Viska í nútímamenntun

Háskóli Íslands

Viska í nútímamenntun

1. október kl. 10:45 til 12:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Menntun og hugmyndasaga

Gunnar E. Finnbogason

Hefur viskan dagað uppi? Um visku, heimsmyndir og menntun

Jón Ásgeir Kalmansson, aðjúnkt, MVS, HÍ

Orðið viska virðist bera með sér framandi andrúmsloft, líkt og það tilheyri liðnum tíma og heimi. Margir eru því feimnir við að nota orðið nú til dags og kjósa fremur að tala um upplýsingar, þekkingu, skilning, dómgreind, innsæi, og svo framvegis – orð sem virðast auðskildari og falla betur að rökvísi nútíma þjóðfélags. Í fyrirlestrinum ræði ég um merkingu viskuhugtaksins og þá heimsmynd sem það er sprottið úr. Einkum staldra ég við tengingu viskunnar við hið guðlega og við þá afstöðu að veruleikinn hafi þýðingu og dýpt sem mannleg skynsemi getur ekki botnað til fulls. Ég spyr hvort tími slíkrar afstöðu til veruleikans sé liðinn og hvort viskan hafi þar með dagað uppi eins og tröllin og önnur forneskja. Ég ræði hugmyndir nokkurra nútíma heimspekinga sem enn taka viskuna og heimsmyndina sem henni tilheyrir alvarlega. Loks ræði ég um tengsl visku og menntunar í skólakerfi nútímans.

Hvað er viska? Er hún mikilvæg nú á dögum?

Gunnar E. Finnbogason, prófessor, MVS, HÍ

Viskuhugtakið er gamalt og ekki mikið notað nú á dögum. Frekar er talað um innsæi eða hyggindi. Aldrei áður hefur einstaklingurinn haft meiri möguleika á að móta líf sitt og þess vegna er viska mikilvæg. Kröfur um aðlögunarhæfni, sveigjanleika og hæfni til skjótra breytinga eru hátt skrifaðir eiginleikar, bæði í atvinnulífinu og almennt í samfélaginu. Til að geta mætt þessum kröfum er mikilvægt að hafa innsæi og visku til að bregðast við óvæntum og ólíkum aðstæðum í lífinu. Viskuhugtakið inniheldur þætti af mannlegu innsæi og næman skilning á mikilvægi þess að læra af öðrum, láta sig varða, hlusta á aðra og getu til að skoða hlutina frá mörgum hliðum. Auk þess að hafa þekkingu hefur vitur manneskja hæfni til að geta lesið milli raðanna og aðgang að dulinni þekkingu (s. tyst kunskap) þ.e.a.s. innsæi sem erfitt er að læra af námsbókum. Í fyrirlestrinum verður fjallað um viskuhugtakið og reynt að tengja það við nám, meðal annars í skóla. Einnig verður reynt að svara því hvers vegna viska er mikilvæg í samfélaginu nú á dögum. Niðurstaðan er sú að viska er flókið samspil reynslu, lífssýnar og siðferðisstyrks einstaklings sem hægt er að læra og þjálfa.

Er hægt að kenna stjórnvisku og gott viðskiptasiðferði? Um samspil miðlunar, visku og fyrirtækjamenningar

Ásgeir Brynjar Torfason, sjálfstæður rannsakandi

Þekkingu verður ekki að fullu miðlað bóklega eða í gegnum vefmiðla. Kennsla er flóknari og henni verður í vissum tilvikum að miðla án orða en með því að deila reynslu eða upplifun (e. tacit knowledge). Algeng dæmi um þetta er oft að finna í verklegu námi, eins og að hnoða deig, en stundum vill mikilvægi visku og miðlunar reynslu án beinna orða gleymast í námi sem ekki telst verklegt. Í þessari rannsókn á stjórnvisku er meðal annars borin saman reynsla af að kenna viðskiptasiðfræði og samfélagsábyrgð fyrirtækja út frá nútímalegum og fjölbreyttum kennsluháttum við hefðbundna og vefbundna miðlun námskeiða í viðskiptasiðfræði samkvæmt viðmiði viðskiptaháskóla frá því um aldamót. Þá jókst áhersla á kennslu viðskiptasiðfræði án nægjanlegs árangurs á næstu tveimur áratugum. Nýverið hefur orðið áherslubreyting utan kennslustofunnar meðal annars hjá hringborði forkólfa stórfyrirtækja á vegum hins bandaríska viðskiptaráðs og árlegu alþjóðlegu efnahagsráðstefnunni í Davos þar sem kallað er eftir minni áherslu á hámörkun hagnaðar og meiri áherslu á raunverulega virðissköpun og nýjan sáttmála fyrirtækja. Viska í viðskiptalífinu er lykilhugtak í þessu sambandi og það hvernig henni verður miðlað þannig að þekkingin flytjist úr raundæmum í raunverulegar aðstæður viðskiptafræðinema eftir útskrift. Það kallar á könnun viðhorfa og hegðunar í viðskiptalífinu með áherslu á samfélagslega og umhverfislega ábyrgð auk góðra stjórnarhátta og siðlegrar breytni í viðskiptum. Niðurstöðurnar tengjast samspilinu milli kennslu og veruleikans utan kennslustofunnar, það er hvernig megi álykta að lærdómur úr siðfræði með miðlun upplýsinga og reynslu geti aukið áherslu á visku og ósagða þekkingu.