Aðalfyrirlestur

Háskóli Íslands

2. október kl. 12:30 til 13:30

Þroskaþjálfafræði á krossgötum: Gamlar og nýjar áskoranir

Guðrún V. Stefánsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands

Til að mæta kröfum hvers tíma og þeirri öru þróun sem orðið hefur á hugmyndastraumum í málefnum fatlaðs fólks hefur menntun þroskaþjálfa tekið margvíslegum breytingum allt frá því að fyrstu nemendurnir útskrifuðust úr Gæslusystraskóla Íslands (síðar Þroskaþjálfaskóla Íslands) árið 1960 og fram til dagsins í dag. Oft hefur námið staðið á krossgötum, nú síðast þegar það var lengt úr þremur árum í fjögur en í aðdraganda þess fór fram mikil endurskoðun á náminu sem enn stendur yfir. Frá upphafi hafa farið fram líflegar umræður og skoðanaskipti um nám og hlutverk þroskaþjálfa og mörg og ólík sjónarmið hafa komið fram um hvert skuli stefna. Það sem hefur þó sameinað þessi sjónarmið er samstaða með fötluðu fólki og baráttu þess fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Í erindinu verður sjónum beint að gömlum og nýjum áskorunum í námi þroskaþjálfa. Hvaða stefnur og straumar í málefnum fatlaðs fólks hafa verið stærstu áhrifavaldar? Hvað einkennir fræðasviðið, hverjar eru helstu áskoranir um þessar mundir og hver er framtíðarsýnin? Með hvaða hætti birtast áhrif þroskaþjálfafræða á Menntavísindasviði og í samfélagi án aðgreiningar?

Þátttakendur í pallborði:

  • Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar
  • Ruth Jörgensdóttir Rauterberg, aðjúnkt við Háskóla Íslands
  • Laufey Elísabet Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélag Íslands
  • Hanna Kristín Sigurðardóttir, þroskaþjálfi

Fundarstjóri verður Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, forseti Deildar menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands.

Erindi Guðrúnar verður táknmálstúlkað og streymt. Að erindi loknu verða málstofur á netinu sem helgaðar verða viðfangsefnum þroskaþjálfa.

Málstofur

Alþjóðlegur dagur þroskaþjálfa

2. október ár hvert er Alþjóðlegur dagur þroskaþjálfa

Þroskaþjálfar starfa á öllum sviðum mannlífsins með það að leiðarljósi að styðja og efla samfélagslega þátttöku fatlaðs fólks og gæta hagsmuna þess. Mannréttindi og mannréttindabarátta er kjölfestan í störfum þeirra sem og fjölbreytilegar leiðir við að aðstoða og efla sjálfstætt líf fólks í samfélagi fyrir alla. Íslendingar eiga því láni að fagna að hér á landi hefur vaxið og dafnað öflug fagstétt þroskaþjálfa sem hefur stuðlað að mikilvægri þróun í málefnum fatlaðs fólks á Íslandi.

Menntun þroskaþjálfa hefur tekið miklum breytingum í  áranna rás. Þroskaþjálfaskóli Íslands varð til árið 1971 þegar að starfsheitið þroskaþjálfi varð til, en áður höfðu þær konur sem störfuðu með fötluðu fólki verið kallaðar „gæslusystur“.  Þroskaþjálfaskóli Íslands sameinaðist Kennaraháskóla Íslands árið 1998 og færðist námið þar með á háskólastig. Rétt er að taka fram að þroskaþjálfun er lögverndað starf og tekur nám þroskaþjálfa mið af lögum um heilbrigðisstarfsmenn (nr. 34/2012) og reglugerð um menntun, réttindi og skyldur þroskaþjálfa (nr. 1120/2012). Í dag er þroskaþjálfafræði ein af mörgum námsleiðum sem boðið er upp á við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Um er að ræða fjögurra ára nám sem miðar að því að nemendur öðlist sérfræðiþekkingu og hæfni til þess að veita fjölbreytilega þjónustu og ráðgjöf. Meðal kennslugreina í náminu eru þroskaþjálfafræði, fötlunarfræði, félagsfræði, þroskasálfræði og siðfræði. Starfsvettvangur þroskaþjálfa er mjög fjölbreyttur og má þar nefna skólastofnanir og félags- og tómstundastarf ásamt þjónustu og ráðgjöf á öllum sviðum samfélagsins.  Auknar kröfur um sérfræðiþekkingu, þjálfun og sjálfstæði þroskaþjálfa í starfi urðu til þess að árið 2017 var ákveðið að lengja námið úr þremur árum í fjögur. Samhliða því var lögð áhersla á að efla tengingu við fagvettvang með auknu starfsnámi, styrkja umfjöllun um mannréttindi og horfa til þess að starfsvettvangur þroskaþjálfa hefur orðið víðtækari. Á síðustu árum hefur aðsókn í námið vaxið jafnt og þétt.