Tónlist í leik- og grunnskólum

Háskóli Íslands

Tónlist í leik- og grunnskólum

1. október kl. 15:30 til 17:00 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa í tónlistarfræðum

Helga Rut Guðmundsdóttir

Tónlistariðkun á íslenskum leikskólum

Helga Rut Guðmundsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Í þessu erindi verður greint frá tveimur nýlegum bókarköflum sem brátt koma út um rannsóknir á tónlistariðkun á íslenskum leikskólum. Dregin verður upp mynd af því hvernig tónlistariðkun hefur þróast í gegnum tíðina á leikskólum landsins með því að draga saman þá þekkingu sem finna má í ritum um leikskólamál. Sérstaklega er gefinn gaumur að söngiðkun og hefðum sem hafa skapast í kringum söng og tónlist í leikskólastarfi. Farið verður yfir stöðu þekkingar á tónlistar- og söngiðkun frá upphafi leikskólastarfs en einnig verður greint frá viðtölum við konur af eldri kynslóð sem þekktu vel til daglegs tónlistarstarfs inni á leikskólum á síðustu öld. Lagt er mat á tónlistarstarf í íslenskum leikskólum og hvernig það hefur verið í samanburði við slíkt starf erlendis. Rýnt verður í hvaða þýðingu tónlist er talin hafa fyrir uppeldi ungra barna í skrifum þeirra sem fjalla um leikskólamál. Fjallað verður um þær íslensku rannsóknir sem hafa verið gerðar á söng barna á leikskólaaldri og þær skoðaðar í tengslum við nýlegar erlendar rannsóknir á tengslum söngþroska barna við málþroska og máltöku. Einnig verður rýnt í hvernig fjallað er um tónlist og söng í Aðalnámskrá leikskóla og hvernig breytingar á áherslum í námskrám samræmast rannsóknum á mikilvægi tónlistar í lífi barna.

 

Vinsælustu sönglögin í íslenskum leikskólum

Valdís Ýr Vigfúsdóttir, leikskólakennari, Leikskólinn Furugrund og Helga Rut Guðmundsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Markmið þessarar rannsóknar var að afla upplýsinga um hvaða söngvar eru sungnir á íslenskum leikskólum nú á dögum. Byrjað var á að skoða söngbækur á heimasíðum fimm leikskóla úr Kópavogi og greint hvaða og hvers konar söngvar voru í þeim. Þá voru tíu leikskólar valdir með slembiúrtaki af lista allra leikskóla á landinu og spurningalistar sendir út á fimm leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og fimm leikskóla úti á landsbyggðinni. Gögnum var aflað með spurningalistanum ásamt að skoða söngbækur leikskólanna sem voru á heimasíðum þeirra. Einnig var leitað upplýsinga um hvort og hvaða hljóðfæri væru notuð í söngstundum með börnunum og hvaða söngbækur eða efni leikskólinn hefði yfir að ráða. Gögnin voru síðan greind og niðurstöður settar upp í töflu í forritinu Excel. Niðurstöðurnar gefa góða mynd af því hvaða söngvar eru sungnir á leikskólum á Íslandi í dag en alls voru 187 söngvar nefndir í flokkunum vinsælustu lögin þessa vikuna, vinsælustu lögin hjá börnunum, mest sungnu lögin, helstu árstíðalögin, helstu lög um veðrið, helstu hreyfilögin og helstu dýralögin. Sumir söngvar komu fyrir í fleiri en einum flokki eða alls 60 söngvar í heildina. Í umræðunum verða niðurstöður tengdar við fyrri rannsóknir sem tengjast sönglögum og tónlistariðkun í leikskólum.

 

Gagnvirkur söngvabanki fyrir leikskóla

Bjarki Guðmundsson, meistaranemi, MVS, HÍ og Helga Rut Guðmundsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkti verkefni sumarið 2020 sem bar heitið: Kortlagning á orðaforða í íslenskum sönglögum sem sungin eru á leikskólum. Unnið var með 187 söngva sem nefndir voru í nýlegri rannsókn á vinsælum söngvum meðal leikskólabarna og starfsfólks leikskóla veturinn 2019–2020. Verkefnið var fólgið í að stofnsetja gagnvirkan gagnabanka aðgengilegan á neti þannig að unnt sé að leita að orðum og gera úttektir á orðaforða í íslenskum leikskólasöngvum. Að auki voru öll sönglögin 187 sett upp með texta og nótum og hægt að hlusta á laglínuna sem fylgir hverjum texta með því að smella á tákn við hlið titils hvers sönglags. Hagnýtt notagildi vefsins er mikið, bæði fyrir þá sem vilja rannsaka orðaforða og málhljóð í sönglögum sem mest eru sungin með börnum á íslenskum leikskólum en ekki síður fyrir þá sem starfa á leikskólum og vilja fletta upp algengum söngvum. Notendur geta sótt texta, nótur og gítarhljóma við öll 187 sönglögin og sett saman sína eigin söngbók. Einnig er hægt að fletta eftir efnisorðum og þemum söngva í gagnvirku leitarvélinni. Hér verður verkefninu lýst og hvaða tæknilegu lausnir voru nýttar við gerð gagnagrunnsins. Nytsemi gagnagrunnsins verður útskýrð og kynnt fyrir þeim sem gætu nýtt sér hann í starfi á leikskóla. Sýndar verða leiðir til þess að nýta gagnagrunninn til að efla fjölbreytni í efnisvali tónlistarstunda á leikskólum.

 

Námsmat í tónmennt í íslenskum grunnskólum

Vitor Hugo Rodrigues Eugenio, meistaranemi, MVS, HÍ og Helga Rut Guðmundsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Markmið þessarar rannsóknar var að skoða framkvæmd námsmats í tónmenntakennslu á Íslandi auk þess að kanna áherslur í kennslu tónmenntakennara. Lítið er vitað um fyrirkomulag námsmats í list- og verkgreinum og fátt um upplýsingar um námsmat í tónmennt eða um viðhorf tónmenntakennara til námsmats í greininni. Í núgildandi aðalnámskrá fyrir list- og verkgreinar frá 2013 segir að tónmennt eigi að auka sköpun og samvinnu nemenda. Það er í samræmi við kenningar og fræði sem lögð eru til grundvallar þessari rannsókn sem leggur áherslu á mikilvægi þess að hlúa að sköpunargáfu, samstarfi og sjálfstæðri hugsun. Rannsóknin fólst í að senda rafrænan spurningalista til starfandi tónmenntakennara. Spurningarnar fjölluðu um aðferðir í tónmenntakennslu og hvaða aðferðum kennarar beita til þess að meta árangur nemenda. Niðurstöður bentu til þess að svarendur legðu áherslu á að sinna sem flestum þáttum tónmenntar sem taldir eru upp í aðalnámskrá. Síst leggja þeir áherslu á nótnalestur og ritun. Svarendur lögðu mikla áherslu á að nemendur ættu að njóta tónmenntar og að fá tækifæri til að skapa. Allir svarendur sögðu sína skóla gera kröfur um að námsmat væri framkvæmt í námsgreininni tónmennt en dæmi eru um að tónmenntakennarar komi sér hjá því að skila námsmati fyrir nemendur. Flestir svarendanna töldu að námsmat í tónmennt væri frekar óþarft og að mikilvægara væri að nemendur fengju að njóta sín en að lagt væri mat á árangur í námsgreininni.