Svefn og hreyfing

Háskóli Íslands

Svefn og hreyfing

Stofa H-205 kl. 9:00 til 10:30

Rannsóknastofa í íþrótta og heilsufræði I

Objective and subjective adolescent sleeping patterns and their association with cognitive function

Rúna Sif Stefánsdóttir, PhD student, UI Erlingur Jóhannsson, professor, UI, Sigríður Lára Guðmundsdóttir, associate professor, UI, Vaka Rögnvaldsdóttir, adjunct, UI, Sunna Gestsdóttir, PhD student, UI and Hans Haraldsson, project manager, UI

Purpose: Recent studies have shown that sleep tends to become shorter and more variable in late adolescence. Laboratory studies demonstrate that acute sleep deprivation impairs cognitive function. However, research on the relationship between free-living sleep and cognition is scarce.   Methods: Free-living sleep was measured for one week relating to 223 adolescents (mean age 17.7 years) with wrist-worn actigraphs. Subjective sleep and concentration was measured with a questionnaire. Cognitive function was measured with a Posner cue-target attention task and the n-back memory tasks, all cognitive measures were performed at the end of the week. Results: The mean rest duration was 7.1 ± 0.8 h, with mean sleep efficiency of 88.1 ± 4.6%. Objectively measured sleep patterns were characterized by very high variability with a mean within person SD of rest duration 1.5 ± 0.8 hours. Only 29% of participants reported sleeping enough and 36% reported problems with concentration more than once a week. Subjective questions were strongly associated with one another but only marginally related to objective rest time. Rest duration and sleep quality measures were weakly associated with cognitive function. Associations were statistically insignificant and not generally of the predicted sign.   Conclusion: Free-living sleep was short and variable but not significantly associated with performance on cognitive tasks. The findings show that different methods of measurement can yield different results when exploring sleeping patterns and raise interesting questions about the generalizability of results from clinical studies on the effect of sleep on cognitive function.

Tengsl hreyfingar við svefn íslenskra ungmenna

Vaka Rögnvaldsdóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ, Erlingur Jóhannsson, prófessor, MVS, HÍ, Sigríður Lára Guðmundsdóttir, dósent, MVS, HÍ, Soffía M. Hrafnkelsdóttir, doktorsnemi, MVS, HÍ og Sigurbjörn Á. Arngrímsson, prófessor, MVS, HÍ

Inngangur: Svefn og hreyfing eru hornsteinar í heilsu ungmenna. Alþjóðlegar ráðleggingar mælast til þess að börn og unglingar hreyfi sig að lágmarki 60 mínútur daglega af miðlungs- eða mikilli ákefð, sofi í 8-10 klukkustundir á sólarhring og hafi reglu á hátta- og fótaferðartíma yfir vikuna. Tengsl hreyfingar og svefns meðal ungmenna, bæði mæld með hröðunarmælum, eru ekki vel þekkt. Markmið: Markmið rannsóknarinnar voru að meta tengsl milli hreyfingar og svefns meðal 15 ára ungmenna, mæld með hreyfimælum og spurningalistum. Efniviður og aðferðir: Alls var 411 nemendum 10. bekkjar 6 grunnskóla í Reykjavík boðin þátttaka í rannsókninni vorið 2015. Gild gögn (≥1 frídagur og ≥3 skóladagar úr hröðunarmælum) fengust frá 284 viðföngum. Tengsl milli hlutlægrar mælingar á hreyfingu og svefni voru skoðuð með línulegri aðhvarfsgreiningu. T-próf var notað til þess að bera saman meðaltals svefn þeirra sem stunduðu hreyfingu ≥6klst/viku og þeirra sem stunduðu minni hreyfingu eða þeirra sem æfðu íþróttir eða æfðu ekki íþróttir. Niðurstöður: Meðalaldur var 15,8±0,3 ár. Neikvæð tengsl fundust milli hreyfingar og svefnlengdar yfir vikuna, á skóladögum og um helgar. Tengsl fundust einnig milli hreyfingar og aukinna svefngæða yfir vikuna. Enginn munur var á svefni þeirra sem stunduðu hreyfingu ≥6klst/viku og þeirra sem stunduðu minni hreyfingu eða þeirra sem æfðu íþróttir eða æfðu ekki íþróttir. Ályktun: Hreyfing hefur neikvæð tengsl við svefnlengd íslenskra ungmenna en jákvæð tengsl við svefngæði. Svefnlengd ungmennanna er stutt og háttatíminn seint að kvöldi. Huga þarf að samspili hreyfingar og svefnlengdar við ákvörðun æfingatíma einstaklinga og íþróttafélaga.

