Þróunar- og nýsköpunarstarf í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar

Háskóli Íslands

Þróunar- og nýsköpunarstarf í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar

2. október kl. 10:45 til 12:15 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Nýsköpunarmiðja menntamála á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur

Málstofustjóri: Fríða Bjarney Jónsdóttir

Þróun, nýsköpun og alþjóðasamstarf í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar

Hjörtur Ágústsson og Fríða Bjarney Jónsdóttir, bæði verkefnisstjórar hjá Reykjavíkurborg

Vinna við innleiðingu á menntastefnu Reykjavíkurborgar hófst á vordögum 2019 þegar kallað var eftir umsóknum um styrki í þróunar- og nýsköpunarsjóð skóla- og frístundaráðs, „Látum draumana rætast“. Öllum leikskólum, grunnskólum, frístundamiðstöðvum og skólahljómsveitum í Reykjavík gafst þá kostur á að sækja um allt að 200 m.kr. til þróunar- og nýsköpunarverkefna fyrir skólaárið 2019–2020. 150 m.kr. var úthlutað til um 170 verkefna til allra grunnskóla, leikskóla, frístundamiðstöðva og skólahljómsveita í borginni en 50 m.kr. var úthlutað til stærri samstarfsverkefna þar sem gerð var krafa um þverfaglegt samstarf á milli starfseininga, s.s. eins og milli skólastiga, frístundamiðstöðva, skólahljómsveita, annarra skóla eða starfsstaða. Verkefnin þrjú sem hér verða til umfjöllunar eru öll dæmi um slík samstarfsverkefni. Auk framangreindra styrkja var ein af almennum aðgerðum við innleiðingu menntastefnunnar að auka hnitmiðaða sókn í samkeppnissjóði til að fjármagna alþjóðasamstarf með það að markmiði að styðja við þróun, nýsköpun og starfsþróun starfsfólks í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi. Í innleiðingarferlinu er mikil áhersla lögð á að styðja starfsstaði við að sækja um styrki ásamt að auka aðgengi að upplýsingum um verkefni og miðla niðurstöðum. Í erindinu verður fjallað um þróunar- og nýsköpunarsjóðinn og sýnd dæmi um stærri alþjóðleg verkefni sem unnið hefur verið að fyrsta ár innleiðingarinnar.

Flotinn, flakkandi félagsmiðstöð, vettvangsstarf félagsmiðstöðva í Reykjavík

Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri, Frístundamiðstöðin Tjörnin og Andrea Marel, deildarstjóri, Frístundamiðstöðin Tjörnin

Haustið 2018 fékk verkefni sem miðaði að því að ramma betur inn vettvangsstarf (e. field work) félagsmiðstöðva í Reykjavík styrk úr B-hluta sjóðs menntastefnu Reykjavíkur, „Látum draumana rætast“. Frístundamiðstöðin Tjörnin stýrði verkefninu fyrir hönd félagsmiðstöðva í borginni. Í málstofunni verður farið yfir markmið, leiðir og framkvæmd á verkefninu. Þær afurðir sem hafa orðið til í þessu nýsköpunarverkefni eru meðal annars handbók um foreldrarölt, handbók og fræðslupakki um vettvangsvinnu fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva auk þess sem stofnuð var flakkandi félagsmiðstöð sem hlaut nafnið Flotinn. Flotinn, flakkandi félagsmiðstöð, tók til starfa sumarið 2020 en strax þá kom í ljós að mikil þörf er á að starfsmenn félagsmiðstöðva séu sýnilegir á vettvangi og til staðar fyrir unglinga í hverfum borgarinnar. Unnið var með helstu þætti menntastefnunnar; félagsfærni, heilbrigði, sjálfseflingu, fagmennsku og samstarf.

