Tungumálakennsla á netinu: Saga, þróun og framtíð

Háskóli Íslands

Tungumálakennsla á netinu: Saga, þróun og framtíð

1. október kl. 9:00 til 10:30 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

RÍM – Rannsóknastofa í máltileinkun

Branislav Bédi

Gildi tækni í kennslu, námi og rannsóknum

Kolbrún Friðriksdóttir, aðjúnkt, HUG, HÍ

Notkun tækni í námi og kennslu felur í sér margvíslega möguleika til menntunar og rannsókna á nemendum, námsefni og áhrifamætti þess. Fjallað verður um nýja rannsókn á notendum og innihaldi Icelandic Online-námsefnisins (IOL) sem hafði það að meginmarkmiði að varpa ljósi á námshegðun nemenda og greina þætti sem hafa áhrif á námsframvindu. Byggt er á blandaðri rannsóknaraðferð þar sem viðfangsefnið er skoðað í ljósi megindlegra og eigindlegra gagna. Með greiningu gagna úr vöktunarkerfi IOL, sem felur í sér rafrænar mælingar á virkni nemenda, er framvindan í heild skoðuð og þá rýnt sérstaklega í brottfallsmynstur þeirra sem ljúka ekki námskeiðum til enda í mismunandi námsumgjörðum (blönduðu námi, fjarnámi, opnu sjálfstýrðu námi). Með spurningakönnun var síðan kallað eftir viðhorfum nemenda til kennslufræðilegra þátta efnisins og stuðnings kennara og áhrif þessara þátta á framvindu rannsökuð; þeirri aðferð var einnig beitt til að afla eigindlegra gagna um ástæður þess að nemendur luku námskeiði eða hættu fyrr. Niðurstöðurnar benda til þess að kennslufræðilegir þættir IOL feli í sér mikilvægan hvata til náms og að sumir þáttanna hafi marktæk áhrif á virkni og framvindu. Auk þess sýna þær fram á mikilvægi stuðnings kennara í netnámi, þá sérstaklega í fjarnámi. Niðurstöðurnar varpa einnig ljósi á margbreytilegan hóp nemenda í slíku námi og ólík markmið þeirra og að ýmsir einstaklingsbundnir og ytri þættir geti skýrt brottfall nemenda. Í heild er sýnt fram á gildi þess að rannsaka samspil námsefnis og notenda og nauðsyn þess að taka tillit til fjölmargra þátta í umræðum um virkni og framvindu í námi.

Blandað nám í ritun á ensku: Framsetning kennsluefnis og raddir nemenda

Ásrún Jóhannsdóttir, aðjúnkt, HUG, HÍ

Stafrænni fjarkennslu er víða gert hátt undir höfði nú á dögum þar sem möguleikar til fjölbreytni eru óendanlegir. Það þýðir að nám einskorðast ekki lengur við kennslu í hópum í skólastofum þar sem er takmarkaður tími til miðlunar og umræður milli kennara og nemenda oft litlar. Þó hafa rannsóknir sýnt að þetta er ekki eins einfalt og það hljómar og spurningar vakna um hvernig og hvort nemendur ráða almennt við það sjálfstæði og aga sem sýna þarf í fjarnámi. Við enskudeild Háskóla Íslands hefur námsefni og umgjörð ritunarnámskeiðs verið í þróun síðastliðin 7 ár þar sem lagt var upp með að kenna í fjarkennslu eingöngu vegna mikils fjölda nemenda. Í ljós kom að nemendur sem almennt voru skráðir í staðnám áttu erfitt með að tileinka sér fjarnámsaðferðir og í kennslukönnunum töluðu þeir um að persónulegt aðgengi að kennara vantaði. Einnig þarf að hafa í huga að nemendahópur getur verið mjög fjölbreyttur og með fjölbreyttan málbakgrunn sem oft hindrar skilning á vinnulagi. Því var kennslu breytt í blandað nám, þ.e. efnisinnihald í stafrænu formi en vinnulag (æfingatímar) fært í stofu með umsjón kennara. Í þessu erindi verður þróun kennslunnar kynnt og hvaða aðferðir hafa hugnast nemendum best ásamt að sýna dæmi um hvernig verkferlinu (kennslunni) verður fram haldið.

Kennsla nútímaíslensku sem annars máls, forníslensku og íslensks táknmáls (ÍTM) sem annars máls í LÖRU

Branislav Bédi, verkefnisstjóri, Árnastofnun, HÍ, Birgitta Björg Guðmarsdóttir, HUG, HÍ, Bjartur Örn Jónsson, VoN, HÍ og Sigurður Vigfússon, HUG, HÍ

Tólið LARA (e. Learning and Reading Assistant) gerir kennurum kleift að búa til ýmiss konar textaefni, ásamt hljóð- og myndaskrám, til að aðstoða tungumálanemendur við lestur texta á netinu. Nemendur sem læra íslensku sem annað mál, forníslensku eða íslenskt táknmál sem annað mál geta notað tólið LARA til þess að læra tungumálin í gegnum lestur. Rafræn útgáfa texta í LÖRU býður upp á gagnvirkan lestur texta á þessum þremur tungumálum. Með því að nota tólið LARA geta nemendur fengið upplýsingar um framburð einstakra orða, hlustað á upptöku orða og setninga, skoðað myndbönd orða og setninga í ÍTM, skoðað þýðingu orða á ensku eða nútímaíslensku, lesið frekari skýringar um orðatiltæki eða kenningar í forníslensku, eða um tákn í ÍTM, og ekki síst fengið beygingarupplýsingar (frá Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, BÍN) um orð í textanum. Erindið fjallar um þróun námsgagna í LÖRU og notkun þeirra í tungumálakennslu við Háskóla Íslands.