Tvítyngd börn – Málþroski og málörvun

Háskóli Íslands

Tvítyngd börn – Málþroski og málörvun

2. október kl. 10:45 til 12:15 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsókna- og fræðslustofa um þroska, læsi og líðan barna og ungmenna

Sigríður Ólafsdóttir

Efling málþroska tvítyngdra leikskólabarna

Jóhanna Runólfsdóttir, leikskólakennari, MVS, HÍ, Sigríður Ólafsdóttir, lektor, MVS, HÍ og Jóhanna Thelma Einarsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Góð færni í íslensku skiptir sköpum fyrir velgengni barna í námi á Íslandi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að íslensk börn á leikskólaaldri sem eiga annað móðurmál en íslensku ná litlum framförum í íslensku og að íslenskufærni þeirra er mun minni en barna sem hafa íslensku sem móðurmál. Í þessari rannsókn voru könnuð viðhorf leikskólastarfsmanna til málörvunar barna með annað móðurmál en íslensku. Beitt var megindlegum rannsóknaraðferðum og var rafrænn spurningalisti sendur til allra starfsmanna leikskóla í Sveitarfélaginu Árborg sem sinna uppeldi og menntun. Niðurstöður sýndu að yfir 90% þátttakenda töldu samskipti og málörvun með áherslu á íslenskan orðaforða mikilvæga þætti í málörvun barna sem eiga annað móðurmál en íslensku. Að auki taldi meirihluti þátttakenda að mikilvægt væri að börnin fengju málörvun í móðurmáli sínu í leikskólanum. Rúmur helmingur þátttakenda hafði lítið faglegt sjálfstraust varðandi málörvun barnanna og meira en helmingur taldi sig ekki geta stutt börnin við að efla íslenskufærni sína eins og þeir helst vildu. Tæplega helmingur þátttakenda með leikskólakennaramenntun á háskólastigi taldi sig ekki hafa fengið nægan undirbúning í leikskólakennaranáminu til að sinna málörvun í íslensku hjá þessum barnahópi. Í niðurstöðum má sjá ákveðið stefnuleysi og óöryggi meðal starfsmanna leikskólanna. Niðurstöður benda til þess að leita þurfi leiða til að starfsfólk leikskóla sé samtaka og betur upplýst um hvaða þættir skipta sköpum í málörvun barna sem eiga ekki íslensku sem móðurmál. Þá þarf starfsfólk að vera meðvitað um að málörvun í móðurmáli barnanna ætti, samkvæmt rannsóknum, ekki að vera áhersluatriði.

Kennsla nemenda með annað móðurmál en íslensku: Rýnt í aðferðir og áherslur grunnskólakennara á yngsta stigi

Erla Rún Jónsdóttir, grunnskólakennari, MVS, HÍ, Sigríður Ólafsdóttir, lektor, MVS, HÍ og Berglind Gísladóttir, lektor, MVS, HÍ

Rannsóknir sýna að nemendur með annað móðurmál en íslensku taka litlum framförum í íslensku milli ára, frá leikskóla og í gegnum allan grunnskólann. Mikill munur er því á íslenskufærni þeirra og jafnaldra sem eiga íslensku að móðurmáli og hefur bilið tilhneigingu til að aukast með ári hverju. Í fjórða bekk grunnskólans byrjar námið að þyngjast verulega og þá fyrst fer að reyna verulega á góða íslenskufærni. Mikilvægt er að beina sjónum nánar að því hvað getur valdið því að börn sem dvelja meginhluta dagsins alla virka daga vikunnar í íslensku skólakerfi ná ekki tökum á íslensku. Rannsóknin hafði það meginmarkmið að fá innsýn í áherslur, reynslu og viðhorf kennara á yngsta stigi grunnskóla sem kenna nemendum sem eiga annað móðurmál en íslensku og hvernig þeir telja sig undirbúna til að sinna þessum nemendahóp. Rafrænn spurningalisti var sendur á starfandi umsjónarkennara og sérkennara á yngsta stigi grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Helstu niðurstöður voru að 70% þátttakenda töldu sig ná að sinna námslegum þörfum nemenda sem eiga annað móðurmál en íslensku. Helstu hindranir hinna voru tímaskortur, lítið námsefni við hæfi og að lítið væri um stuðning inni í bekk. Einungis 6,8% þátttakenda töldu námið hafa undirbúið þá frekar vel undir þessa kennslu en enginn mjög vel. Þeir þættir sem þátttakendur lögðu mesta áherslu á í kennslu þessa nemendahóps voru markviss íslenskukennsla og orðaforði. Þá sagði meirihluti þátttakenda mikilvægt að kennarar hefðu færni til að veita börnunum stuðning í móðurmáli þeirra. Það að meirihluti þátttakenda telji sig mæta námslegum þörfum nemendanna gefur ástæðu til að ætla að þeir geri sér ekki grein fyrir því að nemendurnir þurfa meiri stuðning í íslensku til að ná velgengni í námi, miðað við niðurstöður rannsókna um almennt hægar framfarir í íslensku hjá þessum nemendahópi yfir leik- og grunnskólaárin. Efla þarf þátt kennslu í íslensku sem öðru máli í kennaranámi.