Svefn íslenskra sundmanna

Sigríður Lára Guðmundsdóttir, dósent, MVS, HÍ

Svefnleysi hefur neikvæð áhrif á heilsu og frammistöðu íþróttafólks. Óreglulegur svefn er einnig talinn heilsuspillandi. Svefnlengd fullorðins afrekssundfólks hefur mælst undir fimm klst. þegar morgunæfingar hefjast fyrir kl. sex á morgnana. Morgunæfingar í sundi eru skipulagðar fyrir ungmenni þó áhrif þeirra á svefn séu óþekkt. Markmið rannsóknar var að skoða svefnlengd og -breytileika ásamt hagkvæmni svefns (e. sleep efficiency) meðal ungs íslensks sundfólks og skoða áhrif morgunæfinga þar á. Sundfólki í besta hópi sex stærstu sundfélaga landsins var boðin þátttaka (n=130) og 112 þáðu boðið (meðalaldur 16,1 ± 2,6 ár). Svefn var mældur með hröðunarmælum. Línuleg aðhvarfsgreining og blönduð (e. mixed) módel voru notuð til að kanna samband æfinga og svefns. Meðal svefnlengd var 6:32 (klst:mín) (± 39 mín) og breytileiki 63 mín (± 25 mín). Svefnlengd einstaklinga styttist og breytileiki svefnlengdar yfir vikuna jókst með auknum fjölda morgunæfinga. Svefnlengd var 5:36 og 5:06 meðal <16 og ≥ 16 ára sundfólks næturnar fyrir sundæfingar sem hófust ≤ kl. 6, marktækt skemmri en aðrar nætur (p<0.001). Meðal 16 ára og eldri var hagkvæmni svefns meiri þegar tvær æfingar höfðu átt sér stað daginn áður eða 87,6% samanborið við 84,0% þegar engin æfing átti sér stað (p<0.001). Ungt sundfólk sefur lítið og sérlega stutt næturnar fyrir morgunæfingar sem hefjast fyrir kl. sex. Breytileiki svefns eykst eftir því sem þátttaka í morgunæfingum eykst. Áhrif á heilsu og frammistöðu eru óþekkt en gætu verið umtalsverð. Leggja þarf áherslu á upplýsingagjöf til sundfólks, foreldra og þjálfara og skipuleggja æfingar þannig að líkur aukist á nægum svefni sundfólksins.

Reynsla unglinga af streitu, þreytu og svefni

Þorbjörg Rún Eysteinsdóttir, lýðheilsufræðingur, Skrifstofa fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar, Rannveig S. Sigurvinsdóttir, lektor, HVS, HÍ, Arna Hauksdóttir, HVS, HÍ og Edda Björk Þórðardóttir, nýdoktor, HVS, HÍ

Streita, þreyta og svefnleysi hafa aukist undanfarna áratugi meðal unglinga í vestrænum samfélögum. Þrátt fyrir að rannsóknir sýni neikvæð áhrif þessara þátta á líkamlega og andlega heilsu hafa fáar rannsóknir hérlendis verið gerðar og ekki hefur nægileg áhersla verið lögð á þessa þætti í forvarnarstarfi. Markmið rannsóknarinnar var að fá innsýn inn í upplifun íslenskra unglinga af streitu og þreytu í daglegu lífi ungs fólks og kanna helstu áhrifaþætti. Kynjaskipt rýnihópaviðtöl voru tekin við 114 nemendur í 8-10. bekk í átta grunnskólum á Íslandi (53% stúlkur) vorið 2018. Meginniðurstöður rannsóknarinnar voru að í öllum hópum lýstu unglingarnir því að þeir og jafnaldrar þeirra væru oft þreyttir, aðallega vegna skorts á svefni. Bentu þátttakendur á aðgerðir sem heimili, skóli og íþróttafélög geta beitt til að minnka svefnleysi og þreytu í þessum hópi. Þau töldu skólann byrja of snemma á morgnana, íþróttaæfingar væru of seint á kvöldin og skortur væri á eftirfylgni með svefnvenjum inni á heimilum þeirra. Að vera upptekin, aðallega við nám og íþróttir, var talið eðlilegt viðmið en að jafnframt gæti það þó valdið streitu, sérstaklega við að forgangsraða skyldum og athöfnum. Námstengdir þættir voru nefndir sem meginorsök streitu en stúlkur greindu þó frekar frá námstengdri streitu og lýstu einnig fleiri bjargráðum gegn þreytu. Af niðurstöðunum má álykta að þörf sé á samfélagsmiðuðum inngripum til að bæta svefn og efla andlega heilsu unglinga, líkt og gert hefur verið í öðru forvarnarstarfi með góðum árangri.