Velfarnaður í uppeldi og skólastarfi

Háskóli Íslands

Velfarnaður í uppeldi og skólastarfi

2. október kl. 15.30 til 17.00 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Velfarnaður í uppeldi og menntun

Ingibjörg Kaldalóns

„Menntaumhverfi til vaxtar einstaklingsins“: Starfshættir í grunnskóla sem styður við sjálfræði nemenda

Ingibjörg Kaldalóns, lektor, MVS, HÍ

Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á starfshætti í grunnskóla sem hefur m.a. að faglegu leiðarljósi að styðja sjálfræði nemenda og kanna hver upplifun nemenda skólans er af slíkum starfsháttum. Sjálfræði er grundvöllur sjálfstjórnar, áhuga og velfarnaðar í námi, samkvæmt sjálfsákvörðunarkenningum sem mynda fræðilegan grunn rannsóknarinnar. Rannsóknir í íslenskum grunnskólum á stuðningi við sjálfræði eru fátíðar, en rannsókn frá 2015 sýnir að stuðningur við sjálfræði er víða lítill. Hér er sagt frá tilviksrannsókn í 8.–10. bekk í grunnskólanum NÚ sem fór fram vorið 2018 og 2019. Gerð var vettvangsathugun fimm skóladaga vorið 2018 og svo aftur vorið 2019, tekin þrjú rýnihópaviðtöl við 12 nemendur og átta einstaklingsviðtöl við starfsfólk. Einnig var unnið úr gögnum sem eru hluti af sjálfsmati skólans. Niðurstöður sýndu hvernig formgerð sem styður sérstaklega við sjálfræði nemenda er í stöðugri þróun. Til dæmis var hannað hvatakerfi sem umbunar nemendum fyrir verkefnaskil og góða framkomu, með auknu frelsi. Nemendur fengu þannig meira frelsi en almennt tíðkast en innri agi reyndist meiri. Vendinám, leiðsagnarmat og upplýsingatækni gegndu lykilhlutverki við að halda utan um nám og verkefnaskil hvers nemenda. Áhersla á persónulegan vöxt og félagsfærni var samtvinnuð öllu skólastarfinu. Nemendur skólans töldu að skólavistin efldi sjálfstæði þeirra, þeim fannst gaman í skólanum og fundu tilgang með námi sínu við skólann. Margt má læra af starfsháttum skóla þar sem stöðugt er verið að þróa námsskipulag sem styður vöxt og sjálfræði nemenda sinna. Það eru starfshættir sem skila sér í ánægðum nemendum sem hafa jafnframt þroskað með sér hæfni til að bera ábyrgð á námi sínu.

„Tilfinningalæsið mitt“: Náms- og kennsluefni í félags og tilfinninganámi

Arnbjörg Jóhannsdóttir, grunnskólakennari, Álfhólsskóli, Íris Ellenberger, lektor, MVS, HÍ og Ingibjörg Kaldalóns, lektor, MVS, HÍ

Í erindinu verður fjallað um námsefnið Tilfinningalæsið mitt sem er gagnvirk rafbók, unnin sem meistaraverkefni á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Meginmarkmið verkefnisins er þróun rafræns námsefnis sem hefur þann tilgang að efla tilfinningalæsi barna á skilvirkan hátt. Rannsóknir hafa sýnt að aukning hefur orðið á depurð íslenskra skólabarna. Í nýlegri skýrslu frá Embætti landlæknis kemur fram að það þarf að styrkja og efla kennslu í félags- og tilfinningafærni á öllum skólastigum til að börn og ungmenni öðlist leikni á þessu sviði. Kennslu í félags- og tilfinningafærni hefur fyrst og fremst verið sinnt í lífsleikni. Námsgreininni er ætlað að sinna mörgum ólíkum viðfangsefnum en rannsóknir sýna að hún fær takmarkaðan sess í skólastarfi. Því er mikilvægt að kennarar hafi aðgang að námsefni sem gerir kennsluna markvissa. Námsefnið Tilfinningalæsið mitt nýtist í þeim tilgangi. Farið verður yfir fræðilegan bakgrunn námsefnisins. Í því skyni verður fjallað um hugtökin tilfinningagreind og félags- og tilfinninganám, og hvers vegna ákveðið var að beina sjónum að tilfinningalæsi við námsefnisgerðina. Fjallað verður um uppbyggingu námsefnisins, þar sem farið verður yfir hvers lags verkefni nemendur eru beðnir um að kljást við í þeim tilgangi að efla tilfinningalæsi þeirra. Sömuleiðis er útskýrt hvernig hægt er að nýta þær kennsluleiðbeiningar sem fylgja námsefninu og þau álitamál sem gott er að hafa í huga við kennslu slíks efnis. Erindið mun þannig varpa ljósi á nýja leið sem hægt er að fara við að efla félags- og tilfinningafærni nemenda í íslenskum grunnskólum.