How can we support multilingual preschool-aged children’s acquisition of additional languages?

Kathryn Crowe, post-doctoral researcher, SHS, UI and Jóhanna Thelma Einarsdóttir, associate professor, SE, UI and Þóra Másdóttir, assistant professor, SHS, UI

The challenge of supporting multilingual children in learning the language of the wider community is faced by many education systems around the world. Approximately 12% of children enrolled in pre-primary education in Iceland are exposed to a language other than Icelandic at home. Such children often fail to acquire strong skills in Icelandic and are at risk of significant long-term negative outcomes. While the context of Iceland is unique, the challenges faced are not. This paper presents the results of a detailed, high-quality systematic review which addressed the question: Which strategies described in high quality intervention studies have demonstrated positive outcomes for the speech, language, and/or literacy outcomes of multilingual preschool-aged children with speech and/or language disorders and/or who are at risk of poor speech, language, literacy, and/or educational outcomes? In this presentation we outline what constitutes a ‘high quality intervention study’ in this field, and the importance of evidence-based practices in the education of multilingual children. An overview of the strategies/interventions investigated in the relevant 52 studies that were identified will be presented, with a more detailed discussion of the strategies/interventions and outcomes in the 14 studies that were categorized as being of high-quality.

Íslenskur og enskur framburður unglinga með íslensku sem fyrsta og annað mál

Elín Þöll Þórðardóttir, prófessor, HVS, HÍ og Guðlaugur Hávarðarson, ReykjavíkurAkademían

Flestar rannsóknir á tengslum ílags og tileinkunar annars máls beinast að orðaforða, málfræði og lestri, en ekki að framburði, en framburður er almennt talinn tengjast aldri sterkar en aðrir þættir málsins. Rannsóknin kannaði framburð 58 unglinga með íslensku sem fyrsta (ÍSFT) og annað mál (ÍSAT), á íslensku og ensku. Tólf matsmenn með ÍSFT (18–35 ára) hlustuðu á upplestur þátttakendanna á íslenskum og enskum texta og mátu á skala 1 til 9: 1) hvort lesandinn hefði íslensku sem móðurmál (og ef ekki, hvaðan hann væri), 2) hversu skiljanlegur og 3) hversu öruggur lesturinn væri. Hver þátttakandi var metinn þrisvar, en engir tveir matsmenn mátu sama hóp lesenda eða í sömu röð. Marktækur munur var á hópunum á framburði á íslensku (ANOVA: F(2,55)=11.210, p<.001, ɲ2=.30) en ekki á ensku (p=.226), en báðir hópar voru taldir hafa mun meiri erlendan hreim á ensku en íslensku. Minni en þó marktækur munur var á skiljanleika og öryggi á íslensku. Matsmenn gátu sér almennt ekki rétt til um uppruna þátttakendanna. Fyrir ÍSAT-nema voru sterk tengsl milli lengdar búsetu og íslensks framburðar, en athyglisvert var að mikil skörun var milli hópa – nokkrir nemar með ÍSFT voru taldir vera erlendir af öllum matsmönnum. Framburður helst ekki endilega í hendur við getu í orðaforða og málfræði (orðaforði og samræðuhæfni þátttakendanna á íslensku og ensku voru birt annars staðar), en getur haft mikil áhrif á tækifæri ÍSAT-nema til að nota íslensku þar sem viðmælendur áætla færni í málinu eftir framburði.