Velferð, samstarf og réttlæti 

Kl. 12:00-13:30

Berglind Rós Magnúsdóttir

Kynjuð fjármál til að stuðla að kynja+ jafnrétti í grunnskólum

Finnborg S. Steinþórsdóttir, nýdoktor, FVS HÍ og Freyja Barkardóttir, MA í kynjafræði 

Á vettvangi grunnskóla eru fjölmörg tækifæri til að stuðla að kynja+ jafnrétti. Kynjuð fjármál (e. gender budgeting) eru aðferð til að breyta stefnum, áætlunum og fjárhagslegum ákvörðunum til að standast skuldbindingar í jafnréttismálum. Kynjuð fjármál hafa verið innleidd á ólíkum stjórnsýslustigum hér á landi og víða erlendis, en aðferðafræðin hefur hingað til ekki verið þróuð á sviði grunnskóla. Framkvæmd var rannsókn í samstarfi við Reykjavíkurborg og þrjá grunnskóla Reykjavíkurborgar á árunum 2019 og 2020 með það að markmiði að þróa aðferðafræði kynjaðra fjármála í grunnskólum. Rannsóknin byggir á fyrirliggjandi fræðilegri þekkingu á jafnréttismálum grunnskóla á Íslandi, fyrirliggjandi gögnum Reykjavíkurborgar og samstarfsskólanna sem snúa að stefnumótun, fjárhagslegum ákvörðunum, skipulagi og starfsemi. Jafnframt voru tekin átta hálfstöðluð viðtöl við fulltrúa skóla- og frístundasviðs og stjórnendur og starfsfólk samstarfsskólanna. Gögn rannsóknarinnar voru greind með innihaldsgreiningu, en sérstök áhersla var á kynja- og jafnréttissjónarmið og tækifæri til að stuðla að kynjajafnrétti. Rannsóknin leiddi í ljós fjölmörg tækifæri til að stuðla að jafnrétti í skólasamfélaginu og er lagt til að skólayfirvöld innleiði stefnumiðuð kynjuð fjármál (e. policy-based gender budgeting). Með þeim hætti er fjármunum og öðrum gæðum forgangsraðað í aðgerðir sem stuðla að jafnrétti, félagslegu réttlæti og jöfnuði. 

 

Hin útvöldu ungmenni í þéttbýla Norðrinu – Framhaldsskólaval í Reykjavík og Helsinki

Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor, MVS HÍ og Sonja Kosunen, dósent, Háskólinn í Helsinki 

Stúdentsprófið hefur tekið breytingum á undanförnum áratugum að því marki að mun fleirum er ætlað ljúka því á tilskildum tíma og sækja háskólanám á hinum ýmsu sviðum. Þótt framhaldsskólastofnunum hafi fjölgað mikið er bitist um sætin í vinsælustu skólunum. Hér er sjónarhornið á þá framhaldsskólanemendur í Reykjavík og Helsinki sem hreppa sæti í þeim skólum sem voru vinsælastir þegar nemendur sóttu um framhaldsskólavist. Annars vegar skoðum við vettvanginn, þ.e. leikreglur hans í hvorri borg fyrir sig og hvað það er sem einkennir þá skóla sem þykja eftirsóknarverðastir meðal þeirra nemenda sem hafa mest menntunarauðmagn, hvernig nemendur upplifa valferlið og námskrána í skólunum, og hvernig nemendur líta á sjálfa sig og framtíð sína. Rannsóknin er byggð á hugtökum Bourdieu um gagnvirk tengsl milli veruháttar og vettvangs og hvernig hugmyndir um gæði skóla mótast af stétttengdum menningarvenjum. Rannsóknin er innan samanburðarmenntunarfræða og byggir á eigindlegri tilviksathugun í hvoru landi fyrir sig. Greiningin byggir aðallega á einstaklings-djúpviðtölum (n=20) við nemendur sem eru við það að ljúka stúdentsprófi (17-20 ára) árið 2017 frá þeim skólum (2+2) sem taka til sín nemendur með að meðaltali hæstu einkunnirnar úr árganginum. Niðurstöðurnar varpa ljósi á að skólarnir í borgunum tveimur eru líkir varðandi sögu og gildi en svokallað bekkjakerfi er ekki til í finnsku skólunum. Nemendur höfðu jafnframt nokkuð svipaðan uppruna, veruhátt og framtíðarhugmyndir. Veruleg spurning er engu að síður hvort rétt sé að skilgreina þessa skóla sem elítuskóla og verður það rætt í fyrirlestrinum.