Virkni val og skyldur foreldra í íslensku menntakerfi: Foreldrahópar á jaðrinum

Háskóli Íslands

Virkni val og skyldur foreldra í íslensku menntakerfi: Foreldrahópar á jaðrinum

1. október kl. 13:45 til 15:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

RannMennt og RannKyn

Berglind Rós Magnúsdóttir

Rannsóknastofurnar RannMennt og RannKyn efna til málstofuraðar í þremur lotum sem fjallar um foreldrahlutverkið í gagnrýnu ljósi. Við spyrjum meðal annars hvaða félaglegu öfl móta sýn Íslendinga á hið hæfa foreldri og ekki síst hina hæfu móður. Málstofa 1 og 2 fjalla um foreldrahlutverkið í tengslum við skólakerfið. Spurt er m.a. hvaða foreldrar eru virkir í skólavali? Hverjir velja sér einkaskóla og á hvaða forsendum? Hvaða foreldrar eru minna sýnilegir og virkir í foreldrastarfi og skólagöngu barna sinna og af hverju? Hvernig mótar það stöðu foreldris gagnvart skóla að vera með stutta skólagöngu og lágar tekjur? Að vera án ríkisfangs eða koma frá fjarlægu landi? Hvaða feður takast á við foreldraskyldur sínar a.m.k. til jafns á við mæður gagnvart grunnskólanum, af hverju og hvernig takast þeir á við það? Hvers konar karlmennskuorðræða mótar hugmyndir og gjörðir? Málstofa 3 fjallar um mótun kvenleikans í gegnum móðurhlutverkið og samskipti við valdastofnanir samfélagsins. Hvernig móta hugmyndir um móðurhlutverkið konuna? Hvers konar kona má verða móðir? Má hafna því að verða móðir og jafnvel sjá eftir því? Kynningarnar eru ýmist á íslensku og ensku eftir því hvort ágrip er skrifað á íslensku eða ensku, enda er hópurinn sem að þeim stendur fjölþjóðlegur. Rannsóknirnar eiga það sammerkt að nýta sér gagnrýnin fræði, s.s. fræði sem fást við femínisma, rasisma, stéttisma, samtvinnun, hrifkenningar Söruh Ahmed, kenningar Bourdieu um stétt, og áhrif nýfrjálshyggju á daglegt líf foreldra og barna.

Feður í aðalhlutverki í uppeldis- og skólastarfi barna sinna – Áhrif stéttarstöðu, stéttaruppruna og karlmennskuhugmynda

Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent, MVS, HÍ og Unnur Edda Garðarsdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ

Feður eru sá foreldrahópur sem telst ekki mjög sýnilegur eða virkur í foreldrastarfi grunnskólans þótt breytingar hafi orðið í jákvæða átt á síðustu árum. Í rannsókninni Virkni, val og skyldur foreldra á íslenskum menntavettvangi kemur fram mikil kynjaslagsíða í lýsingum mæðra og feðra á foreldrasamfélagi skólanna. Þessi ólaunaða ástarvinna hefur lengst af verið órjúfanlegur þáttur af móðurhlutverkinu þar sem millistéttarmóðirin hefur gjarnan verið viðmiðið. Í þessu erindi er sjónum sérstaklega beint að feðrum sem skilgreindu sig a.m.k. jafn virka í uppeldi og skólun barnsins á yngri og miðstigum grunnskólans og lagt upp úr því að ná til allra stétta. 12 djúpviðtöl voru þema- og orðræðugreind ásamt stöðluðum spurningalista. Helmingur er hvítflibbar með háskólamenntun, tveir með iðnmenntun og fjórir með styttra nám að baki. Tekjudreifing er allt frá því að vera undir lágtekjumörkum yfir í meira en milljón á mánuði. Tveir þeirra eru einstæðir feður. Mest afgerandi munur varðandi virðingu og samskipti við stofnanir og „kerfið“ markaðist af núverandi stéttarstöðu og stéttaruppruna. Millistéttin ber virðingu fyrir kerfinu og gerir sér far um að gangast undir orðræðuna um „hinn virka föður“. Foreldravinna feðra virðist kynjaðri meðal lægri stéttar og karlmennskuhugmyndir íhaldssamari. Veruháttur margra þeirra markast af erfiðum uppeldisaðstæðum. Eigin reynsla af skólagöngu hefur áhrif á þátttöku þeirra í skólagöngu barna sinna. Þeir tala um mikil átök við „kerfið“ og fá sínu framgengt með ákveðni, reiði og ögrun sem að einhverju leyti er svörun við jaðarsetningu þeirra í skólanum og samfélaginu.