Heildræn innleiðing núvitundar í skólastarf – áhrif á kennara og nemendur

Bryndís Jóna Jónsdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ og Anna Dóra Frostadóttir, sálfræðingur, Núvitundarsetrið

Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skoða áhrif núvitundarþjálfunar fyrir kennara og nemendur. Sterkur rannsóknargrunnur erlendis hefur sýnt fram á fjölþættan ávinning markvissrar núvitundarþjálfunar í skólastarfi. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar hérlendis á þessu viðfangsefni en í þessari megindlegu rannsókn voru skoðuð áhrif núvitundarþjálfunar á líðan, almenna stýrifærni, seiglu, sjálfstiltrú, samkennd í eigin garð ásamt núvitundarfærni kennara og nemenda. Stuðst var við hentugleikaúrtak sem náði til fimm grunnskóla, þriggja tilraunaskóla og tveggja samanburðarskóla, samtals 161 kennara og 465 nemenda. Rannsóknin stóð yfir frá janúar 2018 til janúar 2020 en sjálfsmatslistar voru lagðir fjórum sinnum fyrir alla kennara skólanna sem samþykktu þátttöku sem og nemendur tveggja árganga, fædda 2005 og 2006. Fyrstu niðurstöður benda til jákvæðra áhrifa núvitundarþjálfunar fyrir kennara og nemendur. Niðurstöður rannsókna tveimur árum eftir inngrip sýna fram á marktækan mun á aukningu á vellíðan, samkennd í eigin garð og sjálfstiltrú í kennslu ásamt lækkun í streitu hjá kennurum í tilraunaskólum miðað við samanburðarskólana. Niðurstöður árangursmælinga fyrir nemendur í tilraunaskólum sýndu aukningu í samkennd í eigin garð strax eftir inngrip miðað við samanburðarskóla en ekki mældist marktækur munur í eftirfylgnimælingu ári síðar. Þá sýndu niðurstöður marktækan mun í skólatengdri líðan hjá nemendum í tilraunaskólum samanborið við samanburðarskólana. Draga má þá ályktun út frá þessum niðurstöðum að núvitundarþjálfun geti haft jákvæð áhrif á líðan hjá kennurum og nemendum. Skoða þarf betur hvernig hægt er að efla áhrif núvitundarþjálfunar á nemendur og hvernig hægt er að viðhalda og hlúa að þeim ávinningi sem kom fram hjá kennarahópnum.

„Ég held ég hafi bara ekki vitað hvað hamingja var, áður en þau fæddust“: Upplifun íslenskra feðra af hamingju

Pála Margrét Gunnarsdóttir, aðjúnkt, MVS, HÍ, Ingibjörg Kaldalóns, lektor, MVS, HÍ og Hrund Þórarins Ingudóttir, lektor, MVS, HÍ

Lítið er um rannsóknir á hvernig það að eiga börn hefur áhrif á hamingju feðra. Markmið rannsóknarinnar er því að öðlast aukinn skilning á hvernig feður upplifa hamingju í tengslum við að eignast og eiga börn. Fyrirbærafræðilegri nálgun var beitt, þar sem tekin voru opin viðtöl við níu íslenska feður. Þeir áttu tvö til þrjú börn 13 ára og yngri og bjuggu allir með barnsmóður sinni. Sjónum var beint að skilningi feðranna af hamingju út frá fjórum kenningum um hamingju: Ánægjukenningum, sáttarkenningum, sjálfsákvörðunarkenningu um farsæld og sálrænar grunnþarfir og kenningu sem fjallar um hamingju út frá auknum lífstilgangi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að upplifun feðranna af hamingju út frá þessum fjórum hamingjukenningum breyttist eftir að þeir eignuðust börn. Hamingjan í lífi þeirra fór að einkennast af auknum lífstilgangi og farsæld, en minna af vellíðan og ánægju. Feðurnir töluðu um að hamingjan væri innihaldsríkari eftir að þeir eignuðust börn og að nú lifðu þeir meðvitaðra lífi, með vellíðan barnanna að leiðarljósi. Á heildina litið eru feðurnir ánægðir með líf sitt og telja börn sín eiga stóran þátt í því. Þó lífið með börnunum sé krefjandi virðist það engu skipta í samanburði við þá gleði og hamingju sem börnin veita þeim. Ekki er vitað til þess að hamingja feðra hafi verið rannsökuð með þessum hætti áður. Rannsóknin er því mikilvægt framlag til rannsókna á hamingjunni innan jákvæðrar sálfræði sem og rannsókna á upplifun feðra af hlutverki sínu.