Draumasviðið: Kynning á verkefninu

Eva Halldóra Guðmundsdóttir, forstöðumaður, Félagsmiðstöðin Tjörnin

Á dögum þar sem félagslegu öryggi okkar er ekki einungis ógnað í raunheimum heldur einnig á netinu þróa unglingar með sér óraunhæfar kröfur til eigin lífs, hvernig þau „eiga“ að líta út, hvað er eðlilegt í samskiptum og hver vinnan er að baki sigrunum. Oft eru þessar raddir ráðandi í lífi barna og unglinga og því þurfa þau leiðsögn við að læra gagnrýna hugsun, sjálfseflingu og samkennd. Draumasviðið var samstarfsverkefni Frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar, Austurbæjarskóla og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands sem hlaut styrk úr B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Markmið verkefnisins var að þróa ákveðið mótsvar við þessum áskorunum í lífi unglinga í gegnum „Draumasviðið“, leiklistaráfanga sem boðið var upp á sem val fyrir 8.­–10. bekk í Austurbæjarskóla. Í málstofunni verður farið yfir hvernig samsköpunarvinna leiðir að markmiðum áfangans. Forsendur áfangans voru að listin væri rannsóknarleiðangur þar sem unnið væri með spurningar og forvitni þátttakenda virkjuð. Mikilvæg niðurstaða verkefnisins var að unglingar fengju vettvang til að kynnast aðferðum og leiðum til að skapa sjálfstætt, vinna í hópi og leiða hópavinnu. Í samsköpunarvinnu (e. devised theatre) í sviðslistum hefur hver og einn mikilvægu ábyrgðarhlutverki að gegna við að framfylgja sýn hópsins. Í gegnum ferlið og þátttöku í áfanganum teljum við að unglingarnir hafi axlað þá ábyrgð sem um leið hafði áhrif á trú þeirra á eigin getu og efldi sjálfstraust þeirra.

Betri Bústaðir – Aukið heilbrigði barna og unglinga í Bústaðahverfi

Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjóri, Frístundamiðstöðin Kringlumýri

Þróunar- og nýsköpunarverkefnið „Betri Bústaðir“ er samstillt forvarnarátak í Bústaðahverfi sem unnið er að 2019–2020. Markmiðið var að börn og unglingar í hverfinu næðu viðmiði um nægan svefn ásamt minni neyslu á orkudrykkjum og rafsígarettum. Til grundvallar liggur m.a. könnun Rannsókna og greiningar þar sem fram kemur að unglingar í hverfinu skora hærra í þessum þáttum í samanburði við Reykjavík í heild. Grunnskólar hverfisins unnu náið með Landlæknisembættinu, en m.a. var haldið nemendaþing og niðurstöður þess nýttar í áframhaldandi vinnu í lífsleiknitímum. Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis sá um undirbúning nemendaþingsins í samstarfi við foreldrafélög skólanna. Frístundaheimilin og félagsmiðstöðvarnar í hverfinu ásamt íþróttafélaginu Víkingi og skátafélaginu Garðbúum lögðu sitt af mörkum með umræðum, hópavinnu og fræðslu tengdum ofangreindum þáttum. Í febrúar var blásið til foreldraþings þar sem boðið var upp á fyrirlestra tengda umræddum þáttum og samræðu um hvernig foreldrar gætu lagt sitt af mörkum. Verkefnið var og verður metið meðal annars af HR þar sem gerð var könnun áður en verkefnið fór af stað ásamt könnun eftir að verkefninu lýkur. Einnig verða niðurstöður Rannsókna og greiningar bornar saman milli ára til að athuga hvort þetta inngrip hafi haft jákvæð áhrif á svefn barna og unglinga í hverfinu og stuðlað að minni neyslu orkudrykkja og rafsígarettna.

Verkefnið byggir á „íslenska forvarnarmódelinu“ en tilgangur þess var að ná saman og stilla strengi allra þeirra sem koma að vinnu með börnum og unglingum í samvinnu við foreldra. Í erindinu verður sagt frá verkefninu og helstu niðurstöðum þess.