Textíll í rannsóknum og skólastarfi – Seinni hluti

Háskóli Íslands

Textíll í rannsóknum og skólastarfi – Seinni hluti

2. október kl. 10:45 til 12:15 Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa í textíl

Ásdís Jóelsdóttir

 

Málstofan í heild sinni ásamt fyrri hluta 

Heimsmarkmiðin í textíl – óður til sjálfbærni

Ásdís Jóelsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Erindið fjallar um tilurð bókar um sjálfbærni og endurnýtingu í textíl, markmið og uppbyggingu efnisþátta. Verkefnið er styrkt af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Kennslumálasjóði Háskóla Íslands, Hagþenki og Miðstöð íslenskra bókmennta. Rannsóknargrunnur bókarinnar byggir á kennslufræðilegum þáttum þar sem blandað er saman kennsluleiðbeiningum og kennsluefni. Meðal annars er tekið mið af niðurstöðum í tveimur þróunar- og samvinnuverkefnum, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og áherslum í námskrám. Lögð er áhersla á aðferðafræði hönnunar í uppbyggingu efnisins, frá upplýsingaöflun til tæknilegra atriða, tilrauna með aðferðir og til fullvinnslu afurða. Í bókinni eru lagðar fram leiðbeiningar um forsendur og tilurð tískunnar, fyrirhyggju og skilning á grundvallaratriðum í siðrænni framleiðslu og vottaðra vörumerkja, siðrænnar tísku og siðrænnar og ábyrgrar neyslu. Sú nálgun er nýtt sem undirstaða fyrir hráefnis- og afurðaþekkingu, þekkingu í frumvinnslu og fullvinnslu í fata- og textílframleiðslu og verkfærni textílgreinarinnar til að auðvelda vinnsluferli endurnýtingar með það að markmiði að framlengja líftímann. Eftir það kallast textílaðferðir á við endurnýtingu og nýsköpun í leit að lausnum sem hver og einn getur nýtt til að ná fram persónulegri nálgun á skapandi og sjálfstæðan hátt. Markmiðið er að virkja umhverfisvæna hugsun í verki, setja textílafurðir í samhengi við sjálfbærni og umhverfisvitund og ýta að undir sjálfbæran lífsstíl. Í farvatninu er bók með leiðbeinandi texta og lausnum í teikningum með lágstemmdu heildarútliti og „heimagerðu“ innihaldi – eins konar óður til sjálfbærni í textíl.

 

Neysla og endurnýting – þróunar- og samvinnuverkefni tveggja skólastiga

Kolbrún Jenný Gunnarsdóttir, grunnskólakennari, Lágafellsskóli og Ásdís Jóelsdóttir, lektor, MVS, HÍ

Í umræðunni um umhverfisvernd og sjálfbæra þróun hafa raddir orðið mun háværari um þær afleiðingar sem fataiðnaðurinn hefur. Á það helst við um neikvæð áhrif framleiðslunnar á umhverfið, vinnuaðstæður og launakjör þeirra sem starfa við framleiðsluna, fatasóun og neysluhegðun. Markmiðið er að minnka neysluna og leggja áherslu á endurnýtingu. Með þeim áherslum má lengja notkunar- og líftíma fatnaðarins og um leið koma í veg fyrir umhverfismengun og offramleiðslu á fatnaði. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru höfð til hliðsjónar við mótun verkefnisins. Í þróunar- og samvinnuverkefninu var tekið mið af þeim markmiðum sem snúa að endurnýtingu, sjálfbærum lífsstíl, nýsköpun og ábyrgri og siðrænni neyslu. Í verkefnavinnunni unnu nemar og nemendur að álíka viðfangsefnum með sömu markmið að leiðarljósi auk þess sem þau voru samtvinnuð á ýmsa vegu. Nýjungin fólst í að samtvinna verkefni textílkennaranema við Menntavísindasvið HÍ við verkefni nemenda í textílvali í 9. og 10. bekk í grunnskóla, nánar tiltekið Lágafellsskóla í Mosfellsbæ. Verkefnið var mikilvægt fyrir nemendur í textílmennt í grunnskólum og verðandi textílkennara á Menntavísindasviði sem gátu nýtt reynslu sína við vinnu eigin verkefna á sama tíma og þeir voru að yfirfæra þá reynslu yfir á nemendur í grunnskóla. Sú reynsla hefur nýst kennurum til að þróa innihald og áherslur í starfi og innleiða nýja kennsluhætti á báðum aldursstigum. Verkefnið hefur einnig verið nýtt til að þróa námsefni í endurnýtingu á textíl.

