Þróun stærðfræðikennslu á grunnskólastigi

Háskóli Íslands

Þróun stærðfræðikennslu á grunnskólastigi

2. október kl. 10:45 til 12:15 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa um stærðfræðimenntun

Guðbjörg Pálsdóttir

Í upphafi skal endinn skoða – Tilviksrannsókn á námsmati í stærðfræði

Sólrún Ýr Guðbjartsdóttir, grunnskólakennari, Vesturbæjarskóli og meistaranemi, MVS, HÍ. Leiðbeinandi: Guðbjörg Pálsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Verkefni þetta er tilviksrannsókn unnin út frá viðtölum og gögnum um námsmat og námsmatsaðferðir í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Skoðað var hvernig unnið var með námsmat í stærðfræði á unglingastigi í skólanum og hvernig kennarar mættu breyttum áherslum í námsmati samkvæmt hæfniviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla. Megintilgangur verkefnisins var að kanna leiðir til að vinna með hæfniviðmið aðalnámskrár í námsmati sem og að gefa hugmyndir og innblástur að námsmatsaðferðum sem henta vel í vinnu með hæfniviðmiðin. Rannsóknarskólinn var valinn eftir athugun á námsmatsgögnum nokkurra skóla. Tekin voru viðtöl við einn kennara í rannsóknarskólanum ásamt að námsmatsverkefni voru skoðuð. Einnig var fylgst með kennurum fara yfir verkefni í sameiningu þar sem nemendur fengu einkunnirnar á kvarðanum A-D. Viðtölin voru greind í þemu með tilliti til uppbyggingar kennslu og námsmatsverkefna og einnig vinnubragða kennara ásamt að greind voru dæmi um námsmatsverkefni. Það sem einkenndi vinnubrögð kennara var að námsmat var að stórum hluta skipulagt áður en kennsla og kennsluhættir voru ákveðnir. Þar var fyrst tekið til athugunar hvaða hæfni nemendur ættu að hafa tileinkað sér við lok skólaárs áður en skipulagt var hvað og hvernig kenna ætti nemendunum. Lögð var áhersla á að byggja kennslu og námsmat á þeim þáttum sem nemendur ættu að hafa tileinkað sér í lok kennslutímabils. Niðurstöður rannsóknarinnar eru bornar saman við fræðilegan grunn hennar og dregur rannsakandi þær ályktanir að um sé að ræða áhrifaríka leið í námsmati í stærðfræði.

Þróun námskeiða fyrir leiðtoga í stærðfræðikennslu

Guðbjörg Pálsdóttir, dósent, MVS, HÍ og Jónína Vala Kristinsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Tilgangurinn með erindinu er að kynna þróunarverkefni um menntun stærðfræðileiðtoga sem unnið er í samstarfi kennara á Menntavísindasviði HÍ og Miðstöð skólaþróunar við HA. Haustið 2017 hófst tilraun með leiðtoganámskeið um stærðfræðinám og -kennslu með það að markmiði að styðja við þróun námssamfélaga stærðfræðikennara í grunnskólum á Íslandi. Byggt var á efni frá Skolverket í Svíþjóð sem nefnist Matematiklyftet og það þróað og aðlagað þörfum skóla á Íslandi. Í verkefninu er byggt á kenningum um gildi námssamfélaga og mikilvægi stöðugrar starfsþróunar kennara sem tengist skólastarfi. Sjónum er beint að stærðfræðinámi og -kennslu með það að markmiði að bæta skólastarf. Þar gegnir samvinna kennara og greining þeirra á kennslu sinni og námi nemenda lykilhlutverki. Gögnum var safnað með upptökum á námskeiðsdögum, skráningu minnispunkta frá fundum með leiðtogum, viðtölum við þá og svörum þeirra við opnum spurningum. Unnið var úr gögnunum jafnt og þétt frá upphafi og niðurstöður nýttar til að þróa verkefnið. Í ljós kom að misjafnt var í skólum hve vel tókst til með að fá kennara til samstarfs um að þróa kennsluhætti sína í stærðfræði. Þar reyndi á skipulag samstarfsfunda og hve aðgengilegt lesefni námskeiðsins var kennurum til að bæta þekkingu sína á stærðfræðinámi og -kennslu. Niðurstöðurnar hafa nýst við skipulag nýrra námskeiða þar sem stöðugt er leitað leiða til að styðja við stærðfræðikennara. Næstu tvö árin verður unnið að því að þróa námskeið fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla um stærðfræðinám og -kennslu þar sem byggt er á reynslunni af þróunarverkefninu og námsefnið birt á opnum vef Menntamiðju.

