að eiga sér stað í menntakerfinu og framhaldsskólum landsins í nálægri framtíð. Viðamiklar breytingar eiga sér sífellt stað og mikilvægt er að líta til baka og læra af reynslunni. 

 

Sögukennsla í framhaldsskólum: Notkun greiningartækis í kennaramenntun

Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor, MVS HÍ  

Í þessu erindi er fjallað um greiningartækið Teach-HTR sem greinir kennslu sögulegrar hugsunar og rökleiðslu (e. historical thinking and reasoning, hér eftir HTR). Sjö hollenskir meistaranemar í sögukennslu notuðu tækið til að glöggva sig á hvað felst í henni, en það kann að vera allt frá því að spyrja sögulegra spurninga til þess að leiðbeina nemendum ítarlega um leiðir við HTR. Þeir notuðu tækið við undirbúning og kennslu einnar kennslustundar sem félagi þeirra horfði á en einnig til að greina kennslustundir hver hjá öðrum. Nemarnir svöruðu spurningalistum á undan og eftir, bæði til að veita yfirsýn um hugmyndir þeirra um kennslu HTR og hvernig þeir mátu getu sína til að kenna hana (e. Task value and self-efficacy). Prógrammið stóð yfir í þrjá mánuði og fengu kennaranemarnir jafnframt þjálfun í kennslu HTR hjá kennara sínum. Stuðst var við The Interconnected Model of Professional Growth til að greina möguleg áhrif prógrammsins á nemana. Í ljós kom að greina mátti nokkra breytingu á hinu svokallaða persónulega sviði hjá nemunum en hugmyndir þeirra um gildi þess að kenna HTR, sem þeir töldu mikilvægt frá upphafi, breyttust ekki. Nemarnir töldu greiningartækið afar gagnlegt, bæði til að auka skilning á kennslu HTR og til að aðstoða við framkvæmd hennar. Greiningartækið Teach-HTR var meðal annars þróað með því að rannsaka sögukennslu á framhaldsskólastigi á Íslandi. Niðurstöður eru mikilvægt framlag til rannsókna á fræðasviði sem ekki hefur verið gefinn mikill gaumur hérlendis til þessa.