Tungumálastefnur og leiðir í skólastarfi: Seinni hluti

Kl. 13:40-15:10

Rannsóknarstofa í fjölmenningar- og fjöltyngisfræðum

Renata Emilsson Pesková

Stöðumat í Sunnulækjarskóla fyrir nemendur af erlendum uppruna

Ragnheiður Gísladóttir, grunnskólakennari, Sunnulækjarskóla á Selfossi

Í Sunnulækjarskóla á Selfossi er til móttökuáætlun fyrir nemendur af erlendum uppruna sem flytja hingað til Íslands. Þetta er áætlun sem skólastjórnendur, ÍSAT-kennari og umsjónarkennari koma að og fylgja eftir. Að flytja í nýtt land fyrir nýkomna nemendur getur reynst mörgum erfitt og flókið og til að geta veitt þeim einstaklingsmiðað nám leggjum við fyrir svokallað stöðumat stuttu eftir að þeir hefja nám við skólann. Stöðumatið kemur frá Menntamálastofnun Svíþjóðar og hefur verið þýtt yfir á íslensku en það fer fram á sterkasta tungumáli nemandans. Stöðumatið er búið að þýða yfir á um 38 tungumál, t.d. ensku, frönsku, arabísku, dari og pólsku en þetta eru örfá dæmi um þau tungumál sem búið er að þýða yfir. Uppbygging stöðumatsins er eftirfarandi: Innritunarviðtal – móttökuáætlun, Stöðumat Stig 1 – fyrri þekking og reynsla, Stöðumat Stig 2 – lestur og lesskilningur og Stöðumat Stig 3 – kunnátta í námsgreinum t.d. stærðfræði. Nemendum af erlendum uppruna þarf að mæta þar sem þeir eru staddir og byggja námið sem mest á fyrri reynslu þeirra og þekkingu. Til að stuðla að góðum námsárangri þarf nám barna að vera samfellt frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla. Stöðumat hjálpar skólum að tryggja samfellu í námi fyrir nýkomna nemendur og að byggja ofan á fyrri menntun og þekkingu þeirra.

 

Málstefna í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkur

Sigrún Jónína Baldursdóttir, kennsluráðgjafi, Miðju máls og læsis, Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og Saga Stephensen, verkefnastýra fjölmenningar fyrir leikskóla, Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar

Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum, svo sem með fjölgun innflytjenda, örri þróun í upplýsingatækni, snjalltækjavæðingu, stórauknu aðgengi að erlendu sjónvarpsefni og aukinni ferðaþjónustu svo eitthvað sé nefnt. Á sama tíma hefur fjöltyngdum börnum í leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarfi fjölgað. Árið 2009 samþykkti Alþingi tillögur íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu sem opinberri stefnu í málefnum íslenskrar tungu. Í málstefnunni er megináhersla lögð á að treysta stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu. Í þessu erindi verður fjallað almennt um málstefnur, mikilvægi þeirra í íslensku skólastarfi og hvernig vinna með málstefnu getur nýst til að styðja við jákvæð viðhorf til tungumála og málumhverfis skóla.

Í íslenskri málstefnu, Íslenska til alls, kemur fram að mikilvægt sé að tryggja stöðu íslenskrar tungu í skólakerfinu. Börn þurfa góðar málfyrirmyndir og stöðuga markvissa málörvun í daglegu skólastarfi. Þá er öflugt foreldrasamstarf lykilatriði í stuðningi við tungumál í umhverfi barna. Málstefna í skólastarfi snýst um málumhverfi í skólastarfinu, meðvitund um málnotkun og viðhorf til tungumála. Tungumálið er tenging við samfélagið og styður við þá tilfinningu að tilheyra hópi eða samfélagi. Í málstefnu Reykjavíkur frá árinu 2017 kemur fram að hjá Reykjavíkurborg sé litið á tungumálakunnáttu sem auðlind. Mikilvægt er að stuðla að virðingu og jákvæðu viðhorfi til fjölbreyttra tungumála samhliða því að styrkja stöðu íslenskunnar í samfélaginu þannig að framtíðarkynslóðir líti á íslensku sem sína eign og auðlind.

 

Skólareynsla fjöltyngdra nemenda í grunnskólum: Tungumálasjálfsmyndir og tungumálaforði þeirra

Renata Emilsson Pesková, aðjúnkt, MVS HÍ

Fjöltyngdum nemendum hefur stöðugt fjölgað í grunnskólum landsins á undanförnum árum en nú eru þar töluð um hundrað tungumál. Markmið rannsóknarinnar var að kanna samspil tungumálaforða fjöltyngdra nemenda og skólareynslu þeirra í íslenskum grunnskólum. Í rannsókninni var sjónarhorn fjöltyngdra nemenda á eigin tungumál skoðað ásamt að leitast var við að varpa ljósi á merkingu og hlutverk tungumálaforða þeirra í félagslegum og námslegum aðstæðum. Einnig var leitað svara við því, að hvaða leyti kennarar þeirra studdust við og byggðu á auðlindum þeirra í námi og hvaða hlutverki tungumálastefnur fjölskyldna gegndu í skólareynslu nemenda. Fjöltyngi nemenda er sífellt virkt og til staðar í lífi þeirra. Það þróast í fjölbreyttum námsrýmum, sérstaklega í kjöraðstæðum þar sem tengsl skapast, upplýsingum er miðlað og samskipti byggjast upp. Þátttakendur voru fimm fjöltyngdir grunnskólanemendur frá Íslandi sem lærðu móðurmál sitt í móðurmálsskólum utan formlega skólakerfisins. Í þessari þverfaglegu fjöltilviksrannsókn var stuðst við eigindlega aðferðafræði. Þemagreining og greining tungumálasjálfsmynda voru notuð. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á mikilvægi allra tungumála nemendanna og þörfina á að í skólum sé byggt á viðeigandi kennslufræði fyrir fjöltyngda nemendur, að unnar séu tungumálastefnur í skólum og samskipti við foreldra séu efld. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að viðurkenna þurfi fjöltyngi nemenda og notkun alls tungumálaforða þeirra í námi og félagslegum aðstæðum. Þannig er stutt við sjálfsmynd nemenda, tilfinningu þeirra um að tilheyra og virka þátttöku. Niðurstöðurnar auka enn fremur skilning á að innflytjendaforeldrar og kennarar deila hlutverki og ábyrgð á að viðhalda og þróa tungumálaforða fjöltyngdra nemenda.