Þroskaþjálfafræði: Fjölbreytt viðfangsefni fræðigreinarinnar

Háskóli Íslands

Þroskaþjálfafræði: Fjölbreytt viðfangsefni fræðigreinarinnar

2. október kl. 15:30 til 17:00 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Fötlunarfræði í þroskaþjálfanámi; áskoranir og ávinningur

Guðrún V. Stefánsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Í um það bil tvo áratugi hefur fræðigreinin fötlunarfræði verið ein af meginfræðasviðum í námi þroskaþjálfa. Hugtakið fötlunarfræði (e. disability studies) kom fyrst fram á alþjóðlegum vettvangi upp úr 1990 þó að ræturnar megi rekja til sjöunda og áttunda áratugar síðustu aldar. Frá því fötlunarfræði leit dagsins ljós hefur farið fram margþætt og gagnrýnin umræða um þau fræðilegu og félagslegu sjónarhorn sem liggja að baki fræðigreininni. Á síðustu árum hefur sú umræða ekki síst tengst sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og því félagslega réttindasjónarhorni á fötlun sem hann byggir á. Tilgangur erindisins er tvíþættur. Annars vegar að skoða áskoranir og ávinning krítískra sjónarhorna fötlunarfræða fyrir fræðilegar og hagnýtar undirstöður í námi þroskaþjálfa. Hins vegar verður sjónum beint að námskeiðinu fötlunarfræði sem fyrst var kennt árið 2001 og hefur síðan átt fastan sess í þroskaþjálfanáminu þó að heiti þess hafi ekki ávallt verið það sama. Þróun námskeiðsins verður rakin og greint frá tengslum þess við inngildandi menntun og félagslegan skilning á fötlun. Frá því árið 2007 hafa auk nemenda í þroskaþjálfafræði nemendur í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun sótt námskeiðið og innihald þess og skipulag því verið aðlagað að ólíkum nemendahópi. Byggt er á viðtölum við nemendur í starfstengdu diplómanámi og þroskaþjálfanema á árunum 2009–2018, mati nemenda á námskeiðinu fötlunarfræði og dagbókarskrifum höfundar.

Margbreytileiki mannlífsins: Réttur til virkrar þátttöku í gerð laga og stefnumótunar

Laufey Elísabet Löve, lektor, MVS, HÍ

Réttur fatlaðs fólks til virkrar þátttöku í gerð laga og stefnumótunar sem varða hagsmuni þess er áréttaður með skýrum hætti í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland fullgilti árið 2016. Þessi réttur hefur verið talinn eitt framsæknasta framlag samningsins til mannréttindalögfræði og hefur jafnframt skírskotun til annarra jaðarhópa líkt og barna og eldra fólks. Í þessu erindi verður gerð grein fyrir íslenskum rannsóknum sem beinast að mikilvægi réttar fatlaðs fólks til virkrar þátttöku í gerð laga og stefnumótunar og að þeirri áherslu sem kemur fram í Samningi Sameinuðu þjóðanna að lífsreynsla fatlaðs fólks sjálfs sé viðurkennd sem þekking þegar að ákvarðanatöku kemur. Þá verður athygli beint að hlutverki hagsmunasamtaka fatlaðs fólks við að þrýsta á viðurkenningu þessa réttar og við að tryggja aðgengi ólíkra hópa fatlaðs fólks að honum. Rannsóknin beitir þverfræðilegri nálgun sem leiðir saman gagnrýna kenningu og mannréttindasjónarhorn á fötlun. Hún byggir á eigindlegum rannsóknargögnum sem aflað var frá árinu 2016 til 2019 og samanstanda af eigindlegum viðtölum og greiningu ritaðra gagna. Niðurstöður sýna að víða er pottur brotinn hvað varðar rétt fatlaðs fólks til virkrar þátttöku í gerð laga og stefnumótunar sem varða hagsmuni þess. Jafnframt draga þær fram mikilvægi þess hlutverks sem hagsmunasamtök fatlaðs fólks gegna við að þrýsta á stjórnvöld um að uppfylla skyldu þeirra samkvæmt Samningi Sameinuðu þjóðanna. Þá er dreginn fram sá árangur sem náðst hefur og nauðsyn þess að fylgja honum fast eftir á öllum stjórnsýslustigum.

Að sækja faghandleiðslu. Undirbúningur og ábyrgð handleiðsluþega

Kristín Lilliendahl, aðjúnkt, MVS, HÍ

Hér verður sjónum beint að ýmsum þáttum faghandleiðslu sem gagnlegt er fyrir handleiðsluþega að vita um og búa sig undir þegar handleiðsla er sótt í fyrsta sinn. Vikið verður að leiðsögn í vettvangsnámi sem fyrsta stigs undirbúningi og áhrifavaldi á viðhorf til þess að þróa eigin starfshæfni undir handleiðslu að námi loknu. Lögð verður áhersla á eðlismun milli handleiðslu og leiðsagnar eða meðferðar og að lokum bent á persónulegan og faglegan ávinning sem hljóta má af farsælu handleiðslusambandi. Afar sjaldan er sjónum beint að handleiðsluþeganum sjálfum í rannsóknum á handleiðslu en hér verður sérstaklega gerð grein fyrir niðurstöðum um gildi leiðsagnar og handleiðslu fyrir fagstéttir á sviði menntunar og velferðarþjónustu. Erindið byggir á kafla höfundar í bók um handleiðslu sem kemur út á komandi hausti og Háskólaútgáfan stendur að.