Þróun stærðfræðikennslu í framhalds- og háskólum

Kl. 8:30-10:00

Rannsóknarstofa um stærðfræðimenntun

Bjarnheiður Kristinsdóttir

Mótun viðhorfa kennaranema til stærðfræði og tengsl við árangur

Ingólfur Gíslason, aðjúnkt, MVS HÍ og Berglind Gísladóttir, lektor, MVS HÍ

Í þessari rannsókn er sjónum beint að viðhorfum íslenskra kennaranema til stærðfræði og hvernig þau viðhorf mótast og þróast yfir tíma. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að algengt er að kennaranemar um allan heim hafi neikvæðar tilfinningar gagnvart stærðfræði og neikvæða mynd af sjálfum sér sem stærðfræðiiðkanda. Í því skyni að rannsaka viðhorf þessa hóps hérlendis, skrifuðu 76 nemendur á öðru ári í kennaranámi um tilfinningar sínar og reynslu sem nemendur í stærðfræði allt frá grunnskóla til háskóla. Nemendur voru meðal annars beðnir um að segja frá bæði bestu og verstu minningum úr sínu stærðfræðinámi og setja fram graf sem lýsti tilfinningum þeirra til fagsins yfir tíma. Við greiningu gagna var stuðst við eigindlega inntaksgreiningu (e. content analysis) sem er notuð til þess að greina inntak texta með skipulögðum hætti og ber með sér nokkur einkenni megindlegra rannsókna. Heildarsvipur sagnanna var með ýmsu móti, allt frá því að aldrei hafði sést til sólar í stærðfræðináminu til þess sem sjaldgæfara var, að stærðfræðinámið hafði gengið vel frá upphafi. Almennt sýndu niðurstöður þó að það sem einkenndi viðhorf margra kennaranema til stærðfræði var neikvæð tilfinningaleg afstaða, festuhugarfar og tækniskilningur.

 

Talsetningarverkefni sem stuðningur við eftirtekt stærðfræðikennara

Bjarnheiður Kristinsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ; Freyja Hreinsdóttir, dósent, MVS HÍ og Zsolt Lavicza, prófessor, Johannes Kepler University, Linz School of Education

Í þessu erindi verður greint frá völdum niðurstöðum hönnunarmiðaðs rannsóknarverkefnis þar sem þróuð eru hljóðlaus myndbönd og talsetningarverkefni í samstarfi við stærðfræðikennara á framhaldsskólastigi. Í ljós kom að verkefnin gætu nýst kennurum við leiðsagnarmat í stærðfræði og ennfremur fengust vísbendingar um að notkun verkefnanna gæti eflt eftirtekt kennara (e. teacher noticing) um eigin kennslu og hugsun nemenda. Við fyrirlögn talsetningarverkefnis velur kennari stutt hljóðlaust myndband sem tengist viðfangsefni úr stærðfræðitímum og kynnir það fyrir nemendum sínum. Nemendur undirbúa og gera talsetningu við myndbandið í tveggja manna hópum. Í framhaldinu á sér stað hópumræða undir leiðsögn kennara þar sem hlustað er á allar talsetningarnar, þær ræddar og reynt að nálgast sameiginlegan skilning á því sem fjallað var um í myndbandinu. Þetta erindi byggir á tilviksrannsókn (e. case study). Þar lagði kennari þrjú mismunandi talsetningarverkefni fyrir 16 ára nemendur sína með reglulegu millibili yfir eina önn. Frumniðurstöður benda til þess að verkefnin styðji kennara á þann hátt að eftirtekt um eigin kennslu, sem og innsýn í hvernig nemendur hugsa um stærðfræðina sem fyrir kemur í myndbandinu, eflist.

 

Þróun verkefna um diffrun með áherslu á uppgötvun

Sóley Benediktsdóttir, meistaranemi, VoN og kennari við Menntaskólann í Reykjavík

Í þessu erindi verður sagt frá kennsluefni fyrir framhaldsskólastig sem höfundur hefur þróað í meistaranámi sínu í stærðfræði. Í verkefnunum er lögð áhersla á að nemendur skilji hvað þeir eru að gera og af hverju. Í hefðbundnu námi er því miður algengt að nemendur reikni mörg dæmi þar sem þeir diffra föll en hafa ekki mikla möguleika til að velta námsefninu fyrir sér og öðlast á því skilning. Það getur leitt til þess að nemendur muna oft ekki hvaða regla er notuð fyrir hvaða fall. Kennsluefnið skiptist í þrjú verkefni ásamt úrvinnsluverkefnum sem hvert og eitt leggur áherslu á ólíka þætti diffrunar. Fyrsta verkefnið er um tengsl diffrunar við snertla og hvað afleiða táknar á grafi. Annað verkefnið byggir á að nemendur finni afleiður veldisfalla með hjálp frá mynd. Í þriðja verkefninu eiga nemendur að finna stærsta mögulega rúmmál gjafaöskju með gefið yfirborðsflatarmál. Með verkefnunum fylgja Geogebru-skrár fyrir nemendur til að skoða verkefnin á myndrænan og gagnvirkan hátt. Kennsluefnið var prófað með nokkrum nemendum og var endurskoðað í ljósi reynslunnar.

 

Stelpur diffra – undirbúningur og framkvæmd sumarnámsbúða í stærðfræði fyrir áhugasamar stelpur

Nanna Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra

Stelpur diffra er verkefni sem fyrirlesari hefur unnið að síðustu tvö árin. Í búðunum er fjallað um viðfangsefni sem falla t.d. undir algebru, rúmfræði og talningarfræði á annan hátt en gert er í framhaldsskólum. Markmiðið með búðunum er meðal annars að auka þátttöku stúlkna í Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema og í stærðfræðitengdu námi á háskólastigi, en á þessum sviðum hafa stelpur verið í minnihluta. Nokkrar ástæður eru oftast nefndar fyrir því að það dregur úr þátttöku kvenna í stærðfræði eftir því sem ofar dregur í skólakerfinu. Meðal annars að þær hafi minna sjálfstraust gagnvart stærðfræði en strákar, eigi fáar kvenkyns fyrirmyndir og fáa kvenkyns vini í náminu og sjái síður fyrir sér framtíðarmöguleika í stærðfræðitengdum atvinnugreinum. Í námsbúðunum er vonast til að stelpurnar geti myndað með sér samfélag um sameiginlegan reynsluheim og áhuga á stærðfræði. Auk stærðfræðilegs námsefnis er félagsfræðilegri þekkingu fléttað inn í námsbúðirnar, svo sem um svikaraheilkennið. Þannig er markmiðið að námsbúðirnar styrki stelpur bæði í stærðfræði sem slíkri og einnig félagslega.