Valdaójafnvægi

Háskóli Íslands

Valdaójafnvægi

2. október kl. 10:45 til 12:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

#MeToo í sviðslistum og íþróttum; mörk í nánu rými

Ingólfur V. Gíslason, prófessor, FVS, HÍ og Ásta Jóhannsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Fátt hefur valdið jafnmiklu umróti í samfélaginu síðustu tvö til þrjú ár og reynslusögur kvenna af kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi sem birtar voru undir merkjum #MeToo. Á Íslandi hófst umræðan fyrir alvöru í nóvember 2017 þegar fyrstu sögur hópa kvenna birtust opinberlega. Sumir hópar kölluðu eftir breytingum með almennu orðalagi en aðrir lögðu fram skýrar kröfur um aðgerðir. Tilgangur rannsóknar okkar var að kortleggja þessar kröfur og viðbrögðin við þeim til að reyna að meta árangur þessarar samfélagslegu hreyfingar. Til þess að þrengja viðfangsefnið ræddum við eingöngu við íþróttakonur, konur í sviðslistum og áhrifafólk tengt þessum tveimur hópum. Við notuðum hálfstaðlaða viðtalsramma og báðum viðmælendur að segja okkur hvort eitthvað hefði breyst í daglegum störfum þeirra eftir #MeToo, eitthvað sem væri ekki endilega tengt formlegum breytingum. Meginniðurstöður eru þær að formlegar breytingar urðu hvað íþróttahreyfinguna varðar en ekki sviðslistirnar. Viðmælendur okkar voru þó sammála um að breytingar hefðu orðið á hegðun og framkomu. Fleira væri rætt en áður og frekar tekið strax á óviðeigandi framkomu. Sértækari niðurstöður eru þær að þessir tveir hópar eiga það sameiginlegt að einstaklingar eiga mikið undir valdamiklum einstaklingum, þjálfurum eða leikstjórum komið, sem hefur í för með sér mikið valdaójafnvægi. Eins er návígið mikið, starfsvettvangur er lítill og fólk þekkist vel. Hluti af námi, þjálfun og starfi þeirra felst einnig oft í að færa til mörk og þenja sig til hins ítrasta undir leiðsögn. Þá getur verið erfitt að átta sig á hvenær slíkt þróast yfir í misnotkun valds.

Tengsl kyns, prófsviðs og starfs innan og utan akademíu við launaþróun doktorsmenntaðra á Íslandi

Maya Staub, doktorsnemi, FVS, HÍ, Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, lektor, HA og doktorsnemi, FVS, HÍ og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor, FVS, HÍ

Á síðustu árum hefur fjöldi þeirra sem lýkur doktorsprófi aukist í hinum vestræna heimi. Hlutfall kvenna sem lýkur doktorsprófi hefur einnig verið í stöðugum vexti. Ísland er engin undantekning þar á. Því hefur verið haldið fram að aukin menntun kvenna sé lykilatriði í að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og afnema kynbundinn launamun. Þrátt fyrir það hafa fáar rannsóknir verið gerðar á tengslum doktorsprófs við launaþróun kynjanna. Tilgangur: Launaþróun doktorsmenntaðra Íslendinga sem starfa hér á landi var rannsakaður með hliðsjón af kyni (kona eða karl), prófsviði, þ.e. hvort þau væru menntuð innan STEM (raunvísindi, tæknifræði, verkfræði og stærðfræði) eða SSH (hug- og félagsvísindum) og starfsvettvangs, þ.e. hvort þau ynnu innan eða utan akademíunnar.

Aðferðir: Launagögn Hagstofu Íslands frá árunum 1997–2017 voru greind og sjónum var beint að einstaklingum með 5–20 ára gamalt doktorspróf. Með aðhvarfsgreiningu voru tengsl kyns, áðurnefndra prófsviða og starfsvettvangs greind með hliðsjón af launaþróun hinna doktorsmenntuðu. Niðurstöður: Þrátt fyrir orðspor Íslands sem „jafnréttisparadísar“ sýna niðurstöðurnar fram á viðvarandi kynbundinn launamun meðal doktorsmenntaðra einstaklinga á því 20 ára tímabili sem til skoðunar var. Launamunur kynjanna var mestur meðal þeirra sem unnu utan akademíunnar, einkum á sviðum sem tengjast hagfræði, viðskiptafræði og lögfræði. Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að doktorspróf eitt og sér auki ekki tekjumátt kvenna nægilega til þess að afnema launamun kynjanna og gildir það sérstaklega um störf utan akademíunnar.

Utangátta: Upplifanir samkynhneigðra af fræðslu og ráðgjöf í skólum

Freydís Jóna Freysteinsdóttir, dósent, FVS, HÍ

Í þessu erindi verður fjallað um niðurstöður eigindlegrar rannsóknar um reynslu samkynhneigðra af fræðslu um samkynhneigð í skólum og ráðgjöf. Markmiðið með rannsókninni var þó mun víðtækara en það fól í sér að kanna upplifanir samkynhneigðra af eigin kynhneigð, því að koma út úr skápnum og af fordómum. Tekin voru viðtöl við 39 samkynhneigða einstaklinga af báðum kynjum og á mismunandi aldri. Afar fáir þátttakendur sögðust hafa fengið einhverja fræðslu um kynlíf og samkynhneigð í skóla. Í þeim tilfellum sem fræðsla hafði verið veitt, töldu þátttakendur hana hafa verið afar takmarkaða og afmarkast nánast einungis við kynlíf. Þeir sögðu lítið sem ekkert hafa verið fjallað um samkynhneigð. Mismunandi var hversu góða upplifun þátttakendur höfðu af ráðgjöf í skólum og á öðrum vettvangi. Sumir þátttakendanna höfðu jákvæða reynslu af ráðgjöf en aðrir höfðu neikvæða reynslu og voru dæmi um að þátttakendur hefðu orðið fyrir fordómum af hálfu þeirra fagaðila sem höfðu veitt þeim ráðgjöfina. Flestir þátttakendur höfðu upplifað erfiðleika tengda því að vera frábrugðnir flestum öðrum er varðar kynhneigð og höfðu jafnvel þurft að glíma við eigin fordóma og vanlíðan. Því er afar mikilvægt að í skólakerfinu sé til staðar öflug fræðsla um kynlíf og samkynhneigð, sem og fjölbreytileika yfirleitt er varðar kyn og kynhneigð, með það að markmiði að draga úr fordómum. Einnig er mikilvægt að samkynhneigðir nemendur hafi aðgang að faglegri ráðgjöf til þess að takast á við þá tilfinningu að upplifa sig öðruvísi og frábrugðna norminu.