Textíll í rannsóknum og skólastarfi – Fyrri hluti

Háskóli Íslands

Textíll í rannsóknum og skólastarfi – Fyrri hluti

2. október kl. 9.00 til 10.30 – Smelltu til að taka þátt á ZOOM!

Rannsóknarstofa í textíl

Ásdís Jóelsdóttir

 

Málstofan í heild sinni ásamt seinni hluta

Starfræn varðveisla frumgagna í vefnaði

Ragnheiður Björk Þórsdóttir, framhaldsskólakennari, Textílmiðstöð Íslands

Erindið er kynning á rannsóknarverkefni Textílmiðstöðvar Íslands, undir heitinu Frá hefðbundnum textíl til stafrænnar framtíðar (Bridging Textiles to the Digital Future), sem er styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís. Einnig verður kynnt innihald bókarinnar Listin að vefa eftir Ragnheiði Björk Þórsdóttur sem kom út árið 2019, en Ragnheiður stýrir einnig rannsókninni. Markmiðið er að kynna notkunarmöguleika bókarinnar og gagnagrunnsins innan skólakerfisins. Í Kvennaskólanum á Blönduósi er til mikið magn af vefnaðarmynstrum, uppskriftum og prufum sem gefin hafa verið Kvennaskólanum til varðveislu, meðal annars eru frumgögn nokkurra íslenskra vefara og vefnaðarkennara sem starfaði við skólann á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Gögnin eru í formi handskrifaðra vefnaðarmynstra, vefnaðarprufa og uppskrifta fyrir vefnað í vefstól. Umfang gagnanna eru 1000 handskrifaðar blaðsíður af vefnaðarmynstrum og uppskriftum fyrir vefnað og yfir 1500 vefnaðarprufur. Um er að ræða varðveislu og skrásetningu á frumgögnum sem hafa mikið menningar-, hönnunar- og sagnfræðilegt gildi. Þegar er búið er að skrásetja, mynda, flokka og hanna rafrænan gagnagrunn sem er aðgengilegur á netinu og hýsir bindimynstur, vefnaðarprufur, teikningar og uppskriftir sem varðveitt eru hjá Textílmiðstöð Íslands. Bókin Listin að vefa er kennslubók í aðferðum og tæknilegum þáttum vefnaðar, auk þess að vera fræðibók sem tekur á sagnfræðilegum þáttum.

Flokk till you drop – samstarfsverkefni

Berglind Ósk Hlynsdóttir, nemi, LHÍ, Rebekka Ashley Egilsdóttir, nemi, LHÍ og Melkorka Magnúsdóttir, nemi, HÍ

Verkefnið er samstarf Textílmiðstöðvar Íslands, Rauða krossins, Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Verkefnið, sem er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna, er unnið af þremur nemendum, úr fatahönnun og vöruhönnun í Listaháskóla Íslands og menningarfræði í Háskóla Íslands; Berglindi Ósk Hlynsdóttur (fatahönnun LHÍ), Rebekku Ashley Egilsdóttur (vöruhönnun LHÍ) og Melkorku Magnúsdóttur (mannfræði HÍ). Leiðbeinendur eru Elsa Arnardóttir, Textílmiðstöð Íslands, Eva María Árnadóttir, fatahönnun LHÍ, Guðbjörg Rut Pálmadóttir, Fatasöfnun Rauða krossins og Unnur Dís Skaptadóttir, mannfræði HÍ. FLOKK TILL YOU DROP er ádeila á úrelta orðatiltækið „shop till you drop“. Verkefnið stuðlar að því að auka vitundarvakningu um neyslumenningu Íslendinga og beina sjónum að því magni af fötum og öðrum textíl sem fólk gefur í Rauða krossinn. Í sumar flokkuðu nemendurnir tonn af textíl sem fólk um allt land setti í gáma Rauða krossins. Verkefnið er blanda af flokkunarstöð, rannsóknarstofu og listaverkstæði og hefur bækistöðvar í Hönnunarsafni Íslands meðan á rannsókn stendur. Fatnaðurinn verður flokkaður og greindur út frá ýmsum flokkum; efni, kyni, framleiðslulandi og litum svo dæmi séu tekin. Verkefnið er í fimm liðum: 1. Flokkun á textíl. 2. Fræðsla um endurvinnslu á textíl og gagnvirkt samtal við almenning í gegnum Instagram. 3. Vinnusmiðjur þar sem almenningur getur tekið þátt í að endurnýja flíkur og textíl úr Fatasöfnun Rauða krossins. 4. Hvað verður um flíkur og textíl sem fer í Fatasöfnun Rauða krossins? Kortlagning á ferðalagi fatnaðar. 5. Sýning og sala á listaverkum úr ónýtum textíl í lokahófi. Nemendurnir munu kynna helstu niðurstöður þessarar rannsóknar og sýna myndir frá ferlinu.

FISHSkin – Nýsköpun í fiskleðri úr roði

Katrín María Káradóttir, dósent, LHÍ

Developing fish skin as a sustainable raw material for the fashion industry or FISHSkin er alþjóðlegt verkefni styrkt af Horizon 2020, þróunar- og rannsóknaráætlun Evrópusambandsins. Verkefnið snýst um að þróa aðferðir til að vinna roð af fiski á umhverfisvænan og ábyrgan hátt sem mótvægi við hefðbundna leðurframleiðslu. Samstarfsaðilar Listaháskóla Íslands og Nordic Fishleather í verkefninu eru hönnuðir og rannsakendur m.a. frá Central Saint Martins, London College of Fashion, Shenkar listaháskólanum í Ísrael, Kyoto Seika háskólanum í Japan, Kornit Digital framleiðslufyrirtæki frá Ísrael, Oceanographic Research frá Ísrael og Ars Trinctoria, rannsóknar- og greiningamiðstöð á Ítalíu. Þessi fjölbreytti hópur tengir saman fatahönnuði, vísindamenn, tæknifræðinga og handverksfólk víða að. Hópurinn rannsakar möguleika á nýsköpun í fiskleðri úr roði sem sjálfbærari valkost en hefðbundið leður.

Hallormsstaðaskóli – þekking sem skiptir máli

Bryndís Fiona, skólastjórnandi, Hallormsstaðaskóli

Í 90 ár hefur kennsla við Hallormsstaðaskóla einkennst af verkkunnáttu á sviði matarfræði og textíls, nýtingarmöguleikum hráefna og sjálfbærni. Ný námsbraut skólans, Sjálfbærni og sköpunarbraut á 4. hæfniþrepi, byggir á námskrá skólans frá 1930 og tengir við nútímatækni. Þróun á skólastarfi er nauðsynleg og enn mikilvægara er að standa vörð um þann menningararf sem gamalt handverk er. Að koma þekkingu áfram frá vöggu til vöggu í stað vöggu til grafar ætti að vera hluti af eðlilegri hringrás lífsins. Stefna skólans er að mennta nýja kynslóð fagfólks sem getur unnið þvert á fræði og faggreinar, hefur haldgóða þekkingu og færni á sviði sjálfbærni og sköpunar með áherslu á nýtingarmöguleika auðlinda. Í náminu er fjallað um hugtakið sjálfbærni í víðtæku samhengi og þá hugmyndafræði sem liggur að baki sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og annars hráefnis. Hér er lögð áhersla á að tengja saman fræði og framkvæmd. Hlutverk skólans er að veita nemendum tækifæri, möguleika og aðstöðu til þess að rannsaka, þróa og dýpka þekkingu sína og verða ný kynslóð fagfólks í þverfaglegum heimi.