Stærðfræði og listir: Myndlist er fleira en að teikna – Stærðfræði er fleira en að reikna

Borghildur Jósúadóttir, meistaranemi, Grundaskóli. Leiðbeinandi: Jónína Vala Kristinsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Tilgangurinn með verkefninu var að skoða eigin kennslu og hvernig til hefði tekist að tengja saman bóklega grein og list- og verkgrein. Markmið mitt með slíkri tengingu hefur verið að skapa nemendum tækifæri til að vinna með stærðfræði á annan og meira skapandi hátt en hefðbundin kennsla býður upp á. Rannsóknin er starfendarannsókn sem fjallar um ferðalag mitt í Grundaskóla, Akranesi, frá árinu 1984 og til dagsins í dag. Það er forvitnilegt og spennandi að ígrunda eigin reynslu og skoða vegferð sína í starfi. Áhersla mín á tengingu stærðfræðinnar við listir var í gegnum mynstur. Fyrstu verkefnin voru einföld, en eftir því sem árin liðu óx mér kjarkur og áræðni til að ráðast í verkefni sem engin hefð var fyrir að unnin hefðu verið í skólum hér á landi. Við skoðun gagnanna endurspeglast ákveðin þemu í stærðfræðikennslunni, fyrst og fremst rúmfræði Evklíðs og hnitakerfi og flutningar. Önnur þemu sem birtast eru Origami-pappírsbrot, brotalar (e. fractals) og svokölluð aðferð Eschers. Einnig er minnst á Fibonacci-rununa og gullinsnið. Í verkefninu er fjallað stuttlega um hvert þessara fimm þema. Rannsóknin er ætluð kennurum sem hvatning til að nýta sér skapandi vinnubrögð og samþættingu í kennslu. Reynsla mín er til vitnis um að skapandi vinna og samþætting stuðli að því að nemendur verði sjálfstæðari, glaðari og jákvæðari en þeir hefðu annars orðið.

Skapandi stærðfræði: Starfsþróun í íslenskum grunnskóla

Ósk Dagsdóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ

Skapandi stærðfræði er hugtak sem fáir þekkja. Algengt er að stærðfræði sem kennd er í skólum bjóði upp á litla sköpun. Nemendum er gert að leysa verkefni eftir gefinni forskrift og eru verðlaunaðir fyrir að vinna hratt, hljóðlega og skýrt. Stærðfræðingar og aðrir vísindamenn vinna hins vegar oft á mjög skapandi hátt. Þeir nýta tækni, samvinnu og góðan tíma til þess að leita að óþekktum lausnum og skapa þannig nýja þekkingu. Þessi rannsókn er tveggja ára starfendarannsókn með starfandi kennurum þar sem skoðað er hvernig vinna má að því að efla sköpun í stærðfræðinámi. Rannsakað er hvaða áhrif starfsþróun á þessu sviði getur haft á kennara, þeirra kennslu og viðhorf auk þess hvernig þeir sjá nám nemenda sinna. Kennarar sækja vinnusmiðjur þar sem þeir fá fræðslu og vinna sjálfir á skapandi hátt með því að takast á við þrautir, skoða mynstur og vinna eins og alvöru stærðfræðingar. Milli smiðja vinna kennarar að því að efla sköpun hjá sínum eigin nemendum í samstarfi við rannsakanda. Gögnum er safnað frá smiðjum, kennarar halda rannsóknardagbækur og tekin eru viðtöl við valda kennara. Í niðurstöðum lýsa kennararnir hvernig þeir hafa náð að nýta sköpun í stærðfræðikennslu og hvernig hún byggist upp á umræðum, leik og verklegri vinnu. Þeir sjá samhljóm með leiðsagnarnámi og nýtingu námsfélaga en reka sig á hindranir eins og stóra hópa, samræmd próf og takmarkaðan tíma. Í rannsókninni er skoðað hvernig vinna má með kennurum að því að yfirstíga þessarar hindranir. Niðurstöður rannsóknarinnar geta nýst til að skipuleggja starfsþróun, kennslu og aðrar rannsóknir.