Parents of Arabic, African and Asian origin: Significance of migrant capital, whiteness, and class when entering the Icelandic school community

Eva Harðardóttir, PhD student, SE, UI, Elizabeth Lay, PhD student, SE, UI and Berglind Rós Magnúsdóttir, associate professor, SE, UI

People with immigrant or refugee status in Iceland are part of a young migrant population of mostly first generation young individuals or families. Schools thus include students and parents who possess different sets of experiences and realities, yet must continuously engage within a normative construct, such as ethnic minorities in a largely homogenous country. We extend Bourdieu’s theory of social field and capital to explore citizenship beyond national borders in order to understand the complexities of migrants’ experiences. Rather than problematizing their resources as either compatible or non-compatible, we study the transformative social position of migrant parents within the educational field. The data is part of two larger ongoing research projects on parents, migration and education in Iceland (IPP and IPIC), including narratives from 17 parents; 6 mothers and 4 fathers, from the Middle East with refugee status, 4 Southeast Asian immigrants, and 3 African immigrant parents. Findings indicate that parents have high expectations for their children’s education despite varying experiences with the Icelandic education system due to their ethnic origin, gender roles, social status, or understanding of global educational systems. They also vary in how they activate their institutional and embodied cultural capital, revealing how well they are able to “play the game” within the field of education, or what happens when the social capital within one group does not transfer into the field of education. Critical and global citizenship must, therefore, underpin a transformative model of education inclusive of different and relational perspectives aiming towards social justice.

Reynsla lágtekjumæðra af pólskum uppruna af foreldrastarfi í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu: Stétt, félags- og þverþjóðlegur auður

Joanna Ewa Dominiczak, grunnskólakennari, MVS, HÍ og Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent, MVS, HÍ 

Innflytjendur af pólskum uppruna eru stærsti hópur innflytjendaforeldra hér á landi en þrátt fyrir það hefur lítið sem ekkert verið fjallað um stöðu þeirra innan íslenska skólakerfisins. Hér verður skoðað hvernig reynsla pólskra lágtekjumæðra er af íslensku skólastarfi og hvernig stéttarstaða, náms- og félagsleg staða barnsins og þverþjóðlegur auður (e. migrant capital) mæðranna hefur áhrif á þátttöku þeirra og sýn á íslenska skólakerfið. Niðurstöðurnar eru skoðaðar í ljósi erlendra rannsókna á afdrifum pólskra innflytjenda í menntakerfum Norður-Evrópu. Erindið er byggt á sex eigindlegum djúpviðtölum og stöðluðum spurningalista þar sem m.a. var skoðað hvernig þær skilgreina sig í stétt, hvernig þær skilgreina stöðu sína í íslensku samfélagi og hversu mikið val þær höfðu um búsetu og skóla fyrir börnin. Viðmælendur skilgreindu sig sem lægri stétt eða lægri millistétt með einni undantekningu. Virkni þeirra í skólastarfinu einskorðast við foreldraviðtöl og sérstaka viðburði skólans, engin þeirra er í foreldrafélaginu. Þegar um er að ræða sérþarfir barnsins er virkni og frumkvæði að samskiptum við skólann meiri. Val á skóla tengist búsetu eða sérþörfum barnsins, svipaða niðurstöðu er að finna í rannsóknum frá Bretlandi og Noregi. Mæðurnar eru jákvæðar í garð einkarekinna skóla en benda á ójafnræði í aðgengi. Þverþjóðlegur auður móðurinnar hefur jákvæð áhrif á viðhorf til skólans og á stöðu barnsins. Félagsauður barnsins hefur jákvæð áhrif á móðurina og tengir hana betur við skólann og skólasamfélagið. Með þessari rannsókn er ætlast að hægt verði að gera skólastarf, foreldrasamstarf, skipulag og samskipti innan skólakerfisins hérlendis sem aðgengilegast fyrir alla hópa.

Lægri stéttar mæður af íslenskum uppruna: Bernskureynsla, virkni og þátttaka í skólagöngu barnsins

Björk Alfreðsdóttir, meistaranemi, MVS, HÍ og Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Almennt er það talið sjálfsagður og eðlilegur hluti af uppeldishlutverki mæðra að sinna uppeldi og menntun barna sinna. Á sama hátt er það viðurkennt að feður séu á hliðarlínunni. Rannsóknin byggir á átta hálfopnum viðtölum við mæður af lægri stétt sem búa allar á höfuðborgarsvæðinu. Börn mæðranna eru á yngsta eða miðstigi grunnskóla og helmingur þeirra er í þörf fyrir sérstakan stuðning við námið. Niðurstöður úr greiningu gagna leiðir í ljós að allar mæðurnar bera meginábyrgð á menntun barna sinna en þær hafa allar skilið við barnsfeður sína. Allar eru í aukavinnu og/eða skóla nema þær sem eru með örorku eða í endurhæfingu. Áherslur mæðra er á að þeirra eigin börn gangi menntaveginn og verði ekki í sömu stöðu og þær sjálfar. Þrátt fyrir það eru þær seinar til að hafa frumkvæði að samskiptum við kennara barna sinna, sérstaklega ef vel gengur. Námslegir erfiðleikar hafa mikil áhrif á fjölskyldulífið og ýta undir virkni og kröfur mæðranna gagnvart skólanum. Flestar þeirra telja að þær skeri sig úr gagnvart öðrum foreldrum vegna lítillar menntunar, búsetu og atvinnu. Veruháttur sem hluti af sögu mæðra og sá menningar- og tilfinningaauður sem þær fengu í æsku mótar sýn á hlutverk þeirra sem uppalanda. Talsvert bar á móðurskömm (e. mother shame) meðal þeirra vegna stöðu þeirra sjálfra eða barna þeirra sem uppfylla ekki viðmið samfélagsins um hegðun, stöðu eða árangur.