Bíbí í Berlín: Fötlunarfræði og einsaga mætast

Kl. 13:40-15:10

Bíbí í Berlín: Fötlunarfræði og einsaga – Nýtt fræðilegt sjónarhorn

Guðrún V. Stefánsdóttir

Bíbí í Berlín uppfrædd og fermd

Guðrún V. Stefánsdóttir, prófessor, MVS HÍ

Bíbí hét fullu nafni Bjargey Kristjánsdóttir (f. 1927, d. 1999) en hún var kennd við kotbæ foreldra sinna sem hét Berlín og var staðsettur rétt fyrir utan Hofsós. Hún þótti bráðgert barn en veiktist á fyrsta ári og var síðar merkt sem „fáviti“ af fjölskyldu sinni og sveitungum. Bíbí var fædd á þeim tíma sem fötluðu fólki og fjölskyldum þess stóð engin opinber þjónusta til boða. Hún naut ekki formlegrar skólagöngu, var sett til hliðar á heimilinu og var falin fyrir gestum og gangandi. Komið var í veg fyrir að hún gengi í skóla en uppfræðslu fékk hún í kringum ferminguna. Bíbí skyldi eftir sig umfangsmikla sjálfsævisögu sem hún skrifaði í einrúmi, hélt leyndri fyrir fjölskyldu sinni og samferðafólki og fáir vissu um tilvist hennar. Sjálfsævisaga hennar ber vott um góða greind og innsæi í líf sitt og aðstæður og kemur að flestum tímabilum í lífshlaupi hennar. Í erindinu verður sérstaklega einblínt á barnæsku Bíbíar, uppfræðslu hennar og fermingu. Auk þess verður fjallað um aðdraganda og aðferðafræði rannsóknarinnar á sjálfsævisögu Bíbíar. Þá verður rætt um með hvaða hætti sjálfsævisaga hennar birtist sem andsaga við ríkjandi opinbera stefnu og hugmyndir um fatlað fólk í samfélaginu fyrr og nú. Í greiningu á sjálfsævisögu Bíbíar verða tvinnaðar saman aðferðir tveggja fræðasviða, þ.e. fötlunarfræði og einsögu í þeim tilgangi að skapa nýja gagnrýna hugsun og umræðu um fatlað fólk í sögu og samfélagi.

 

Samvinnurannsókn um Bíbí í Berlín

Helena Gunnarsdóttir, meistaranemi, MVS HÍ og Guðrún V. Stefánsdóttir, prófessor, MVS HÍ

Hluti af rannsóknarverkefninu Bíbí í Berlín felst í samvinnurannsókn (e. inclusive research). Samvinnurannsóknir með fólki með þroskahömlun litu fyrst dagsins ljós á níunda áratug 20. aldar en þær hafa blómstrað síðan, sérstaklega í Bretlandi. Það sem einkennir þær er náin rannsóknarsamvinna fólks með þroskahömlun og fræðimanna/kvenna á jafnréttisgrundvelli og virk þátttaka þess í öllu rannsóknarferlinu. Þátttakendur í samvinnurannsókninni sem hér um ræðir eru fimm konur með þroskahömlun en þeirra hlutverk er í samvinnu við ófatlaða rannsakendur að greina sögu Bíbíar. Með því að fá fram raddir kvennanna og sjónarhorn á sögu Bíbíar er tilgangurinn að skapa dýpri þekkingu og skilning á lífi hennar og aðstæðum. Ætla má að konurnar eigi auðveldara með að setja sig í spor Bíbíar og túlka aðstæður hennar en ófatlaðir fræðimenn/konur. Auk þess þjónar þessi hluti rannsóknarinnar þeim tilgangi að draga fram lærdóma af sögu Bíbíar og yfirfæra á stöðu kvenna með þroskahömlun í nútímanum. Í erindinu verður gefið yfirlit yfir samvinnurannsóknir með fólki með þroskahömlun, fjallað um þróun þeirra og stöðu nú á dögum. Auk þess verður greint frá með hvaða hætti fyrirhugað er að beita aðferðum samvinnurannsókna í rannsóknarverkefninu Bíbí í Berlín.

 

„Ein saga, ein manneskja“ – Mikilvægi einsögulegra rannsókna fyrir fötlunarfræðirannsóknir

Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor, HUG HÍ

Í fyrri verkum mínum hef ég til leiks fræðilegan ramma sem kallast einvæðing sögunnar (e. singularization of history) með því að gagnrýna hvernig félags-, menningar- og einsögufræðingar hafa iðkað fræðimennsku sína síðustu tvo eða þrjá áratugina. Ég lagði sérstaklega áherslu á einn þátt sem er sameiginlegur fræðilegri stefnumörkun allra einsögufræðinga, þ.e. tengslin milli hins smáa og stóra. Einsögufræðingar leggja áherslu á mikilvægi þess að setja litlar einingar rannsókna í stærra samhengi. Ég hafna þessari rannsóknarleið og hef bent á eðlislægar mótsagnir hennar. Ég hvet sagnfræðinga til að klippa naflastrenginn sem bindur þá við það sem stundum er kallað „stórar sögulegar spurningar“. Áskorun erindisins verður að íhuga hvort þessi rannsóknaráhersla útiloki sögulega greiningu sem beinist aðeins að einni manneskju, aðeins að einni sögu. Áherslan verður á að kanna hvort og hvernig hægt er að vinna með eina sjálfsævisögu sem byggir á lífi manneskju sem var að stærstum hluta hornreka í íslensku samfélagi. Spurningin er: Hvaða viðmiðum er best að beita við slíka greiningu og hvernig er hægt að tengja einsögu og fötlunarfræði til að ná því markmiði?