 

ST’ART

Soffía Margrét Magnúsdóttir, framhaldsskólakennari, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti

Í erindinu verður Erasmus+ verkefnið ST’ART kynnt sem nemendur á listasviði í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti hafa tekið þátt í frá árinu 2018 með þremur öðrum listaskólum frá Portúgal, Spáni og Ítalíu. Verkefnið gengur út á að nota menningararfinn sem hreyfiafl í gegnum listir í borgarsamfélögum. Kafað er ofan í menningararf hvers lands og hann settur í samhengi við sinn eigin, hvað er sameiginlegt, hvað er nýtt fyrir þeim og hvað getum við lært hvert af öðru. Nemendur fá undirbúningsverkefni sem á að leysa hvert í sínu landi, síðan hittast þau í hverri borg einu sinni og vinna flóknari verkefni sem ná yfir nokkra daga. Í fyrstu nemendaferðinni, sem fór fram í janúar 2019 í Bilbao, var unnið með horfin kvennastörf í borginni. Endaleg útkoma voru 6 klippimyndir af stærðinni A1 sem hengd voru upp í úthverfi Bilbao. Markmið okkar hér á landi var að tengja saman list og náttúru. Á Íslandi hafa þjóðsögur gegnt mikilvægu hlutverki við að varðveita náttúruna. Nemendur áttu að endurskapa myndir og þjóðsögur sem við þekkjum svo vel eins og Búkollu, Tröllið á glugganum, Móðir mín í kví kví o.fl. Efniviður var íslensk ull fyrir leikmunagerð, íslensk hljóð, náttúran í bland við hefðbundið efni og starfrænt form. Unnu nemendur nýja útgáfu af sex stuttmyndum með tengingu við þjóðsögur. Í Portúgal var unnið með „Ilhas“ eða þarlenda verkamannabústaði sem eru í hættu vegna ferðamanna og Airbnb-útleigu. Nemendur unnu með umhverfið og bróderuðu yfir ljósmyndir úr vettvangsferðinni með sinni túlkun á formi og litum.

 

Íðorðanefnd í hannyrðum – íðorðasafn í prjóni

Herborg Sigtryggsdóttir, sérfræðingur í vefnaði og textílgreinum, Ásdís Jóelsdóttir, lektor, MVS, HÍ, Guðrún Hannele Henttinen, verslunareigandi Storksins

Íðorðanefnd í hannyrðum starfar innan Stofnunar Árna Magnússonar. Hlutverk og starf íðorðanefnda felst m.a. í að safna og skilgreina lykilhugtök, ræða þýðingar og nýorðasmíði ásamt að flokka hugtök. Nýlega var birt íðorðasafn fyrir prjón á netinu, þ.e. í opnu rafrænu safni á vegun fyrrnefndrar stofnunar. Markmiðið með íðorðasafninu er að samræma orðanotkun innan fagsins hjá bæði áhuga- og fagfólki, m.a. vegna útgáfu á bókum, uppskrifta og birtingar á netinu, en líka hins talaða máls. Tilgangurinn er einnig að samræma og að koma í veg fyrir að hugtakanotkun í almennri og faglegri umræðu verði á reiki. Mikilvægt er að þeir sem starfa innan slíkra nefnda komi úr ólíkum áttum samfélagsins og hafi mismunandi aðkomu að faginu. Í vinnuferlinu við íðorðasafnið í prjóni voru rannsakaðar flestallar bækur, blöð og tímarit um prjón, eldri og nýrri, sem gefin hafa verið út á íslensku frá upphafi. Listuð voru upp orð úr heimildum sem tengdust prjóni, garni, áhöldum og ullarvinnslu. Hugtök voru samræmd og færð inn heiti, samheiti, skilgreiningar og skýringar. Á næstunni er ætlunin að vinna með fleiri hannyrðagreinar eins og hekl, útsaum, fatasaum, vefnað o.s.frv. Íðorðabankinn verður alltaf í vinnslu og þörfin fyrir nýorðasmíð og skilgreiningar verður áfram fyrir hendi. Tilgangur nefndarinnar í þessu erindi er að vekja athygli á notkun íslenskra hugtaka í faginu og kynna skipulag og uppbyggingu rafræns íðorðasafns í prjóni.